Meistari rammans

Um kvikmyndagerð Kjartans Ó. Bjarnasonar

Eftir Gunnar Tómas Kristófersson

Hingað til hefur kvikmyndasaga Íslands snúist nánast eingöngu um hóp manna sem með réttu teljast til frumkvöðla íslenskrar kvikmyndagerðar. Oftast eru Óskar Gíslason, Loftur Guðmundsson og Ósvaldur Knudsen nefndir þegar talað er um kvikmyndir um miðja síðustu öld og margt gott hefur verið ritað um þá. Ýmislegt á þó eftir að rannsaka og ekki er allt á tæru varðandi kvikmyndasögu okkar og þá sem komu að gerð kvikmynda á Íslandi um miðja öld. (1)

Hér verður leitast við að varpa einhverju ljósi á ævi og störf Kjartans Ó. Bjarnasonar, prentara og kvikmyndagerðarmanns. Kjartan kom víða við í íslenskri kvikmyndagerð á þeim rúmu þremur áratugum sem hann starfaði við þá iðju. Listgreinin lá vel fyrir Kjartani og hafði hann augljósa hæfileika á því sviði. Hann hafði verið áhugaljósmyndari í nokkur ár áður en hann kom að henni en í gegnum fjármögnun félagasamtaka og stofnana gerði hann sínar fyrstu myndir. Í því samhengi verður sett fram ný kenning um stofnanavæðingu íslenskrar kvikmyndagerðar en Kjartan var, ásamt Guðmundi Kamban, Vigfúsi Sigurgeirssyni og Lofti Guðmundssyni, fyrstur til að taka að sér kvikmyndaverkefni fyrir opinbera aðila og félagasamtök í kringum árið 1935, nokkuð sem átti eftir að breyta kvikmyndalandslaginu á Íslandi til frambúðar.
Kjartan var frumkvöðull á ýmsum sviðum listgreinarinnar, hann gerði fyrstu hljóðmynd Íslendinga, var fyrstur til að starfa við iðnina í fullu starfi og sá einna fyrstur möguleikana í að koma Íslandi á framfæri erlendis með hjálp hins nýja miðils. Hann bjó stóran hluta ferils síns í Danmörku en var duglegur við að ferðast um Ísland með kvikmyndasýningar, bæði með myndir sem hann hafði tekið á Íslandi og erlendis. Hér verður farið yfir helstu afrek Kjartans og örlitlu ljósi varpað á hann sem listamann og frumkvöðul í íslenskri kvikmyndagerð.

Upphafið
Kjartan Óskar Bjarnason fæddist þann 29. nóvember árið 1901 á Óseyrarnesi í Eyrarbakkahreppi. Móðir hans var Kristgerður Oddsdóttir vinnukona frá Hvammi í Holtum í Rangárvallasýslu og faðir hans Bjarni Símonarson, bóndi í Hallstúni og trésmiður. Ekki er mikið vitað um æsku Kjartans og uppvaxtarár, hann ólst upp hjá móður sinni sem bjó víða um landið þar sem hún tók að sér ýmis störf. Hann átti sjö systkini en ólst ekki upp með þeim öllum því sum þeirra voru sett í fóstur hjá öðrum fjölskyldum (Sigurjón Jóhannesson 1998: 42).
Kjartan menntaði sig til prentara og kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1930 sem útgefandi tímaritsins Perlur („Efnisyfirlit“) ásamt kollega sínum í prentarastétt, Stefáni Ögmundssyni. Tímaritið var veglegt menningarrit með mörgum myndum, sumum í lit. Í því kom Kjartan fyrst fram sem ljósmyndari á opinberum vettvangi, en fjöldi mynda eftir hann birtist í blaðinu, meðal annars á forsíðu. Einnig var þar að finna myndir eftir kvikmyndagerðarmennina Loft Guðmundsson, ljósmyndara, sem og Ósvald Knudsen málara en hann átti eftir að verða leiðandi innan listgreinarinnar tæpum tveimur áratugum síðar. Blaðið vakti athygli og birtust í því skrif eftir menn á borð við Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson og þýðingar á brotum úr ýmsum bókmenntaverkum. Tveir árgangar komu út af blaðinu sem lagðist af árið 1931.
