Myndir fyrir lýðveldið

Um kvikmyndun lýðveldishátíðarinnar 17. júní 1944

Eftir Gunnar Tómas Kristófersson

Hinn 17. júní 1944 sögðu Íslendingar upp sambandslagasamningnum við Danmörku og stofnuðu lýðveldi á hátíðarþingfundi á Þingvöllum. Hugur var í landsmönnum sem vildu gera daginn sem hátíðlegastan þrátt fyrir að stríð geisaði enn víða um heim. Læra átti af mistökum fyrri hátíðarhalda og í aðdragandanum var oft bent á hversu leitt það væri að eiga ekki góðar kvikmyndir frá alþingishátíðinni árið 1930. Þjóðhátíðarnefnd sem sá um skipulag hátíðarinnar vildi því láta gera kvikmynd um stofnun lýðveldisins.

 

Ekki fór þó allt að óskum við skipulagningu myndatökunnar. Kvikmyndagerðarmenn stóðu frammi fyrir flóknum og vandasömum aðstæðum. Frumstæður tækjabúnaður, fjárskortur og höft einkenndu vinnu þeirra og þá átti vanþekking á hljóðmyndum eftir að koma þeim í koll við eftirvinnslu myndarinnar. Hér að neðan verður leitast við að varpa ljósi á vinnslu myndarinnar Stofnun lýðveldis á Íslandi sem Kjartan Ó. Bjarnason og Vigfús Sigurgeirsson voru ráðnir til að taka og frumsýnd var árið 1946, tveimur árum eftir hátíðarhöldin. Skoðaður verður aðdragandi, skipulag, framkvæmd og eftirmál myndatöku á lýðveldishátíðinni sem fram fór dagana 17. og 18. júní 1944 á Þingvöllum og í Reykjavík. Leitast verður við að útskýra vandræðin við gerð þessarar fyrstu hljóðmyndar Íslendinga og þau tæknilegu vandamál sem leiddu til þess að myndin hefur sjaldan verið sýnd opinberlega. Þá verða erfið samskipti þjóðhátíðarnefndar við ljósmyndara rakin og ljósi varpað á flókna eftirvinnslu myndarinnar og neikvætt umtal eftir frumsýningu hennar.

 

Undirbúningur

Í aðdraganda lýðveldishátíðarinnar var sérstök þjóðhátíðarnefnd skipuð til að sjá um allt skipulag. Þar á meðal var gerð kvikmyndar um þennan merka atburð í sögu þjóðarinnar. Nefndin var eingöngu skipuð karlmönnum, einum skipuðum af hverjum þingflokki, fyrir utan formanninn. Í nefndinni sátu Jóhann Hafstein lögfræðingur, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki, Guðlaugur Rósinkranz yfirkennari, af Framsóknarflokki, Ásgeir Ásgeirsson, alþingismaður og bankastjóri, af Alþýðuflokki, og Einar Olgeirsson alþingismaður, af Sósíalistaflokki, en formaður var Alexander Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands.

Fundarhöld þjóðhátíðarnefndar hófust snemma vors 1944 og í mars hafði nefndin sent beiðni til Kjartans Ó. Bjarnasonar og Vigfúsar Sigurgeirssonar um að taka að sér myndatöku á lýðveldishátíðinni á 16 mm mjófilmu. (1) Þeir þágu boðið og réðu Eðvarð, bróður Vigfúsar, sér til aðstoðar. Kjartan Ó. Bjarnason var ekki lærður ljósmyndari, ólíkt flestum kvikmyndatökumönnum á þessum tíma. Hann var prentari og áhugaljósmyndari sem hafði töluverða reynslu af ljósmyndun og kvikmyndagerð. Myndir eftir Kjartan höfðu birst á forsíðum blaða, til að mynda Fálkans og Vikunnar. (2) Kvikmyndagerð hóf Kjartan árið 1936 þegar hann tók kvikmynd af skemmtiferð Ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs. (3) Fyrstu opinberu kvikmyndasýningar Kjartans voru af hátíðarhöldum 1. maí í Reykjavík sem hann sýndi á fundi sósíalista árið 1938. Líklega var þar um að ræða fyrstu litmynd sem Íslendingur tók og sýndi á landinu. (4) Kjartan gerði einnig myndir fyrir samtök og stofnanir, til dæmis af íþróttaviðburðum fyrir Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ), af Þórsmörk og öðru skóglendi fyrir Skógrækt ríkisins, af Vestmannaeyjum fyrir fræðslumálastjórn og af landsmóti á Hvanneyri fyrir Ungmennafélag Íslands. Flestar myndanna voru í lit og höfðu verið sýndar í kvikmyndahúsum og á skemmtunum víðs vegar um landið. Því var nafn Kjartans alls ekki óþekkt þegar kom að kvikmyndagerð og ekki óeðlilegt fyrir þjóðhátíðarnefnd að leita til hans vegna kvikmyndatöku. Vigfús Sigurgeirsson var ljósmyndari í Reykjavík og hafði fengið opinberan styrk til að læra kvikmyndagerð í Þýskalandi árið 1936 og kaupa vél til kvikmyndagerðar fyrir landkynningar erlendis. (5) Vigfús hafði meðal annars gert myndir fyrir opinbera aðila og Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og sýnt eigin myndir víða. Eðvarð Sigurgeirsson var ljósmyndari en hafði einnig reynslu af kvikmyndatöku á og við Akureyri. Kjartan átti að stjórna verkefninu þrátt fyrir að vera ekki lærður, hvorki í kvikmyndagerð né ljósmyndun, ólíkt Vigfúsi. Hermt er að Jón Sen hafi verið með þeim við upptökur á Þingvöllum að taka upp á svarthvíta filmu, en þær upptökur hafi að mestu leyti eyðilagst. (6)

Ekki voru allir á eitt sáttir um ráðningu Kjartans þar sem hann var ekki faglærður ljósmyndari. Í bréfi 7. júní var ályktun fundar Ljósmyndarafélags Íslands send þjóðhátíðarnefnd þar sem varað var við ráðningu Kjartans og því að traðkað sé á lögvernduðu starfsheiti ljósmyndara á Íslandi. (7) Kjartan mátti ekki titla sig ljósmyndara eða fá greitt fyrir ljósmyndir í atvinnuskyni en birti reglulega ljósmyndir í blöðum og tímaritum og hafði getið sér gott orð fyrir næmt auga. Þá stundaði hann kvikmyndagerð af nokkru kappi og seldi bæði vinnu sína og aðgang inn á myndirnar.

