Ódauðleg dansspor

Ruth Hanson og dansmyndin

Eftir Gunnar Tómas Kristófersson

Konur eru ekki mjög sýnilegar í kvikmyndasögu Íslands þar til eftir „kvikmyndaþíðuna“ um miðja tuttugustu öld nema sem leikkonur, danshöfundar eða tónskáld. (1) Allir helstu og umtöluðustu kvikmyndagerðarmenn landsins voru karlar og öll umfjöllun um kvikmyndir var um þá og þeirra aðkomu að kvikmyndagerð. (2) Þetta þýðir þó ekki að konur hafi ekki komið að kvikmyndagerð fyrstu áratugina. Við rannsóknir á kvikmyndasögu Íslands rakst ég á áhugaverða mynd sem varðveitt er á Kvikmyndasafni Íslands og hefur ekki verið fjallað um áður. Það er kennslumynd í dansi frá árinu 1927 sem hin stórmerkilega íþróttakona og danskennari Ruth Hanson gerði í samstarfi við Loft Guðmundsson. Myndin ber titilinn Flat-Charlestone og í henni sést Ruth ásamt systur sinni Rigmor Hanson dansa dansinn Flat Charleston áhorfendum til glöggvunar. Með uppgötvun myndarinnar er hægt að færa aðkomu kvenna að kvikmyndagerð á Íslandi 25 ár aftur í tímann miðað við það sem áður hefur verið gert og kalla Ruth frumkvöðul í kvikmyndagerð á Íslandi.

Tvær myndir úr þessari merkilegu kvikmynd prýða kápu Sögu. Hér á eftir verður fjallað um kvikmyndagerð Ruthar og birtu brugðið á kafla í lífshlaupi hennar eins og heimildir leyfa, en þær eru oft af skornum skammti, frá því að hún kom heim úr námi í Kaupmannahöfn þar til hún gifti sig til Skotlands og hvarf almenningi sjónum. Einnig verður reynt að gera myndinni skil sem einstakri heimild um dansmenningu á Íslandi og áhrif alþjóðlegra stórborga á þann vísi að borgarmenningu sem finna mátti í Reykjavík á millistríðsárunum. Þá verður rýnt í viðtökur fjölmiðla og almennings við myndinni en markmið þessarar greinar er þó fyrst og fremst að vekja athygli á kvikmyndaafreki Ruthar og umsvifum hennar í reykvískri menningu á ákveðnu tímabili.

Ruth Hanson

 

Ruth kemur heim

Margt er á huldu um ævi Ruthar Hanson sem gerir hana nokkuð leyndardómsfulla. Hún kom heim frá Kaupmannahöfn eftir nám við Paul Petersens Institut árið 1926 þar sem hún hafði lært leikfimikennslu og dans. (3) Við heimkomuna fór Ruth strax að vekja athygli, sér í lagi fyrir mikla danskunnáttu og fimi sem hún og systur hennar, Ása og Rigmor, sönnuðu á sýningum víða um bæinn en einnig með stofnun dansskóla fyrir börn og fullorðna og reglulegri sundkennslu fyrir almenning. (4) Ruth fæddist árið 1906 og var dóttir hjónanna Hannesar Snæbjarnarsonar Hanson, kaupmanns í Reykjavík og fyrrum gullgrafara, og Gerdu Hanson húsmóður. Ungur að árum fór Hannes faðir Ruthar með fjölskyldu sinni til Vesturheims en sneri einn aftur til að leita að gulli á Snæfellsnesi árið 1905. (5) Eftir að þær tilraunir misheppnuðust opnaði hann verslun að Laugavegi 29. Gerda móðir Ruthar var dönsk en flutti til Íslands eftir að hún og Hannes kynntust. Í minningargrein um Gerdu kemur fram að á heimili systranna hafi ríkt mikil gleði og hafi móðir þeirra séð um listrænt uppeldi þeirra og gert það af kostgæfni. Kenndi hún Ruth, Rigmor og Ásu dans strax í æsku en leiðir þeirra allra áttu eftir að tengjast danslistinni að einhverju leyti. (6)