Meðfram prentarastörfum sinnti Kjartan ljósmyndun af miklum áhuga og birtust reglulega myndir eftir hann í blöðum og tímaritum, meðal annars á forsíðu Fálkans árið 1937. Sama ár hlaut Kjartan verðlaun í ljósmyndakeppni Ferðafélags Íslands („Dómnefnd ljósmyndasýningar…“ 1937).

Kvikmyndaáhuginn kviknar
Samhliða ljósmynduninni kviknaði áhugi Kjartans á kvikmyndun án þess að vitað sé nákvæmlega hvernig því var háttað eða hvort hann hafi farið til útlanda að læra eða kaupa búnað. Elstu varðveittu kvikmyndina tók Kjartan upp fyrir Starfsmannafélag ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs árið 1936. Hún er varðveitt sem hluti myndarinnar Góðar stundir sem hefur að geyma nokkrar ferðir prentara um landið árin 1936–1939. Í henni er að finna augljós dæmi um mynduppbyggingu Kjartans sem síðar átti eftir að verða nokkuð fyrirferðarmikil í myndum hans og koma hæfileikar hans við kvikmyndagerð þar strax glögglega í ljós eins og nánar verður vikið að síðar.
Fyrsta kvikmynd Kjartans sem var sýnd opinberlega var í Iðnó í október árið 1938, á vegum Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur og Kommúnistaflokksins. Myndin var af hátíðarhöldum í tilefni 1. maí og var kynnt sem fyrsta litmyndin sem tekin var á Íslandi („Verkalýður Reykjavíkur sýnir …“ 1938). (2) Rúmlega mánuði síðar var Kjartan tilbúinn með íþróttamyndir sem hann hafði gert á vegum Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ). Þær voru teknar til sýninga hjá íþróttafélögum víða um landið með það að markmiði að vekja áhuga fólks á íþróttaiðkun. Tókst svo vel til að Kjartan hélt áfram að taka ýmsar myndir af viðburðum ÍSÍ og voru þær sýndar í þremur hlutum árið 1938 („Íþróttakvikmynd Í.S.I.“ 1938): Fyrsti hlutinn var frá 17. júní af sundi og fleiri íþróttum, annar hlutinn var af Skíðalandsmóti Íslands og skíðaferð Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR) með Súðinni til Ísafjarðar, þriðja myndin var af úrvalsliði þýskra knattspyrnumanna og heimsókn Friðriks krónprins af Svíþjóð og Ingridar krónprinsessu til landsins. Upptökur Kjartans af íþróttaviðburðum voru margar og hann tók töluvert upp fyrir ÍSÍ en einnig fyrir einstök félög eins og ÍR, Ármann og Skíðafélag Reykjavíkur. Fæstar þessara kvikmynda eru varðveittar í dag fyrir utan þá sem Kjartan gerði fyrir Ármann árið 1940 og nokkrar mögulega í lausum myndbrotum á filmurúllum sem hann skildi eftir sig og eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands. Ármannsmyndin var tekin upp í svarthvítu og lit og sýnir fimleikaflokka félagsins leika listir sínar sem og sundknattleik og glímu. Fyrir utan Ármannsmyndina og einstök brot er til samansafn af íþróttamyndum Kjartans á Kvikmyndasafni Íslands þar sem er að finna upptökur frá merkilegum íþróttaviðburðum sem hafa talsvert heimildargildi fyrir íþróttasögu landsins, meðal annars Handknattleiksmeistaramót kvenna á Sauðárkróki árið 1957 og Norðurlandamót kvenna í handknattleik árið 1964 (KvSÍ: Kf 17-12, 1). Til að fjármagna gerð slíkra mynda gerði Kjartan þær yfirleitt á vegum félagasamtaka og fyrir íþróttafélög líkt og Ármann og ÍR en þegar hann var farinn að ferðast með eigin sýningar á sjötta áratugnum tók hann þær æ oftar upp og sýndi á eigin kostnað.