Sigurður Guðmundsson ljósmyndari skrifaði þjóðhátíðarnefnd 5. júní þar sem hann segir að Guðlaugur Rósinkranz hafi tjáð sér að engin kvikmyndun væri leyfð af hátíðarhöldunum önnur en sú sem nefndin sjálf stæði fyrir. Því biðji hann um skriflega staðfestingu á því að hann megi ekki annast kvikmyndun af hátíðarhöldunum fyrir Stórstúku Íslands. Hann skýtur föstum skotum á réttindaleysi Kjartans í lokaorðum sínum: „Hafi hátíðarnefndin eitthvað við þetta starf mitt að athuga eða rjettindi mín sem ljósmyndara óskast það tilkynnt skriflega.“ (8) Fór svo að þjóðhátíðarnefnd bannaði ekki ljósmyndun á hátíðinni og úthlutaði sérstökum merkjum sem félagar í Ljósmyndarafélagi Íslands gátu borið og þar með hlotið ótakmarkaðan aðgang að hátíðarsvæðinu. (9) Raunin varð þó önnur.

Einn reyndasti kvikmyndagerðarmaður Íslendinga á þessum tíma var Loftur Guðmundsson sem hafði fengist við kvikmyndagerð í hjáverkum frá árinu 1923 samhliða því að reka eina vinsælustu ljósmyndastofu bæjarins. Loftur hafði hug á því að gera mynd um stofnun lýðveldisins og sendi bréf til þjóðhátíðarnefndar 18. maí 1944, tveimur mánuðum eftir að nefndin réð Kjartan og Vigfús til verksins, þar sem hann óskaði leyfis til að taka upp lýðveldishátíðina óáreittur með eigin búnaði. (10) Hann hefði sérstaklega haft samband vegna þess að hann hefði áður verið ónáðaður af lögreglu við störf sín á svipuðum hátíðum og vildi forðast það nú. Áður hafði Loftur gert nefndinni tilboð um að taka hátíðina upp á breiðfilmu en það þótti nefndinni of kostnaðarsamt og hafnaði tilboðinu. Í kjölfarið skrifaði Loftur í blöðin og gagnrýndi nefndina fyrir ákvarðanir sínar og færði rök fyrir styrkleika breiðfilmu fram yfir mjófilmu, sér í lagi við sýningar. Loftur taldi það mikil mistök að taka myndina á mjófilmu enda væru aðeins rétt tæki í Tjarnarbíó til þess að sýna myndir af mjófilmu fyrir utan skóla og félagasamtök. Hann benti nefndinni þó á að mögulegt væri að ræða við bandaríska herinn varðandi upptökur á 35 mm breiðfilmu fyrir lægra verð en hann sjálfur gæti boðið. (11) Lofti var umhugað um að tökur á lýðveldishátíðinni yrðu sem bestar og samkvæmt bréfi hans til þjóðhátíðarnefndar 15. júní, aðeins tveimur dögum fyrir hátíðina, hafði hann hitt Guðlaug Rósinkranz sem bað hann um að taka upp á hátíðinni á breiðfilmu. Loftur skrifaði bréfið til að fá skriflega staðfestingu á því enda slíkar framkvæmdir kostnaðarsamar og gerðar með afar skömmum fyrirvara. (12) Engar myndir eftir Loft eru til af hátíðarhöldunum á Þingvöllum 17. júní. Aftur á móti eru myndir hans af hátíðinni í Reykjavík 18. júní hluti af mynd Lofts Reykjavík 1944 sem varðveitt er á Kvikmyndasafni Íslands. Þar má sjá stutt myndskeið af hátíðarhöldunum fyrir framan Stjórnarráðshúsið. (13)

Vert er að minnast á kvikmynd Óskars Gíslasonar af hátíðarhöldunum sem hann frumsýndi tveimur dögum síðar. Myndir af lýðveldishátíðinni tók Óskar einn síns liðs, bæði á Þingvöllum 17. júní og í Reykjavík daginn eftir, framkallaði og setti saman og var hún tilbúin til sýninga aðeins tveimur dögum eftir hátíðina sem þótti mikið afrek. (14) Hún var svarthvít og þögul, en Óskar lék lög af grammófón á sýningum. Hann virðist þá, ólíkt öðrum ljósmyndurum, hafa fengið sérstakt leyfi til að taka myndir af hátíðinni þó að hvergi sé minnst á hann í varðveittum samskiptum þjóðhátíðarnefndar. Viðbrögðin við myndinni voru afar jákvæð og fólk undrandi á að hægt væri að gera mynd klára til sýningar á svo stuttum tíma. Myndin var hins vegar sögð bera þess merki að vera unnin í flýti og að aðstæður til kvikmyndunar hefðu ekki verið til fyrirmyndar. (15) Óskar bauð forseta Íslands, alþingismönnum, ráðherrum og blaðamönnum á sérstaka frumsýningu myndarinnar sem varð vinsæl og sýnd með hléum fram í nóvember. Myndin varð til þess að almenningur fékk að berja hátíðina augum því að enn var langt í að mynd þjóðhátíðarnefndar liti dagsins ljós. (16)

 

Kvikmyndin

Dagskrá hátíðarhalda 17. júní hófst á Austurvelli með því að blómsveigur var lagður að styttu Jóns Sigurðssonar. Þar á eftir héldu ráðamenn til Þingvalla þar sem mikill mannfjöldi var samankominn og beið stofnunar lýðveldis. Veður var afar slæmt, gekk á með roki og rigningu, og setti það svip á daginn. Sérstakir þingpallar höfðu verið reistir á Lögbergi þar sem þinghald fór fram og forseti Íslands var kjörinn. Næsti hluti hátíðarhalda fór fram á völlunum síðar um daginn með mikilli og þjóðlegri dagskrá. Daginn eftir, 18. júní, var skipulögð dagskrá í Reykjavík fyrir framan Stjórnarráðshúsið og íþróttafólk hélt mót á Melavelli. Kvikmynd Kjartans fylgir dagskrá hátíðarhalda eftir í grófum dráttum. Hún er römmuð inn af myndum af náttúru Íslands og fólki við leik og störf. Mikið af því efni var endurnýtt úr öðrum myndum Kjartans, meðal annars Vestmannaeyjamynd hans. (17) Langur kafli myndarinnar er innan úr Alþingishúsinu þar sem allir þingmenn og ráðherrar eru kynntir með nærmynd. Að því loknu leggja ráðamenn blómsveig við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli áður en haldið er til Þingvalla.