Staða kvenna á Íslandi á þriðja áratugnum var að sumu leyti mótsagnakennd. Hún einkenndist af dugnaði, framsýni og því að brjóta niður múra en einnig af ríkjandi hugmyndafræði þess að konur ættu að sinna ,,kvennastörfum“ eða vera húsmæður. Í bókinni Konur sem kjósa er til dæmis fjallað um gríðarlega elju margra kvenna við að brjótast til metorða eða einfaldlega til atvinnu. Sumar náðu að mennta sig, jafnvel erlendis, og stofna eigin fyrirtæki og fellur Ruth augljóslega í þann flokk. Aftur á móti voru hugmyndir um kvennastörf þröngt skilgreindar og þótti þar lykilatriði að konur sinntu störfum „þar sem „kveneðlið“ fengi notið sín“. (7) Það var því á brattann að sækja fyrir Ruth en hún virðist ekki hafa látið „hefðbundna“ stöðu kvenna í samfélaginu aftra sér og fór sínar eigin leiðir. Til að vekja athygli á dansskólanum sem hún hafði stofnað og bjóða upp á spennandi viðburði í Reykjavík skipulagði Ruth danssýningar ásamt systrum sínum sem hlutu undantekningarlítið lof í blöðunum þar sem sagt var frá dynjandi lófataki og mikilli ánægju áhorfenda. Athygli vekur oft afar keimlíkt orðalag ólíkra blaða um sýningarnar og því er líklegt að Ruth sjálf hafi sent þeim fréttatilkynningar til að vekja athygli á vinnu sinni og stjórna þannig sinni eigin ímyndarsköpun í samfélaginu. (8) Ruth sinnti einnig sundkennslu en sú íþrótt var henni ofarlega í huga og var hún svo framúrskarandi sundkona að eftir því var tekið. Hún tók þátt í stakkasundmóti sumarið 1927 þar sem hún varð Íslandsmeistari í björgunarstakkasundi en hún bjargaði Rigmor systur sinni og bætti Íslandsmetið í leiðinni. (9) Ruth varð fyrst kvenna og þriðji sundmaðurinn í sögunni til að synda Engeyjarsund, frá Engey til Reykjavíkur, það gerði hún einnig sumarið 1927 á rétt rúmri klukkustund. (10) Þetta sund þykir frækilegt og er þess minnst reglulega þegar fjallað er um íþróttaafrek Íslendinga á tuttugustu öld.

Haustið 1927 hélt Ruth til Englands með Gullfossi og var í tvo mánuði á ferðalagi með viðkomu í London, París og Kaupmannahöfn þar sem hún lærði alla nýjustu og vinsælustu dansana og tilbrigði við þá, meðal annars Flat Charleston. (11) Við heimkomu opinberaði Ruth trúlofun sína við William Murray Anderson, skoskan mann sem hún hafði líklegast kynnst á ferðalögum sínum og átti síðar eftir að flytja með til Skotlands. (12) Ruth var augljóslega veraldarvön og þekkti vel til borgarmenningar Evrópu þar sem hún ferðaðist og naut lífsins á milli þess sem hún kynnti sér það nýjasta í danssenu borganna. Slíkt frelsi og innflutningur á erlendri menningu gæti hafa gert Ruth að skotspóni gárunga á Íslandi sem fannst þjóðlegri sveitamenningunni stafa ógn af erlendum tískufyrirbrigðum. Slíkar „Reykjavíkurstúlkur“ urðu jafnvel fyrir aðkasti vegna klæðaburðar, útlits og orðfæris sem hefðarpésum fannst gera lítið úr íslenskum siðum og venjum. (13)

Í stórborgum Evrópu voru alþýðlegir dansstaðir og skemmtanahald í örum vexti á millistríðsárunum og sömu sögu má segja um Reykjavík. (14) Vöxtur þéttbýlisins hafði miklar menningarlegar breytingar í för með sér. Ruth var í hringiðunni bæði á Íslandi og erlendis og á ferðalögum sínum flutti hún erlenda dansmenningu með sér til Íslands og kynnti fyrir Íslendingum. Á þessum árum voru þjóðdansar enn vinsælir á Íslandi og konur á borð við Stefaníu Guðmundsdóttur og Sesselju Hansdóttur kenndu þá um og eftir fyrra stríð en þeir voru þá einnig álitnir ákveðin uppreisn gegn gildum samfélagsins um stöðu konunnar. Sesselja segir svo frá í viðtali við Morgunblaðið í tilefni 70 ára afmælis hennar:

Ég var ekkert fyrir það að stoppa í sokka og bæta bót eins og gamla fólkið ætlaðist til að allar stúlkur gerðu. Ég lærði að dansa hjá frú Stefaníu Guðmundsdóttur og um skeið kenndi ég dans í Bárunni … Ég kenndi aðallega þjóðdansa og þá var, eins og nú, skortur á strákum, sem vildu læra að dansa, og varð ég oft að hafa stelpur í strákafötum. (15)

Nýir dansar voru þó farnir að ryðja sér til rúms á öðrum áratug tuttugustu aldar og vinsældir þeirra jukust og dansleikir breyttust í kjölfarið. (16) Það þótti ekki öllum jákvæð þróun og viðraði fólk oft neikvæðar skoðanir á Reykjavíkurstúlkum sem lægju í rúminu fram yfir hádegi eftir að hafa eytt nóttinni við skemmtanir. (17) Slík háttsemi var talin af mörgum skaðleg og heyrðust áhyggjuraddir um upplausn heimila og hnignun þjóðarinnar. Það var jafnvel hvatt til eftirlits með skemmtunum ungmenna til að sporna við þessari þróun. (18) En ungar konur eins og Ruth voru tákn nýrra tíma og nýs hugsunarháttar um skyldur kvenna þar sem þær menntuðu sig og urðu efnahagslega sjálfstæðar og höfnuðu því að einskorða sig við hefðbundin heimilisstörf.

 

Myndin frumsýnd

Þann 4. desember 1927 birtist í Vísi auglýsing fyrir nýja íslenska kvikmynd undir yfirskriftinni „Danssýning í Nýja Bíó“. Þar kom fram að í myndinni sýndu Ruth og Rigmor Hanson dansinn Flat Charleston, bæði frumspor og „variationir“. (19) Í stuttri umfjöllun um fyrirhugaða sýningu í Morgunblaðinu kemur fram að Ruth hafi látið taka myndina „til þess að hægt sje að sjá greinilega, hvernig sporin eru tekin í þessum dansi, en þau þurfa að sjást vel, ef þau eiga að lærast rjett“. (20)

Lítið var um kvikmyndagerð á Íslandi á þessum árum. Peter Petersen, forstjóri Gamla bíós, kvikmyndaði reglulega viðburði í kringum Reykjavík og sýndi í kvikmyndahúsi sínu. Þá var Loftur Guðmundsson ljósmyndari búinn að gera tvær stuttar kvikmyndir og eina lengri. Sú lengri var heimildarmyndin Ísland í lifandi myndum (Loftur Guðmundsson, 1925), tímamótamynd í kvikmyndasögu Íslendinga þar sem hann ferðaðist um landið og tók upp líf og störf til sjávar og sveita. Loftur var mikill frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi en skorti sárlega fjármagn, þar sem ríkisstyrkir voru lítið annað en fjarlægir draumar, þannig að hann fann upp á ýmsum leiðum til að fjármagna myndir sínar. Þetta gerði hann meðal annars með samstarfi við fyrirtæki og með mynd Ruthar kemur í ljós að hann seldi einnig þjónustu við gerð kvikmynda. Án þess að Loftur sé nokkurs staðar skráður fyrir myndinni hafa rannsóknir mínar leitt í ljós að Ruth hefur ráðið Loft til kvikmyndagerðarinnar og fengið afnot af ljósmyndastofu hans til að gera myndina. (21) Aðeins hún var skráð fyrir myndinni í fjölmiðlum og mætti hún með systur sína á ljósmyndastofu Lofts, í kjallara Nýja bíós, til að taka upp og kynna fyrir fólki þá dansa sem voru dansaðir í stórborgum Evrópu.

Myndin er augljóslega kvikmynduð í ljósmyndastúdíói, líklegast til að hafa aðgengi að góðri lýsingu, en ljósin voru þó enn ekki nægilega góð til að lýsa annað en rétt bara aðalpersónurnar og virkar hún þess vegna nokkuð dimm. Hefðbundin ljós, aðalljós og fylliljós, eru notuð í myndinni en fylliljósið er ansi dauft og það eru því skörp skil ljóss og skugga. Annar ljóskastarinn er oft með í mynd, væntanlega var ljósið haft nálægt til þess að bæta upp fyrir veika birtuna sem frá því stafaði. Þetta er óvenjulegt miðað við að Loftur hafði aðgengi að fleiri ljósum á stofu sinni. Mögulega var þetta gert til þess að beina athygli áhorfenda að dansinum og sporunum, að láta bakgrunninn vera dökkan á bak við upplýstan klæðnað dansaranna. Þetta mætti þó einnig sjá sem lýsandi fyrir skort á tækjabúnaði til kvikmyndagerðar á Íslandi og þær tæknilegu takmarkanir sem fylgdu kvikmyndagerð á landinu á þessum tíma.