Erfiðar aðstæður
Kjartan Ó. Bjarnason var einn fyrsti kvikmyndagerðarmaður Íslendinga til að nýta sér breytt landslag í framleiðslu kvikmynda á landinu. Á fjórða áratugnum fóru félagasamtök og stofnanir í síauknum mæli að láta gera kvikmyndir til kynningar á eigin starfsemi og viðburðum tengdum henni. Erfitt er reyndar að tala um kvikmyndagerðarmenn á þessum tíma á Íslandi þar sem allir sem áttu kvikmyndavél voru í öðru starfi, höfðu litla sem enga menntun fengið í kvikmyndun og uppskorið fá tækifæri til að sinna starfinu sökum fjár- og tækjaskorts. Þetta byrjaði að breytast upp úr 1935 þegar opinberu fé var í fyrsta sinn varið til framleiðslu kvikmynda á Íslandi.
Fáir höfðu komið að gerð lifandi mynda á Íslandi á þessum árum, Loftur Guðmundsson hafði líklega viðamestu reynsluna eftir að hafa gert hina leiknu Ævintýri Jóns og Gvendar árið 1923 og fjölda heimildarmynda, þar á meðal Ísland í lifandi myndum (1925) sem hafði verið sýnd víða um heim á þriðja áratugnum og verið Íslandi mikil landkynning. Peter Petersen (Bíó-Petersen) var eigandi Gamla bíós í Reykjavík, annars af tveimur kvikmyndahúsum borgarinnar. Honum hafði áskotnast kvikmyndatökuvél sem hann kom með til Íslands árið 1919 og byrjaði festa á filmu ýmsa viðburði í kringum Reykjavík og sýna í kvikmyndahúsi sínu. Með því varð Petersen fyrsti einstaklingurinn búsettur á Íslandi til að framleiða kvikmynd og sýna á landinu síðan Magnús Ólafsson gerði það árið 1904 á vegum hins Íslenzka lifandimyndafélags (Erlendur Sveinsson 1988: 89). Nokkrir aðilar búsettir á Íslandi tóku einnig kvikmyndir á landinu á þriðja áratugnum án þess að heimildir séu fyrir því að þær hafi verið sýndar opinberlega. Þetta eru meðal annarra Martinus Simson sem kvikmyndaði á Ísafirði og Sveinn Guðnason ljósmyndari á Eskifirði, Hallgrímur Einarsson ljósmyndari sem kvikmyndaði bæjarlífið á Akureyri sem og Óskar Gíslason ljósmyndari í Reykjavík á þriðja áratugnum en afrakstur hans glataðist því miður í eldsvoða. Erlendis lét Guðmundur Kamban mest að sér kveða við framleiðslu kvikmynda, í Danmörku leikstýrði hann Höddu Pöddu ásamt Gunnari R. Hansen árið 1924 og Det Sovende Hus árið 1926. Á Íslandi var listgreinin því ekki í miklum blóma árið 1935 og vilji yfirvalda til að styrkja hana fram að því lítill sem enginn. Íslenska ríkið hafnaði þó ekki aðeins Íslendingum, erlendir aðilar sem leituðu á náðir ríkisins áttu einnig sjaldnast erindi sem erfiði og þeirra fyrirspurnum var yfirleitt hafnað nokkuð átakalaust (Íris Ellenberger 2007: 46). Þetta átti þó eftir að breytast og fljótlega var íslenska ríkinu orðið umhugað um að hlúa betur að þessari nýju atvinnugrein og það átti eftir að breyta umhverfi til kvikmyndagerðar á Íslandi svo um munaði.