Í Þingvallakaflanum hefst það sem má kalla erfiðasta hluta myndarinnar og þar sem finna má stærstu vankantana. Ekki þarf nákvæma rannsókn til að sjá að ekki náðist að taka nægjanlegt myndefni af ræðum þeirra sem koma fram. Upptaka Ríkisútvarpsins sem fyllir hljóðrás myndarinnar er mun lengri en það myndefni sem til var af ræðumönnum. Því hefur verið brugðið á það ráð við eftirvinnslu myndarinnar að afrita myndefni af ræðumönnum í pontu, sem verður óþarflega augljóst vegna þess að sömu skotin eru notuð ítrekað og afritin einstaklega óskýr. Flestir dagskrárþættir voru festir á filmu en aðeins stutt brot af hverjum og einum. Lítið er um filmuafganga af myndinni þannig að líklegast er að of lítið efni hafi verið tekið upp þennan dag. Það efni sem er í myndinni er stærstur hluti þess sem var tekið og af þeim eru flest skotin afrituð og endurtekin margoft. Gæði afrita eru auðsjáanlega verri en frumfilmunnar, litir útþynntir og allt yfirbragð grárra og verra. Hægt væri að afsaka slíkt ef skortur hefði verið á filmu en því var alls ekki að skipta.

Líklegasta skýringin á skorti á myndefni er þekkingarleysi aðstandenda myndarinnar á því að gera hljóðkvikmynd. Þar er átt við Kjartan og Vigfús og sér í lagi þjóðhátíðarnefnd sem sá um allt skipulag við gerð myndarinnar. Lagt var upp með stórar hugmyndir um að greypa þennan merkisdag í þjóðarsálina en þegar á hólminn var komið var myndin tekin upp án þess að taka tillit til hins mikla pláss sem hljóðsporið tekur og hversu mikils myndefnis það krefst. Myndefnið er mun líkara því sem venja var að taka upp við gerð þögulla mynda og skot af hverjum og einum dagskrárlið er fimm til tíu sekúndur að lengd, sem myndi henta vel í þögult yfirlit af dagskránni. Þegar átti að nýta myndefnið sem tekið hafði verið upp með hljóðupptökum af ræðum dugði það engan veginn til. Myndin er fyrsta hljóðmynd Íslendinga en ekki var tekin endanleg ákvörðun um að gera ætti hljóðmynd fyrr en í október 1944, fjórum mánuðum eftir hátíðina. (18)

 

Dæmi um endurnýtingu á sama skoti þar sem Björn Þórðarson forsætisráðherra flytur ræðu.
Biskup Íslands, Sigurgeir Sigurðsson, flytur ræðu. Sama er hér uppi á teningnum, myndefnið er augljóslega afritað og endurnýtt til að ná yfir hljóðrásina.

 

Eftirvinnsla og viðtökur

Eftir tökur voru filmurnar sendar til Bandaríkjanna til framköllunar fyrir milligöngu sendiráðs Íslands í Washington. (19) Þar voru þær unnar í nokkrum flýti þar sem hugmyndin var að erlendar fréttaveitur gætu nýtt filmuna til að segja frá stofnun lýðveldis á Íslandi gegn þeirri greiðslu að viðkomandi myndi klippa hana og sendiráðið leiðbeina við gerð handrits. Í svari frá Thor Thors, sendiherra í Bandaríkjunum, vegna filmunnar segir hann að hún sé komin úr framköllun en geti ekki talist hæf til sýningar á öðrum vettvangi en fyrir Íslendinga. (20) Ljóst var að það yrði dýrt að gera myndina sýningarhæfa, hljóðsetja hana og klippa til og enginn búnaður til þess á Íslandi. Kostnaður vegna kaupa á filmu og öðru sem sendiráðið í Washington hafði ráðist í varðandi myndina hljóðaði upp á rétt rúmar 14.000 krónur (eða um 1,6 milljónir króna á verðlagi ársins 2023). Ekki var mikið fé til skiptanna og hátíðin hafði kostað sitt. Því aðhafðist þjóðhátíðarnefnd lítið varðandi gerð myndarinnar fram á haust. Þá var allt myndefni komið úr framköllun og hægt að gera sér grein fyrir því hvað menn höfðu í höndunum.

Í greinargerð sem Agnar Klemens Jónsson skrifaði í utanríkisráðuneytinu um haustið vísaði hann í samtal við formann þjóðhátíðarnefndar, Alexander Jóhannesson, um að nefndin vildi gera hljóðmynd með tónlist og tali, sem væri römmuð inn af landslagsmyndum frá Íslandi, þar sem sýnt væri frá þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn sambandslagasamningsins og stjórnarskrá lýðveldisins og frá lýðveldishátíðinni. Myndin ætti að verða um tveggja tíma löng. Af greinargerð að dæma hafði þjóðhátíðarnefnd ekki ákveðið nákvæmlega hvers eðlis myndin ætti að verða fyrr en eftir tökur. Það hefur skapað augljósa óvissu við tökur á myndinni. (21) Myndina þyrfti að fullvinna í Bandaríkjunum þar sem sérfræðingur sæi um vinnslu en senda þyrfti Íslendinga út til að stjórna verkinu og sinna hljóðsetningu. Í greinargerð var leitað eftir samþykki fyrir fjármögnun slíkrar myndar og ætlaði ráðherra að skoða myndefnið áður en ákvörðun yrði tekin. Þjóðhátíðarnefnd sendi í kjölfarið beiðni til utanríkisráðuneytisins um að fullvinna myndina í Bandaríkjunum í samvinnu við þarlenda sérfræðinga og senda Kjartan Ó. Bjarnason út til að sjá um myndefni og heildarmynd verksins og Pál Ísólfsson til að huga að hljóðsetningu og vali á tónlist. (22) Tillaga að kvikmyndagerðinni var samþykkt í ráðuneytinu en átti að verða fjármögnuð af þjóðhátíðarnefnd. Þá átti sendiráðið vestra að huga að talsetningu myndarinnar með því að finna Íslending búsettan vestanhafs til að tala inn á myndina. Nokkrir menn voru nefndir í því samhengi í samskiptum sendiráðsins og utanríkisráðuneytisins en ekkert í samskiptunum bendir til að einhver hafi verið ráðinn.