 

Ódauðleg dansspor

Ljóst er að íþróttakonan og danskennarinn Ruth Hanson lét fátt aftra sér frá því að koma hlutunum í framkvæmd og með þeim drifkrafti sem rak hana áfram gerðist hún ofan á allt einnig brautryðjandi á sviði kvikmynda. Flat-Charlestone er fyrsta kvikmyndin sem kona gerði á Íslandi og Ruth Hanson því fyrsta kvikmyndagerðarkona þjóðarinnar.

Mynd Ruthar er afar stutt, rétt um 3 mínútur að lengd, og því var önnur mynd sýnd með henni til að fylla upp í sýningartímann. Ekki er víst hvaða mynd það var þar sem einungis var vísað til hennar sem aukamyndar í auglýsingum. Mynd Ruthar byrjar með titilspjaldinu „Flat-Charlestone“ á svörtum grunni sem síðan dofnar yfir í textaspjald sem segir:

Frumspor og variationer eins og hann er dansaður í höfuðborgum Europa og á Dansskóla Ruth Hanson Reykjavík — dansað af: Rigmor og Ruth Hanson útskrifaður dans- og íþróttakennari. (22)

Myndin samanstendur af þremur mismunandi skotum sem eru tekin með einni tökuvél. Klippt er á milli eftirfarandi skota: miðnærmynda af aðalpersónunum sem ramma myndina inn og gefa áhorfendum kost á að kynnast þeim og kveðja þær, fjarmynda af Ruth og Rigmor að dansa þar sem þær sjást báðar í heild sinni og nærmynda af fótaburði þeirra til að gefa betri mynd af danssporunum.

Myndin byrjar á því að aðalpersónurnar eru kynntar. Fyrsta skotið er miðnærmynd af Ruth þar sem hún horfir niður til hliðar og er lýst á nokkuð hefðbundinn máta með aðalljósi og svo daufari fyllingu, hún situr örlítið á hlið líkt og verið sé að taka ljósmynd af henni en lítur svo upp og í linsuna og brosir sjálfsöruggu brosi í átt að áhorfendum áður en hún hlær létt. 

Rigmor, sem var aðeins 14 ára þegar myndin var gerð, birtist á svipaðan máta, augljóslega að springa úr gleði þar sem hún horfir skælbrosandi í myndavélina áður en hún hallar undir flatt og brosið verður kersknara. Þessi upphafsskot af þeim eru einstök, enda slík skot fátíð í íslenskum kvikmyndum, en með þeim er áhorfendum gefinn kostur á að kynnast Ruth og Rigmor á persónulegan hátt. Þrátt fyrir að myndin sé sett upp á nokkuð hefðbundinn máta með kynningarskotum þar sem systurnar eiga að vera virðulegir danskennarar er mjög stutt í hláturinn undir yfirborðinu og glettni sem sjaldan var fest á filmu á Íslandi enda filmur dýr efniskostur sem var ekki hægt að eyða að gamni. Þessi gleði er lýsandi fyrir Loft Guðmundsson og þann anda sem umvafði hann og sjá má í öðrum myndum hans og það er ljóst að systurnar hafa gaman af þessu þrátt fyrir að hafa skýr markmið um danskennslu að leiðarljósi.

Eftir nærmynd af þeim saman er klippt í víðara skot og þær hneigja sig djúpt með skrefi til baka. Í rammanum er augljós sviðsmynd með glugga, gluggakistu og blómi, Rigmor og Ruth eru staðsettar vinstra megin á skjánum og fer Rigmor að hluta til út úr mynd þegar hún stígur aftur til að hneigja sig. Þetta er sérstök uppsetning þar sem dansararnir víkja nánast fyrir fallegu gluggaskrauti sem fær að vera í mynd á kostnað Rigmor. Val á bakgrunni með blómi og glugga með fögrum gluggatjöldum var augljóslega mikilvægt fyrir framsetningu myndarinnar enda var verið að kynna dans beint úr stórborgum Evrópu í fyrsta sinn á þennan máta fyrir Íslendingum. Það lá því beint við að taka myndina upp með glæsilegum bakgrunni, þótt hann sjáist ekki nema að litlu leyti.