Stofnanavæðingin
Árið 1935 var sýnd í kvikmyndahúsum í Reykjavík kvikmynd James A. Fitzpatricks, Iceland: Land of the Vikings (1932). Íslendingar voru ósáttir við myndina og skrifaði Guðmundur Kamban (1935: 3–4) grein í Alþýðublaðið þar sem hann gagnrýndi hana og kallaði eftir því að íslenska ríkið stæði að kvikmyndagerð af landi og þjóð og tæki vald landkynningar úr höndum útlendinga. Greinin birtist á svipuðum tíma og Fiskimálanefnd og Ferðaskrifstofa ríkisins voru settar á laggirnar en stofnanirnar deildu því markmiði að vinna að ímyndarsköpun Íslands erlendis, Fiskimálanefnd við markaðssetningu á sjávarafurðum og Ferðaskrifstofa ríkisins við kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi (Íris Ellenberger 2007: 52–53). Fiskimálanefnd réðist skjótt í kvikmyndagerð og vildi gera mynd um Ísland. Guðmundur Kamban var ráðinn til að stjórna verkinu sem átti að vera fyrsta íslenska kvikmyndin fjármögnuð með opinberu fé. Kamban og samstarfsaðili hans, Þjóðverjinn Paul Burkert, voru fengnir til að gera mynd sem bæri hróður lands og þjóðar víða og myndi sýna Ísland í réttu ljósi (Erlendur Sveinsson 1999: 854). Íris Ellenberger sagnfræðingur fer ítarlega í breytingar á landkynningu Íslands gagnvart umheiminum í bók sinni Íslandskvikmyndir 1916–1966. Þar segir hún (2007: 56) að með gagnrýni sinni hafi Kamban í fyrsta sinn fært í orð valdaójafnvægið sem fylgdi því að erlendir aðilar gerðu myndir fyrir erlenda áhorfendur um Ísland. Íslendingar ættu nú að taka það í eigin hendur að stjórna ímynd lands og þjóðar erlendis. Við gerð myndarinnar ferðuðust Kamban og Burkert víða um Ísland og tóku upp mikið efni en útkoman var þó ekki betri en svo að Fiskimálanefnd taldi að ekkert af myndefninu væri nothæft og myndin því sett ofan í skúffu og aldrei kláruð (Erlendur Sveinsson 1999: 857). Þrátt fyrir að mynd Kambans og Burkerts hafi ekki heppnast var búið að skilgreina kvikmyndagerð á Íslandi í nýju ljósi. Fyrir þessar breytingar höfðu opinber framlög til kvikmyndagerðar verið því sem næst engin ef frá er talinn málamyndastyrkur sem Loftur Guðmundsson fékk frá Alþingi fyrir Ísland í lifandi myndum (Loftur Guðmundsson, 1925) mörgum árum eftir gerð hennar (Erlendur Sveinsson 2002: 34). Loftur, sem var sá eini sem lét fyrir alvöru reyna á kvikmyndagerð á Íslandi á þriðja áratugnum, leitaði frekar á náðir einkafyrirtækja á borð við útgerðina Kveldúlf og Ölgerðina Egil Skallagrímsson eftir fjármagni fyrir kvikmyndagerð sína gegn auglýsingum innan myndanna (Erlendur Sveinsson 2002: 35) (3). Peter Petersen tók upp myndir af Íslandi til trekkja að í kvikmyndahúsið sem hann átti og rak. Aðrir virðast hafa komið að kvikmyndagerð fyrir forvitnissakir og sýndu eigin kvikmyndir aldrei opinberlega í kvikmyndahúsum svo vitað sé til. Á fjórða áratugnum breyttist staða kvikmyndagerðar á Íslandi og má segja að hún hafi umbylst. 16 mm filmur og vélar voru orðnar aðgengilegri og mun öruggari og ódýrari en 35 mm nítratfilmur og vélar. Minni filma gerði kvikmyndavélar að ódýrari fjárfestingu og með minni vélum varð kvikmyndataka fyrirferðarminni og því auknir möguleikar á að nýta sér miðilinn við að taka upp ýmsa viðburði án mikillar fyrirhafnar. Kostnaður var þó enn mikill fyrir einstaklinga og töluverð hindrun í að leggja kvikmyndagerð fyrir sig en með aðkomu opinberra aðila opnaðist á mun meiri og raunhæfari möguleika til að leggjast í kvikmyndagerð á Íslandi.