Þegar kom að brottför til Bandaríkjanna sá Páll Ísólfsson sér ekki fært að fara með og hljóp Jón Þórarinsson tónskáld, sem var í námi ytra, undir bagga með hljóð og tónlist í myndinni. (23) Páll hefði þá valið tónlistina og undirbúið þulartexta þannig að hægt væri að fella hann við myndina. Samið hafði verið við fyrirtækið Hartley Productions í New York um að fullvinna myndina með Kjartani og átti vinna að ganga hratt fyrir sig. Kjartan var sendur út í apríl árið 1945 og var stefnt að því að frumsýna myndina 17. júní sama ár. (24) En Bandaríkjadvölin varð mun lengri en að var stefnt og Kjartan kom ekki aftur til Íslands fyrr en í desember, enda erfitt að fullvinna mynd án handrits og með mun lengra hljóðspor en myndefni.

Þjóðhátíðarnefnd bar ábyrgð á gerð kvikmyndarinnar Stofnun lýðveldis á Íslandi og réð Kjartan, Vigfús og Eðvarð til kvikmyndatöku en öll handritsgerð og önnur vinna tengd myndinni var á vegum nefndarinnar. Handrit að myndinni var ekki tilbúið fyrir upptökur og komu fyrstu óljósu hugmyndirnar um uppbyggingu myndarinnar ekki fram fyrr en eftir hátíðina. Haustið 1944 voru settar fram aðeins ítarlegri tillögur um grófa uppbyggingu hennar. (25) Eiginlegt handrit varð mögulega aldrei til en Kjartan sendi skeyti frá Bandaríkjunum í maí 1945 þar sem hann spyr hvenær von sé á því. (26) Vandræðin voru ekki síst afleiðing skipulags- og reynsluleysis af hálfu þjóðhátíðarnefndar sjálfrar sem gerði sér ekki grein fyrir því sem til þurfti við kvikmyndagerð og skildi ekki ólíka eiginleika hljóðmynda miðað við þöglar.

Í upphafi árs 1946 var myndin frumsýnd með pompi og prakt. Fyrstu viðbrögð voru kurteislegt hrós en fljótlega varð ljóst að myndin stóð ekki undir væntingum. Vissulega var um að ræða fyrstu hljóðmynd sem gerð var á Íslandi og það talið virðingarvert en gilti þó ekki sem afsökun fyrir kvikmyndagerðarmennina. Gagnrýnandi Vísis var ósáttur við myndina þó að hann hrósaði mörgum fallegum atriðum og gerði sér grein fyrir að veður hefði verið erfitt. Hann benti á að hljóðið væri hörmulegt og passaði ekki við myndefnið, ræðumenn væru aldrei í takt við hljóðrás og hefðu orðið aðhlátursefni ef ekki væri um jafnhátíðlega mynd að ræða og Stofnun lýðveldis á Íslandi. (27) Niðurstaðan var á þessa leið:

Þessi tilraun til kvikmyndagerðar er vafalaust góðra gjalda verð, en hún er svo viðvaningsleg, að hvergi gætir þar listrænna tilþrifa, – að því er bezt verður séð við fyrstu sýn, – og geta eftirkomendurnir því vafalaust sagt með fullum rétti, að ekki hafi verið fjöðrunum fyrir að fara á fluginu. (28)

Rýnir Vísis taldi að ekkert væri að þessari mynd sem dægurflugu en ef hún ætti að geymast fyrir ókomnar kynslóðir til að upplifa ættjarðarást og stolt á eigin landi þá dygði hún skammt. (29) Almannarómur var einnig á þá leið að myndin væri léttvæg og engum til sóma og fólk skildi ekki hvers vegna ekki hefði verið leitað út fyrir landsteina eftir aðstoð við gerð myndarinnar. Almenningur furðaði sig einnig á því að ákveðnum kvikmyndagerðarmönnum hefði verið gefið einkaleyfi á kvikmyndatöku á hátíðinni. (30)

Ein harðasta gagnrýni á myndina og skipulag við gerð hennar kom frá ljósmyndurum. Áður var minnst á áhyggjur sem ljósmyndarar á Íslandi höfðu af aðgengi að hátíðarhöldunum en þeim var að lokum tjáð að þeir fengju merki sem ætti að veita þeim aðgang að sérstökum ljósmyndarasvæðum. Þetta virðist þó ekki hafa gengið sem skyldi. Í bréfi Sigurðar Guðmundssonar í Vísi gagnrýndi hann myndina en þó fyrst og fremst skipulag nefndarinnar, framgöngu lögreglu gagnvart ljósmyndurum og ráðningu Kjartans sem aðaltökumanns hátíðarinnar. Greinin birtist í tveimur hlutum 26. og 27. febrúar 1946 og hófst á samantekt á mikilvægi hátíðarinnar og ábyrgðinni sem fylgir því að skjalfesta slíkan viðburð fyrir komandi kynslóðir. Þá ræddi Sigurður vandræði við myndatökur á alþingishátíðinni árið 1930 en fyrir misskilning varnaði lögregla ljósmyndurum aðgengis að hátíðarsvæðinu. Þeir gátu þar með ekki sinnt skyldum sínum. Reynt hefði verið að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig enda mikið í húfi við að festa slíkan viðburð á filmu.

Í bréfinu segir Sigurður að ljósmyndarar hafi beðið með að ræða opinberlega um málið því að þeir vildu sjá mynd Kjartans. Þegar í ljós hafi komið að ,,þessi svokallaða lýðveldishátíðarmynd Kjartans Ó. Bjarnasonar [væri] í fáum orðum sagt sundurlaust og illa tekið hrafl af því, sem fram fór þessa tvo hátíðisdaga“ hafi hann ákveðið að gera grein fyrir málinu í blöðum. (31) Hann virðist einnig hafa haft veður af því að ákveðið var að bjóða ekki erlendum fréttaveitum myndefni úr henni skömmu eftir hátíðina og hnýtir sérstaklega í það: „Hún er ekki einu sinni boðleg sem fréttamynd.“ (32) Hann telur upp marga tæknilega galla við myndina, meðal annars lýsingu, klippingu, samsetningu hljóðs og myndar og upptökuhraða. Þá bendir hann á margt í skipulagi þjóðhátíðarnefndar sem betur hefði mátt fara við gerð myndarinnar.

