Söfnunarstefna

Kvikmyndasafn Íslands safnar íslenskum kvikmyndum sem og samvinnuverkefnum íslenskra og erlendra aðila og erlendum kvikmyndum sem teknar hafa verið á Íslandi ásamt kynningarefni, ljósmyndum og öðrum heimildum sem þeim tengjast. Að auki safnar Kvikmyndasafn Íslands tækjum til kvikmyndagerðar og kvikmyndasýninga. Safnið annast og hefur eftirlit með skylduskilum útvarps- og kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Söfnun kvikmynda og gripa byggir á fræðilegum og faglegum grunni. Safnkosturinn endurspeglar hlutverk safnsins og er grundvöllur miðlunar og rannsókna. Safnkostur Kvikmyndasafns skal veita innblástur fyrir nám og sköpun og ýta undir rannsóknir í kvikmyndagerð. Kjarninn í söfnunarstefnu Kvikmyndasafns Íslands er saga og þróun kvikmyndagerðar á Íslandi sem endurspegla íslenskan kvikmyndaarf.
Markmið
Að áhersla sé lögð á söfnun, varðveislu og skráningu íslensks kvikmyndaarfs.
Að áhersla sé lögð á rannsóknir og söfnun heimilda er tengjast íslenskum kvikmyndum.
Að fylgja eftir lögum um skylduskil til safna.
Að tækjum til kvikmyndagerðar og kvikmyndasýninga sé viðhaldið.
Að æ stærri hluti safnkosts verði sýnilegur almenningi á islandafilmu.is og kvikmyndasafn.is
Að safnkosti hreyfimynda verði viðhaldið m.a. með markvissri stafvæðingu og endurgerð kvikmynda.
Að safnkosturinn verði uppspretta náms, rannsókna og umræðu.
Að fagmennska og metnaður einkenni innra starf safnsins.
Hvaleyrarbraut 13,
220 Hafnarfjörður
Kt. 530678-0409
Opið virka daga
mán. - fim. 10:00 - 16:00
fös. 10:00 - 14:00
Logo Fyrirmyndar stofnun 2023