Danskennslan hefst og við sjáum systurnar í víðmynd taka nokkur spor saman með gluggann vel sýnilegan í bakgrunni. Þá er klippt yfir í nærmyndir af fótaburði þeirra og þær sýna áhorfendum mjög nákvæmlega hvernig Flat Charleston er dansaður. Þegar klippt er aftur yfir í víðmynd af þeim dansa sést vel að Ruth er með hugann við efnið og lætur umhverfið fyrir utan rammann ekki trufla sig. Rigmor verður aftur á móti starsýnt út fyrir rammann og hún brosir með sjálfri sér vegna einhvers þar. Slík augnablik gæða myndina lífi og verður hún ekki aðeins heimild um dans á þriðja áratug tuttugustu aldar á Íslandi heldur einnig fölskvalausa gleði ungra Reykjavíkurstúlkna. Meira að segja Ruth, sem reynir að halda andliti, lætur undan og brosir með systur sinni í miðjum dansinum.

Víðmyndin er samanklippt úr nokkrum skotum sem gefur fulla en brotakennda mynd af dansinum en systurnar dansa á meðan fram og til baka á sviðinu, brosa og njóta sín og gera meira að segja nokkur mistök við danssporin sem gefur til kynna að filmur voru ekki ódýrt hráefni og upptökum ekki svo glaðlega hent. Svo er klippt aftur í nærmyndir af fótaburðinum þar sem við sjáum þær fyrir neðan hné sýna nákvæmar fótahreyfingar í fallegum skóm, fínum glansandi silkisokkum og glæsilegum kjólum. Eftir nærmyndirnar er aftur klippt í víðmynd og þær klára dansinn og hneigja sig. Þá kemur skot sem rammar myndina inn, enda nærmynd af systrunum líkt og í upphafi. En skotið staðfestir einnig tóninn í myndinni þar sem þær eru skellihlæjandi og Rigmor horfir með stríðnisglotti beint í myndavélina.

 

Hverfur á braut

Í allri umfjöllun um myndina var einungis minnst á Ruth og Rigmor og að Ruth hafi látið taka hana eða staðið fyrir gerð hennar, aldrei er minnst á kvikmyndatökumanninn eða hvar hún var tekin en myndin er vissulega samstarf Ruthar og Lofts. (23) Viðbrögð fjölmiðla við myndinni voru misjöfn. Blaðamaður Vísis sagði dansinn hafa verið góðan, myndin hefði verið óskýr en þó hefði aðsókn verið góð. (24) Í Alþýðublaðinu sagði blaðamaður að „sýningin hefði verið ágæt ef myndin hefði verið nógu skýr“. (25) Síðasta sýning Flat-Charlestone fór fram 10. desember 1927 og eftir hana er ekkert minnst á myndina í fjölmiðlum. Ruth Hanson hélt hins vegar áfram að reka dansskóla, sýna dans, ferðast til útlanda að læra nýja dansa, sinna góðgerðarmálum og kenna íþróttir og sund ásamt því að lenda í ritdeilum við danskan danskennara sem kom til að sýna dans á Íslandi. (26) Þann 25. júlí árið 1929 giftist Ruth Skotanum William Murray Anderson í Fríkirkjunni í Reykjavík og flytur með honum til Skotlands. (27) Fyrir utan heimsókn til Íslands árið 1932 er lítið meira af Ruth Hanson að frétta en samkvæmt eftirgrennslan eignaðist hún tvö börn og helgaði sig starfi húsmóður í Rutherglen í Skotlandi þar sem hún lést árið 2003. (28) Rigmor Hanson tók við dansskólanum af systur sinni og rak hann farsællega í áratugi og varð þekkt á Íslandi fyrir danskennslu og skemmtanir. Rigmor lést árið 2008. Ævi Ruthar Hanson þarf að rannsaka betur og gera grein fyrir því hvaða lífi hún lifði í Skotlandi en það er erfitt að ímynda sér nokkuð annað en að hún hafi látið til sín taka þar líkt og hún hafði gert svo um munaði á Íslandi árin 1926–1929. Arfleifð Ruthar felst í minningum þeirra sem tóku þátt í danskennslu hjá henni eða mættu á böll, í Engeyjarsundinu sem hún synti fyrst kvenna og stöðu hennar sem tákn nýrra tíma og frelsis kvenna til að fara sínar eigin leiðir á Íslandi og sér í lagi í Reykjavík. (29) En núna verður hennar vonandi líka minnst sem fyrstu kvikmyndagerðarkonu Íslendinga sem gerði dansspor sín ódauðleg.