Tvennt þykir þó Sigurði sárast þegar kemur að lýðveldishátíðinni. Það fyrsta er að Kjartan hafi verið ráðinn „hirðljósmyndari“ þjóðhátíðarnefndar án þess að vera lærður ljósmyndari og stéttinni í heild sýnd óvirðing með þessari ráðningu. Hitt er að ljósmyndurum hafi verið bolað frá hátíðarsvæðinu með lögregluvaldi og að umsamið svæði sem þeir áttu að athafna sig á hafi verið fullt af öðrum gestum. (33) Sigurður skefur ekkert utan af óánægju sinni og segir um ráðningu Kjartans:

Það er áreiðanlegt, að sú ákvörðun hátíðarnefndar, að veita fúskara einkarétt á myndatöku á mikilvægustu augnablikum þjóðarinnar, og synja faglærðum mönnum um rétt til að inna af hendi sjálfkjörið hlutverk, er einsdæmi meðal menningarþjóða. (34)

Sigurður fer síðan yfir það hvernig ljósmyndarar voru reknir í burtu af svæðinu á meðan Kjartan og hans menn hafi fengið að starfa óáreittir, meðal annars á sérsmíðuðum palli til að ekkert fengi truflað þá. Meira að segja myndatökumenn varnarliðsins sem voru mættir sérstaklega til að festa viðburðinn á filmu hafi ekki fengið að starfa óáreittir (35) þrátt fyrir að aðrir erlendir blaðamenn hafi ekki getað þýðst boð þjóðhátíðarnefndar um að vera viðstaddir hátíðarhöldin vegna heimsstyrjaldarinnar. (36) Þá víkur Sigurður að öllum svarthvítu kvikmyndafilmunum sem voru keyptar fyrir hátíðina sem engar upptökur hafi varðveist af en hann segir þær hafa eyðilagst þegar Kjartan og aðstoðarmaður hans hafi ætlað að framkalla myndirnar og ekki kunnað nægilega til verka. (37) Sigurður lýkur greininni með því að segja að ljósmyndarar hafi ekki viljað peninga eða aðrar greiðslur fyrir vinnu sína á lýðveldishátíðinni heldur aðeins að fá að starfa í friði, óáreittir af lögreglu og boðum og bönnum þjóðhátíðarnefndar. Aðeins nefndin bæri ábyrgð á stöðu mála og á afrakstrinum af vinnu Kjartans.

Sakir sem Sigurður bar á þjóðhátíðarnefnd voru ekki nýjar af nálinni því að samkvæmt bréfi nefndarinnar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í ágúst árið 1944 hafði sakadómara í Reykjavík þá þegar borist kæra frá ljósmyndurum.(38) Í bréfinu er ásökunum vísað á bug, vissulega hefði afmarkað svæði fyrir ljósmyndara fyllst af öðrum gestum en þeir hefðu stigið út fyrir þau mörk sem nefndin hafði samið um og farið upp á þingpalla. Á tímabili hefðu þeir verið of margir þannig að þurft hefði að bægja nokkrum frá. Þjóðhátíðarnefnd segir einnig að framkoma ljósmyndara þennan dag hafi verið stéttinni til skammar. (39) Í grein sinni segir Sigurður að málalyktir hefðu verið þær að þáverandi dómsmálaráðherra, Einar Arnórsson, hafi neitað að málið yrði rannsakað og látið það niður falla. (40) Einnig kærði Carl Ólafsson ljósmyndari framkomu lögreglu í sinn garð við hátíðarhöld í Reykjavík 18. júní, þar sem honum var bannað að fara inn á hátíðarsvæðið til að sinna vinnu sinni. Carl vitnar í samtal við lögreglustjórann í Reykjavík þar sem sá segist hafa fylgt ströngum fyrirmælum þjóðhátíðarnefndar og sérstaklega Guðlaugs Rósinkranz, sem hafi bannað öllum ljósmyndurum öðrum en þeim sem hefðu sérstakt leyfi nefndarinnar að fara inn á svæðið. (41) Álykta má að svipuð fyrirmæli hafi legið fyrir á Þingvöllum 17. júní. Viðbrögð við kæru Carls hafa ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit en ekkert bendir til að frekari rannsókn hafi farið fram.

Viðbrögð þjóðhátíðarnefndar við skrifum Sigurðar voru í nafni Guðlaugs Rósinkranz og birtust í Vísi rúmum hálfum mánuði síðar. Þar segir Guðlaugur aðra sögu af atburðum. Vissulega hafi hið afmarkaða svæði fyrir ljósmyndara fyllst og líkt og aðrir starfsmenn hátíðarinnar hafi þeir þurft að vinna við þrengsli en ólíkt öðrum væru þeir gjarnir á að kvarta undan því. Rétt var einnig að lögregla hafi verið beðin um að vísa ljósmyndurum af þingpöllum og halda þeim frá þar sem annars hefðu þeir fyllst um of. (42) Um ráðningu Kjartans og Vigfúsar segir Guðlaugur að þeir hafi engan veginn átt einkarétt á myndatökum á hátíðinni, þvert á móti vildi nefndin stuðla að meiri myndatöku sem síðan væri hægt að semja um kaup á. Þá hafi Kjartan og Vigfús báðir haft nokkra reynslu af kvikmyndatöku fyrir opinbera aðila, Vigfús hafi gert mynd fyrir SÍS og Kjartan fyrir Skógrækt ríkisins, Íþróttasamband Íslands og fræðslumálaskrifstofu. Fáir hér á landi gátu státað af viðlíka reynslu við kvikmyndagerð, nema mögulega Loftur Guðmundsson, en tilboð hans hafi verið of hátt og hann aðeins haft eina tökuvél. Það hafi nefndinni þótt of lítið fyrir jafnviðamikla hátíð og lýðveldishátíðina og því hafi tilboði hans verið hafnað. (43) Að vísu mætti benda á að Loftur hafði samband við nefndina eftir að gengið hafði verið frá ráðningu Kjartans og Vigfúsar og því fór líklega enginn samanburður fram á Lofti og öðrum mögulegum kostum. Guðlaugur segir að fimm tökumenn hafi verið að störfum á þeirra vegum þennan dag, Vigfús, Kjartan og Eðvarð, og samkvæmt Sigurði Guðmundssyni hafi Jón Sen séð um að taka á svarthvíta filmu. (44) Hver fimmti tökumaðurinn var er ekki ljóst en hann var ekki ljósmyndari því að Guðlaugur segir að tveir af þremur kvikmyndatökumönnum myndarinnar hafi verið ljósmyndarar og vísar þar til Vigfúsar og Eðvarðs. (45)