Í framhaldi af mynd Kambans ákvað Fiskimálanefnd að senda Vigfús Sigurgeirsson til Þýskalands til að læra kvikmyndagerð. Við heimkomu árið 1936 kom hann í breytt kvikmyndalandslag og möguleika á verkefnum. Stofnanir og félagasamtök höfðu kveikt á perunni og verkefni við kvikmyndagerð urðu til. Vigfús byrjaði á því að taka upp mynd fyrir Hið íslenzka garðyrkjufélag („Norræna garðyrkjusýningin …“ 1937: 2), Sænsk-íslenzka félagið (Morgunblaðið 1936: 7), ÍSÍ („Svigkeppnin í gær“ 1939: 6) og Samband íslenskra samvinnufélaga (Erlendur Sveinsson 1999: 857). Þá var Loftur Guðmundsson meðal annars ráðinn til að gera mynd fyrir Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda um íslenskan sjávarútveg. Mynd Lofts og myndir Vigfúsar fyrir SÍS ásamt fleirum voru nýttar í Íslandsmyndir sem nota átti til að kynna land og þjóð á heimssýningunni í New York árið 1939 (Íris Ellenberger 2007: 53; Erlendur Sveinsson 1999: 857–858). Erlendur Sveinsson (1999: 857–858) telur að grein Kambans í Alþýðublaðinu hafi ýtt úr vör gerð kvikmynda til að kynna land og þjóð á vegum íslenskra stjórnvalda til að stjórna ímynd landsins erlendis. Hún hafi kristallast í þeim kvikmyndum sem sýndar voru á heimssýningunni í New York árið 1939. Þessi kenning stenst alla skoðun en hún er takmörkuð við landkynningarmyndir og vald Íslendinga til að stjórna eigin ímynd erlendis. Íris Ellenberger (2008: 27–48) fer ítarlega í þetta í grein sinni um myndir Vigfúsar Sigurgeirssonar á heimssýningunni árið 1939 og staðfestir kenningu Erlends. Ef upphaf ferla Kjartans og Vigfúsar og verkefni Lofts eru skoðuð má þó segja að breytingin á allri umgjörðinni í kjölfar aðkomu opinberra aðila hafi haft mun djúpstæðari áhrif á kvikmyndir Íslendinga en bara til landkynningar. Breytingin sem átti sér stað lagði grunnstoðir fyrir framtíðina og gerði mönnum kleift að fá borgað fyrir vinnu sína og taka að sér verkefni í gegnum opinberar stofnanir og félagasamtök. Íslensk kvikmyndagerð var stofnanavædd árið 1935. Bein aðkoma Fiskimálanefndar að henni virðist hafa opnað á möguleika félagasamtaka og opinberra aðila til að ráða einstaklinga í verkefni á sínum vegum á máta sem var alveg nýr og kom fótum undir almennari kvikmyndagerð í landinu og skapaði kerfi sem enn er treyst á í dag.
Í greininni „Árin tólf fyrir daga Sjónvarps og Kvikmyndasjóðs“ lýsir Erlendur (1999: 868) enn fremur miklum uppgangi í íslenskri kvikmyndagerð eftir stofnun lýðveldisins þann 17. júní 1944. Hann telur að hún hafi sprottið upp úr þeirri bjartsýni sem hafi kviknað í eftir ansi mögur stríðsár. Þetta mætti einnig endurskoða en svo virðist sem að þróunin sem hófst árið 1935 með stofnanavæðingu kvikmyndagerðar á Íslandi hafi haldið áfram í upphafi fimmta áratugarins. Segja mætti að um línulega þróun sé að ræða þar sem fjölbreytt verkefni á vegum opinberra aðila voru í boði. Þessa þróun má rekja órofna í gegnum stríðsárin þótt það hægist eðlilega á henni. Í stríðinu voru opinber verkefni nokkuð regluleg og fjölbreytt. Loftur var ráðinn til að gera mynd fyrir Reykjavíkurborg („Loftur tekur myndir …“ 1943: 12), Kjartan og Vigfús um stofnun lýðveldisins árið 1944 („Gefin verður út bók …“ 1944: 2), Kjartan um Vestmannaeyjar fyrir Fræðslumálastjóra („Ameríski Rauði krossinn gefur …“ 1943: 43), Vigfús á vegum Fjallamanna („Páskaför Fjallamanna“ 1942: 1) og svo mætti áfram telja. Þá komu fyrstu vísbendingarnar um dýpkun þekkingar á kvikmyndamiðlinum fram á þessum árum en Sigurður Norðdahl stundaði nám í kvikmyndatöku í New York árið 1943 („Íslendingur lærir …“ 1945: 2) og Loftur Guðmundsson varði tæpu ári í Bandaríkjunum á vegum Kodak að kynna sér myndavélatækni og fullvinna tvær kvikmyndir árin 1944–1945 („Loftur Guðmundsson, ljósm. …“ 1945: 5). Breytinguna á kvikmyndagerð undir lok styrjaldarinnar mætti, frekar en að tengja hana við bjartsýni, setja í samhengi við mikinn uppgang í samfélaginu í kjölfar stríðsloka í Evrópu vorið 1945 og stóraukna möguleika til að nálgast fjármagn, filmur, vélar og annað efni til kvikmyndagerðar. Þá var mun minni hætta fólgin í ferðalögum milli landa eftir að stríðinu lauk, en kvikmyndafilmur þurfti iðulega að framkalla erlendis. Gott dæmi um þetta er kvikmynd Lofts Guðmundssonar sem hann var ráðinn til að gera fyrir Reykjavíkurborg árin 1943–1944. Hann framkallaði hana í Bandaríkjunum snemma árið 1945 og reyndi tvívegis að senda til landsins. Í bæði skiptin fór filman í sjóinn þegar skipunum sem báru filmurnar var sökkt („Væntanlegt á næstunni …“ 1945: 2) (4).