 

Tilvísanir:

1. Kvikmyndaþíðan er nafn sem ég nota á tímabilið frá 1944–1957 þegar tímabundið líf færðist í kvikmyndagerð á Íslandi og fjöldi heimildarmynda, fréttamynda, stuttmynda og kvikmynda í fullri lengd kom út. Tímabilið er nefnt í samhengi við kvikmyndavorið, þegar samfelld kvikmyndagerð á Íslandi hófst vorið 1980. Kvikmyndaþíðan er stutt og afmarkað tímabil þegar óvenjumikið líf var í kvikmyndagerð á Íslandi áður en „frysti“ aftur. Erlendur Sveinsson skiptir tímabilinu í heimildarmyndaárin frá 1944–1949 og bíómyndaárin frá 1949–1957. Sjá: Erlendur Sveinsson, „Árin 12 fyrir daga Sjónvarps og Kvikmyndasjóðs,“ í Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson (Reykjavík: Forlagið og art.is, 1999), 868–873. Konurnar sem vísað er til eru meðal annars Jórunn Viðar tónskáld, sem samdi eftirminnilega kvikmyndatónlist fyrir Síðasta bæinn í dalnum (Óskar Gíslason, 1950), og Sigríður Ármann sem samdi dansa fyrir sömu mynd. Þegar að leikkonum kemur má margar nefna, þ. á m. Bryndísi Pétursdóttur sem lék aðalhlutverkið í Milli fjalls og fjöru (Loftur Guðmundsson, 1949), Þóru Borg í Síðasta bænum í dalnum og Gerði H. Hjörleifsdóttur (Nýtt hlutverk, 1954). Mynd Ruthar var að því er virðist með öllu óþekkt þar til vorið 2020 að ég sendi fyrirspurn á Kvikmyndasafn Íslands um orðróm sem ég hafði rekist á í grein um Svölu Hannesdóttur þar sem minnst er á dansmynd sem Rigmor Hanson hafi látið gera árið 1930. Sjá: Páll Baldvin Baldvinsson, „Sagan af Ágirnd frá 1952,“ Fréttablaðið, 30. desember 2006, 52. Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri á safninu, fann þá í hirslum þess dansmynd frá 1927 sem reyndist svo vera þessi mynd Ruthar. Kvikmyndasafnið og starfsfólk þess á mínar bestu þakkir fyrir aðstoðina og samstarfið við þessa rannsókn.

2. Til að skilja stöðu íslenskra kvenna í kvikmyndagerð í víðara samhengi er grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur ,,Out in the Cold? Women Filmmakers in Iceland“ lykiltexti um efnið en þar fer Guðrún Elsa yfir stöðu og sögu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð og gefur í fyrsta sinn skýra mynd af hvoru tveggja: Guðrún Elsa Bragadóttir, „Out in the Cold? Women Filmmakers in Iceland,“ í Women in the International Film Industry, ritstj. Susan Liddy (London: Palgrave Macmillan, 2020), 179–195.

3. Vísir, 28. september 1926, 2.

4. „Ruth Hanson,“ Fjelagsblað Íþróttafjelags Reykjavíkur 1, nr. 2 (1926), 7. Yngri systur Ruthar tóku þátt í sýningum hennar alveg frá upphafi.

5. Nýja Ísland 2, nr. 4 (1905), 21.

6. Thora Friðriksson, „Gerda Hanson – minningarorð,“ Morgunblaðið, 7. júlí 1956, 7.

7. Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Konur sem kjósa. Aldarsaga (Reykjavík: Sögufélag, 2020), 93–201, bein tilv. 152.

8. Dæmi um þetta eru umfjallanir um danssýningu hennar sem birtust í Morgunblaðinu og Vísi 14. mars 1928 en þær eru augljóslega umorðun á sama textanum sem má ætla að hafi verið sendur á bæði blöðin af Ruth: Morgunblaðið, 14. mars 1928, 4; Vísir, 14. mars 1928, 3.

9. „Stakkasundið,“ Vikuútgáfa Alþýðublaðsins, 13. júlí 1927, 2.