Guðlaugur segir meirihluta frásagnar Sigurðar vera lygi og uppspuna en vissulega megi deila um gæði myndar Kjartans. Gagnrýni á myndina segir Guðlaugur ósanngjarna og að dómar hafi verið skrifaðir um myndina af mönnum sem hafi ekki séð hana. (46) Ekki væri þó öll von úti enn með myndina, hana mætti „auðveldlega laga og fullkomna“:

Sjálfsagt er að gera það svo að hún verði sem sönnust og bezt mynd af því sem gerðist á hinum merkilegu tímamótum, er Ísland varð lýðveldi, það er aðalatriðið í þessu máli en ekki hitt hvort þessi eða hinn ljósmyndarinn hafi komist hindrunarlaust í gegnum mannþröngina á Þingvöllum. (47)

Eftir þessi orð Guðlaugs heyrðist lítið af málinu en þau varpa skýru ljósi á það skipulags- og reynsluleysi sem einkenndi kvikmyndun hátíðarhaldanna. Þjóðhátíðarnefnd bar ábyrgð á skipulaginu og þeim takmörkunum sem settar voru gagnvart ljósmyndurum og myndatökumönnum. Þær gerðu öllum erfiðara um vik við að festa viðburðinn á filmu og vegna þeirra er til takmarkað myndefni af hátíðinni. Veður lék alla grátt á Þingvöllum 17. júní, sérstaklega kvikmyndatökumenn. Það skýrir þó ekki á fullnægjandi hátt hversu mjög myndefni skortir af lýðveldishátíðinni 1944.

Í lokaorðum í svari til Sigurðar vísar Guðlaugur til þess að gera eigi betur við myndina og strax árið 1946 var rætt um að senda hana út til endurgerðar. (48) Ekkert virðist þó hafa verið aðhafst fyrr en árið 1950 að endurbætur á myndinni fóru af stað. Kjartan var fenginn í verkið en eitthvað virðist hafa vantað upp á frumfilmu myndarinnar og lét hann því gera meistara (e. master print) af öllum filmum sem yrði eins og frumfilman og nota ætti við frekari vinnslu á myndinni. (49) Eftir nokkurra ára hlé, þar sem myndin var ekkert sýnd, átti að endurbæta hana. Það fór ekki betur en svo að tæknistofan í Bandaríkjunum sagði filmuna of illa farna til að gera góð afrit af henni og því lítið sem hægt væri að bjarga. (50) Í febrúar árið 1951 hafði Kjartan fengið vilyrði utanríkisráðuneytisins fyrir því að hann nyti aðstoðar sendiráða Íslands í Lundúnum og Kaupmannahöfn við að endurgera Stofnun lýðveldis á Íslandi. (51) Lengja átti myndina og bæta eftir fremsta megni. Kjartan tók afrit af henni í Lundúnum og fór með til Hafnar þar sem hann var í sýningarferð með aðra mynd um landið. Það þýddi að hann gat lítið sinnt myndinni en sendiráðið í Kaupmannahöfn furðaði sig í greinargerð til forsætisráðuneytisins á því hversu illa væri hægt að treysta Kjartani bæði með vinnu og kostnaðarliði. Verkið gengi illa og væri alldýrt en samið hafði verið við fyrirtæki sonar Peters Petersens (Bíó-Petersens sem rak Gamla bíó um árabil í Reykjavík), Jørgens Høbergs Petersens, um að vinna myndina í Danmörku. (52) Þá hófst nokkuð ruglingslegt tímabil þar sem myndin var í vinnslu bæði í Lundúnum og Höfn á sama tíma, en við myndina átti að bæta atriði, sem ekki var í upprunalegu útgáfunni, af því þegar Björn Þórðarson forsætisráðherra las upp heillaóskaskeyti Danakonungs. (53) Þessi viðbót við myndina tók rétt um tvö ár í vinnslu sem er lýsandi fyrir það hversu erfitt var að vinna myndina sökum ástands hennar. (54) Myndin komst að lokum til Íslands og var frumsýnd 17. júní árið 1952 og sýnd nokkrum sinnum í Reykjavík áður en sýningarferð um landið hófst. Ekki þótti mikið til hennar koma en gagnrýnendur voru ekki eins heitir í andúð sinni og við frumsýninguna árið 1946. Tæknilega þótti hún slöpp og hljóðið ekki gott en hún væri góð söguleg heimild. (55) Þriðja útgáfa myndarinnar var enn í Danmörku og kom ekki heim fullgerð fyrr en vorið 1953 en virðist ekki hafa verið sýnd opinberlega. Hver munurinn er á útgáfunni sem unnin var í Lundúnum og þeirri frá Kaupmannahöfn er ómögulegt að segja en líklegast er að Pétur Pétursson hafi verið þulur í þeirri útgáfu. (56)

Þegar sett var í myndina nýtt atriði af Birni Þórðarsyni forsætisráðherra þar sem hann las upp heillaóskaskeyti Danakonungs varð til ný útgáfa af myndinni. Ekki hafa varðveist eintök af upprunalegri útgáfu myndarinnar án kveðju konungs á Kvikmyndasafni Íslands. Þá er þulur myndarinnar einnig í þeim útgáfum sem varðveist hafa. Hvergi er minnst á þul í neinni umfjöllun um myndina eða í samskiptum ráðuneyta, sendiráða og annarra aðstandenda um hana. Engin launagreiðsla var innt af hendi til þular og ekkert sem bendir til þess að þulur hafi verið til að lýsa atburðum myndarinnar og skýra. Fyrsta skiptið sem minnst er á þul myndarinnar er fyrir sýningu hennar í Sjónvarpinu árið 1969 og er það þá Pétur Pétursson, reyndur þulur Ríkisútvarpsins. (57) Í þeim heilu útgáfum myndarinnar sem varðveittar eru á Kvikmyndasafni Íslands er ýmist ekkert hljóð, hljóð með þulartexta Péturs og nokkrar prufur með rödd Kjartans Ó. Bjarnasonar. Hljóðgæði þulartexta eru slík að nærri lætur að hann hafi verið festur á lakkplötu um 1950 og reikningur frá Pétri frá 1951 um lestur inn á myndina staðfestir þær vangaveltur. (58)

 

Kvikmyndagerð í fæðingu

Stofnun lýðveldis á Íslandi átti að vera tákn fyrir þjóð í vexti og fanga á filmu einn merkasta atburð í sögu hennar. En vegna reynsluleysis, tímaskorts og erfiðra aðstæðna náðist ekki að fanga nema hluta hátíðarhaldanna. Myndinni var síðan stungið ofan í skúffu og hún geymd þar í áratugi. Ákvarðanir þjóðhátíðarnefndar um að takmarka aðgengi annarra ljósmyndara að hátíðarsvæðinu gerðu það að verkum að lítið er til af myndefni frá þessari merku hátíð miðað við hvað annars hefði getað orðið.