Ísland í myndum
Fyrstu myndir Kjartans Ó. Bjarnasonar fylgdu þessari þróun eftir, þær voru á vegum Gutenbergs, Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur, ÍSÍ, Skógræktar Ríkisins, Rauða krossins, Fræðslumálastjórnar, Þjóðhátíðarnefndar og Framsóknarflokksins. Árið 1945 gat Kjartan sagt starfi sínu lausu sem prentari og gerst kvikmyndagerðarmaður í fullu starfi, fyrstur Íslendinga („Kjartan O. Bjarnason sýnir …“ 1950: 8). Það var í kjölfar þess að hann tók að sér að kvikmynda lýðveldisstofnunina á Þingvöllum árið 1944 og eyddi megninu af árinu 1945 í New York að fullvinna myndina. Hann náði að nýta ferðina og vinna í myndum um Þórsmörk og Vestmannaeyjar, mynd um sveitalíf á Íslandi og aðra um börn á vegum Rauða krossins, sem hann meðal annars hljóðsetti með tónlist og þularrödd þar úti. Myndirnar vann hann fyrir hinar ýmsu stofnanir og átti eftir að sýna þær á komandi árum við ólík tilefni. Einnig festi hann kaup á sýningarvél til að fá aukið frelsi til kvikmyndasýninga á eigin vegum. Eftir heimkomu frá New York hélt því vinna Kjartans við kvikmyndagerð og sýningar áfram og varð markvissari og gat hann haft í sig og á fram á sjöunda áratuginn.
Reglulega var Kjartan ráðinn til sýninga á vegum félagasamtaka, á ýmsum skemmti- og fræðslukvöldum og hjá stofnunum. Hann sýndi meðal annars á skemmtikvöldum hjá Þjóðræknisfélaginu (Morgunblaðið, 1945: 11), Æskulýðsfylkingunni og Sósíalistafélagi Reykjavíkur („Æskulýðsfylkingin og Sósíalistafélag Reykjavíkur …“ 1945: 5), Framsóknarflokknum („Samkoma“ 1945: 8), Ferðafélagi Íslands („Ferðafjelag Íslands“ 1945: 7), hestamannafélaginu Fáki („Kvikmynd um …“ 1947: 16), Dansk-íslenzka félaginu („Dansk-íslenzka félagið“ 1947: 3) og svo mætti lengi telja. Slíkar sýningar á vegum félagasamtaka ásamt upptökum fyrir þau gerðu Kjartani kleift að gera kvikmyndagerð að sínu aðalstarfi. Til að láta það ganga upp þurfti Kjartan þó einnig að búa til sín eigin tækifæri. Hann samdi við félög, stofnanir, samtök og stundum yfirvöld í sérstökum landshlutum um að búa til myndir fyrir þau um staðinn. Hann gerði myndir um Vestfirði („Kvikmyndasýning á skemmtun …“ 1948: 8), Austfirði („Kjartan Ó. Bjarnason vinnur að …“ 1949: 12), Skagafjörð („Unnið að skagfirzkri kvikmynd“ 1951: 7), Rangárvallasýslu (Morgunblaðið 1947: 15), Austur-Húnaþing („Raddir varðveittar á stálþræði“ 1951: 94–95) og Breiðafjörð („Kjartan Ó. kvikmyndar og sýnir“ 1959: 2) og sýndi afraksturinn ýmist í heild eða í brotum, stundum fyrst á eigin vegum og svo sem hluta af lokaafurð fyrir kaupandann. Til að mynda kvikmyndaði Kjartan eldgosið í Heklu og sýndi á eigin vegum við miklar vinsældir víða um land árin 1947 og 1948. Myndirnar af eldgosinu tók hann fyrir kostaða mynd á vegum Rangæingafélagsins og eftir sýningarnar setti hann þær inn í kynningarmynd sína um Rangárvallasýslu. Þær eru varðveittar sem hluti hennar á Kvikmyndasafni Íslands í dag (KvSÍ: Kf 83-12, 1).