10. „Frækilegt sund,“ Íþróttablaðið 2, nr. 7–8 (1927), 67.

11. „Danssýning Ruth Hanson,“ Vísir, 13. október 1927, 2–3.

12. Vísir, 6. október 1927, 3.

13. Eggert Þór Bernharðsson, „,,Ó vesalings tískunnar þrælar.“ Um „Reykjavíkurstúlkuna“ og hlutverk hennar,“ Sagnir 11, nr. 1 (1990): 17–18; Guðmundur Kamban, „Reyjavíkurstúlkan,“ Eimreiðin 35, nr. 3 (1929): 215–232.

14. James Nott, Going to the Palais: A Social and Cultural History of Dancing and Dance Halls in Britain, 1918–1960 (Oxford: Oxford University Press, 2015), 1; Mínerva Jónsdóttir og Sigríður Þ. Valgeirsdóttir, Gömlu dansarnir í tvær aldir: Brot úr íslenskri menningarsögu, 1. bindi: Saga gömlu dansanna á Íslandi (Reykjavík: Útgefanda ekki getið, 1994), 170–172.

15. „Dansinn er mitt mesta yndi,“ Morgunblaðið, 5. júlí 1963, 17.

16. Mínerva Jónsdóttir og Sigríður Þ. Valgeirsdóttir, Gömlu dansarnir í tvær aldir, 170–172.

17. Eggert Þór Bernharðsson, „Ó vesalings tískunnar þrælar,“ 18.

18. Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Konur sem kjósa, 135.

19. Vísir, 4. desember 1927, 1 og 2.

20. Morgunblaðið, 4. desember 1927, 10. Hér er annað dæmi um umfjöllun um Ruth sem einnig má finna sem auglýsingu á forsíðu blaðsins.

21. Óljóst var hver hefði tekið myndina en þessi niðurstaða er afrakstur umfangsmikillar skoðunar á bakgrunnum þeim sem notaðir voru á ljósmyndastofum á Íslandi á þessu tímabili og samanburðar við það litla sem sést af bakgrunnum í kvikmyndinni. Myndir Lofts af Rigmor Hanson á póstkortum komu rannsakanda að lokum á sporið og það fer ekki á milli mála að myndin var tekin upp í ljósmyndastúdíói Lofts Guðmundssonar. Merkileg bók hefur verið skrifuð um Loft Guðmundsson, ævi hans og störf: Enginn getur lifað án Lofts, ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir (Reykjavik: Þjóðminjasafn Íslands, 2002). Í bókinni er grein Erlendar Sveinssonar ,,Frekar bogna en brotna: Um frumkvöðul í íslenskri kvikmyndagerð“ (19–62) þar sem farið er yfir feril Lofts sem kvikmyndagerðarmanns.

22. Ruth Hanson og Loftur Guðmundsson, Flat-Charlestone, 1927.

23. Sjá t.d.: Vísir, 4. desember 1927, 2; Morgunblaðið, 4. desember 1927, 1.

24. Vísir, 6. desember 1927, 3.

25. Alþýðublaðið, 5. desember 1927, 4.

26. Hér ætla ég ekki að fara ítarlega í þær deilur en Ruth gagnrýndi færni Danans í dansi í grein í Alþýðublaðinu, hann svaraði fullum hálsi og upp spunnust deilur um gæði danssýninga og -kennslu sem enduðu með því að ritstjóri blaðsins skarst í leikinn og bannaði frekari birtingar um efnið. Ljóst er að Ruth var með bein í nefinu, lá ekki á skoðunum sínum og var tilbúin að verja þær á opinberum vettvangi ef svo bar undir. Sjá m.a.: Ruth Hanson, „Danssýning,“ Alþýðublaðið, 30. apríl 1928, 2–3; Viggo Hartmann, „Að gefnu tilefni,“ Alþýðublaðið, 3. maí 1928, 2–3; Ruth Hanson, „Svar við „Svar við kveðju“,“ Alþýðublaðið, 9. maí 1928, 3.

27. „Hjúskapur,“ Vísir, 27. júlí 1929, 3.

28. „Hjúskapur,“ Vísir, 27. júlí 1929, 3.

29. Sjá t.d.: „Í útflutningsverzlun gildir engin ævintýramennska,“ Vísir, 13. apríl 1967, 9 og 13, hér 9; „Símastúlka syndir til Reykjavíkur,“ Vísir. Blað 2, 29. nóvember 1980, 20.