Kvikmyndataka á Þingvöllum var ekki nægilega vel skipulögð og veðrið ekki nógu góð afsökun fyrir hinum mikla skorti á myndefni frá þessum degi. Þau stuttu myndbrot sem voru tekin upp fylgdu hefðum þögulla mynda og voru alltof stutt fyrir hljóðmyndina sem í bígerð var. Eftirvinnsla myndarinnar litaðist af mikilli bjartsýni um að hægt væri að bjarga málum en vera Kjartans við eftirvinnslu í New York sýndi að litlu var viðbjargandi. Afrituð skot í litlum gæðum náðu að dekka hljóðsporið en sökum þeirra verður myndin erfið áhorfs. Tilraunir til að endurbæta myndina mistókust og þegar þulartexti Péturs Péturssonar var kominn í hana var það orðið of seint og myndin grafin ofan í skúffu. Endurbætur sem Kvikmyndasafn Íslands réðst í árið 1995 breyttu miklu en erfitt var að stoppa í það sem vantaði enda of fáar upptökur fyrir hendi til að vel mætti verða. (59)

Þrátt fyrir allt þetta er Stofnun lýðveldis á Íslandi stórmerkileg heimild um sögulegan dag og hefur að geyma fjársjóð í myndum af ríkisstjórn, þingmönnum og öðrum fyrirmennum. Hún er einnig til vitnis um upptakt í kvikmyndagerð á Íslandi sem hófst tæpum áratug fyrr og náði hámarki árið 1949 þegar ellefu heimildarmyndir voru frumsýndar eftir ýmsa frumkvöðla og ofurhuga íslenskrar kvikmyndagerðar ásamt fyrstu leiknu myndinni í fullri lengd. (60) Kjartan Ó. Bjarnason er einn af merkustu kvikmyndagerðarmönnum þjóðarinnar en hefur litla athygli fengið og er nánast gleymdur í kvikmyndasögunni. Þó að Stofnun lýðveldis á Íslandi sé langt frá því að vera fullkomin mynd hefur hún að geyma nokkur afar falleg skot frá hendi Kjartans, fyrsta manninum sem hafði kvikmyndagerð að aðalatvinnu á Íslandi en ferill hans spannaði þrjá áratugi bæði á Íslandi og erlendis.

Stofnun lýðveldis á Íslandi lifir sem minning um tímabil í íslenskri kvikmyndagerð þegar menn lærðu á nýjan miðil með því að prófa sig áfram nánast án allrar utanaðkomandi aðstoðar. Erfiðleikar við kvikmyndagerð á Íslandi voru margir og kostnaður óhóflegur, kvikmyndagerðarfólk þurfti að leggja allt í sölurnar til að sinna því sem fyrir flestum þeirra gat einungis orðið áhugamál. Með stofnun lýðveldis á Íslandi var komið að sjálfstæðri þjóð að taka eigin myndir á eigin forsendum og án utanaðkomandi afskipta, en með þeim hnökrum sem slíku fylgja.

 

Tilvísanir:

1. ÞÍ (Þjóðskjalasafn Íslands), Þ-7, Fundargerðir þjóðhátíðarnefndar, bréf til Vigfúsar Sigurgeirssonar frá þjóðhátíðarnefnd 16. mars 1944, og Þjóðskjalasafn Íslands, Þ-7, Fundargerðir þjóðhátíðarnefndar, bréf til Kjartans Ó. Bjarnasonar frá þjóðhátíðarnefnd 16. mars 1944.

2. Sjá meðal annars Vikan, 7. september 1939, bls. 1, og Fálkinn 30. janúar 1937, bls. 1.

3. Sjá KvSÍ: Kf 02-9, 1 og Kf 02-9, 2.

4. Þjóðviljinn, 4. október 1938, bls. 1.

5. Íris Ellenberger, „Íslendingar í heimi framtíðarinnar: Kvikmyndir Vigfúsar Sigurgeirssonar og landkynningarvakningin 1935–1940“, Þjóðin, landið og lýðveldið: Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður, ritstjóri Inga Lára Baldvinsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, bls. 27–48, bls. 29.

6. Sigurður Guðmundsson, „Lýðveldishátíðarnefnd og ljósmyndararnir. Niðurl.“ Vísir, 27. febrúar 1946, bls. 2.

7. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946, bréf frá Ljósmyndarafélagi Íslands til þjóðhátíðarnefndar, 7. júní 1944.

8. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946, bréf frá Carli Ólafssyni til þjóðhátíðarnefndar, 3. júlí 1944.

9. Sama heimild.

10. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946, bréf frá Lofti Guðmundssyni til þjóðhátíðarnefndar, 18. maí 1944.

11. Loftur Guðmundsson, „Kvikmyndun lýðveldishátíðahaldanna“, Morgunblaðið, 31. maí 1944, bls. 10.

12. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946, bréf frá Lofti Guðmundssyni til þjóðhátíðarnefndar, 15. júní 1944.

13. KVSÍ: Kn 81-8, 4 – Kn 81-8, 9.

14. Sigurður Jón Ólafsson, „„Fámennið hefur háð okkur““, Þjóðviljinn, 13. janúar 1972, bls. 7.

15. Vísir, 22. júní 1944, bls. 3.

16. Alþýðublaðið, 22. júní 1944, bls. 2, og Þjóðviljinn, 21. nóvember 1944, bls. 8.

17. Ekki fór Kjartan alltaf gætilega með réttindi þeirra mynda sem hann gerði. Skógræktarstjóri sendi þjóðhátíðarnefnd reikning vegna myndefnis sem Kjartan hafði þegar nýtt í mynd sem hann hafði gert fyrir Skógrækt ríkisins. Slík endurnýting myndefnis tíðkaðist meðal kvikmyndagerðarmanna til að spara filmu og kostnað. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946, bréf Hákonar Bjarnasonar til þjóðhátíðarnefndar, 14. desember 1945.

18. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, greinargerð í utanríkisráðuneytinu, 26. október 1944.

19. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, bréf frá þjóðhátíðarnefnd til sendiráðs Íslands í Washington, 13. júlí 1944.

20. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, frá sendiráði Íslands í Washington til utanríkisráðuneytisins, 7. júlí 1944.

21. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, greinargerð í utanríkisráðuneytinu, 26. október 1944.

22. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, þjóðhátíðarnefnd til forsætisráðherra Ólafs Thors, 19. mars 1945.

23. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946 (Stofnun lýðveldis á Íslandi nema skjöl 29-36). Jón Þórarinsson til sendiráðs Íslands í Washington, 28. ágúst 1945.

24. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, þjóðhátíðarnefnd til forsætisráðherra, 19. mars 1945.

25. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, kvikmynd þjóðhátíðarnefndar, 30. nóvember 1945.

26. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, símskeyti frá Kjartani Ó. Bjarnasyni til Ice. legation, 7. maí 1945.

27. K.G. „Þjóðhátíðarnefnd: Stofnun lýðveldis á Íslandi“, Vísir, 8. janúar 1946, bls. 4.

28. Sama heimild.

29. Sama heimild.

30. „Bergmál“, Vísir, 12. janúar 1946, bls. 4.

31. Sigurður Guðmundsson, „Lýðveldishátíðarnefnd og ljósmyndararnir. Niðurl.“ Vísir, 27. febrúar 1946, bls. 2

32. Sama heimild.

33. Sigurður Guðmundsson, „Lýðveldishátíðarnefnd og ljósmyndararnir“, Vísir, 26. febrúar 1946, bls. 2, og ÞÍ: Þ-7, Fundargerðir þjóðhátíðarnefndar, þjóðhátíðarnefnd til dóms- og kirkjumálaráðuneytis um bréf frá sakadómi, 3. ágúst 1944.

34. Sigurður Guðmundsson, 26. febrúar 1946.

35. Sigurður Guðmundsson, 27. febrúar 1946.

36. ÞÍ: Þ-7, Fundargerðir þjóðhátíðarnefndar, þjóðhátíðarnefnd til utanríkisráðuneytisins, 27. apríl 1944.

37. Sigurður Guðmundsson, 27. febrúar 1946, bls. 6.

38. ÞÍ: Þ-7, Fundargerðir þjóðhátíðarnefndar, þjóðhátíðarnefnd til dóms- og kirkjumálaráðuneytis um bréf frá sakadómi, 3. ágúst 1944.

39. Sama heimild.

40. Sigurður Guðmundsson, 26. febrúar 1946, bls. 2.

41. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946 (Stofnun lýðveldis á Íslandi nema skjöl 29–36), Carl Ólafsson til þjóðhátíðarnefndar, 3. júlí 1944.

42. Guðlaugur Rósinkranz, „Ljósmyndararnir og lýðveldishátíðin: nokkrar leiðréttingar“, Vísir, 15. mars 1946, bls. 2.

43. Sama heimild.

44. Sigurður Guðmundsson, 27. febrúar 1946, bls. 2.

45. Guðlaugur Rósinkranz, „Ljósmyndararnir og lýðveldishátíðin: nokkrar leiðréttingar“.

46. Sama heimild.

47. Sama heimild.

48. ÞÍ: Forsætisráðuneyti, 1989, B0506, B-Bréfasafn, 1944–1946 (Stofnun lýðveldis á Íslandi nema skjöl 29–36), Gísli Sveinsson til formanns þjóðhátíðarnefndar Alexanders Jóhannessonar, 6. febrúar 1946.

49. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, Kjartan Ó. Bjarnason til utanríkisráðuneytisins, skýringar frá Kjartani, 13. janúar 1950.

50. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, sendiráð Íslands í Washington við utanríkisráðuneytið, 6. febrúar 1950.

51. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, Alexander Jóhannesson, formaður þjóðhátíðarnefndar við utanríkisráðuneytið, 5. febrúar 1951.

52. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, sendiráðið í Kaupmannahöfn til forsætisráðuneytisins, 16. maí 1951.

53. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, forsætisráðuneytið til utanríkisráðuneytis, 5. mars 1953.

54. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn til utanríkisráðuneytisins, 30. mars 1953.

55. Morgunblaðið, 17. júní 1952, bls. 16, og Alþýðublaðið, 17. júní 1952, bls. 4.

56. ÞÍ: UTN II/3 1968 (mappa 1. 6. 2. a. Lýðveldishátíð 1944 (kvikmyndir og filmur). Kjartan Ó. Bjarnason, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn til utanríkisráðuneytisins varðandi filmur frá Danmörku, 30. mars 1953.

57. Morgunblaðið, 17. júní 1969, bls. 29.

58. Ályktunin var dregin af sérfræðingum á safni RÚV eftir að hafa hlustað á upptökuna og kannað hvort einhverjar vísbendingar væru um upptökur í kringum sýningu myndarinnar í Sjónvarpinu árið 1969. Að lokum fékkst staðfesting í skjölum frá Menntamálaráðuneytinu: ÞÍ, Menntamálaráðuneytið, 1989, B/575, B-Bréfasafn, mappa K-3 (Kvikmyndir I, nóv. 1941 – maí 1954), reikningur um greiðslu til Péturs Péturssonar fyrir lestur á texta fyrir kvikmynd Kjartans Ó. Bjarnasonar „Lýðveldishátíðin 1944“, 16. apríl 1951.

59. Tíminn, 3. júní 1995, bls. 11.

60. Fyrsta leikna íslenska myndin í fullri lengd var gerð af Lofti Guðmundssyni árið 1949 og nefndist Milli fjalls og fjöru. Erlendur Sveinsson, „Árin 12 fyrir daga Sjónvarps og Kvikmyndasjóðs“, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson (Forlagið, Reykjavík, og Art.is, 1999), 868–873; bls. 869.