Heimurinn
Kjartan varð þess fljótlega áskynja að erlendir aðilar hefðu áhuga á myndum af Íslandi, bæði stórir fjölmiðlar á borð við BBC og National Geographic settu sig í samband við hann snemma árs 1950 vegna sýninga á náttúrumyndum en einnig minni félög sem vildu fá að sýna myndir hans af Íslandi á sínum vegum (Íslenzkar litkvikmyndir sýndar“ 1950: 1). Ekki spurðist meira til sýninganna vestra eða í Bretlandi en undir lok apríl 1950 sýndi Kjartan myndir af Íslandi sem hann hafði sett saman fyrir sumarfagnað Íslendinga í Kaupmannahöfn („Um 200 manns á sumarfagnaði …“ 1950: 1) og aftur tveimur vikum síðar í Noregi. Farið var lofsamlegum orðum um myndir hans og næmu auga fyrir landinu hrósað eftir sýningarnar („Kjartan Ó. Bjarnason“ 1950: 4). Stuttu síðar sýndi Kjartan í sal Berlingske Tidende í Kaupmannahöfn og lofuðu boðsgestir Íslandsmynd hans í hástert („Sýnir kvikmyndir í Kaupmannahöfn“ 1950: 2). Þessar sýningar leiddu til þess að Jakob Möller, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, bauð gestum á sýningu myndarinnar um haustið og þá var frá því gengið að myndina ætti að sýna í dönskum skólum enda um „dásamlegan landafræðitíma“ að ræða („Íslandsmynd sýnd í dönskum skólum“ 1950: 16). Með myndinni flutti Kjartan oft sjálfur skýringar í fyrirlestrarformi og tók við spurningum frá áhorfendum að sýningum loknum. Myndin fékk ekki titil fyrr en snemma árs 1951 þegar hún var kölluð Island i Sommersol eða Sólskinsdagar á Íslandi („Íslandskvikmynd sýnd …“ 1951: 4). Myndin var sýnd almenningi í Kaupmannahöfn um haustið árið 1950 við miklar vinsældir og hafði Kjartan jafnvel fjórar sýningar suma daga sem seldist upp á. Blöðin hlóðu myndina einnig lofi, þau sögðu hana bera af öðrum Íslandsmyndum og að hún léti áhorfendum þykja vænt um Ísland („Íslandskvikmynd, sem vekur …“ 1950: 8). Árið 1952 var búið að sýna myndina í meira en 90 borgum og bæjum í Danmörku við góðar undirtektir sem og í fjölda skóla í landinu sem er einsdæmi fyrir Íslandsmynd („Íslandskvikmynd sýnd …“ 1952: 8). Til merkis um þær góðu viðtökur sem Kjartan fékk í Danmörku var honum boðið að gera landkynningarmynd fyrir Dani sem fékk titilinn Á Danagrund (Her er Danmark, 1954).
Sólskinsdaga á Íslandi sýndi Kjartan einnig hér á landi og komst nokkuð föst hefð á að hann sýndi myndina erlendis á veturna um leið og hann tók upp efni um þau lönd sem hann ferðaðist til. Á sumrin fór hann um Ísland og sýndi nýja myndefnið ásamt fleiru sem hann hafði ýmist tekið áður eða honum hafði áskotnast á ferðum sínum og ekki tekið sjálfur. Þetta skipulag var við lýði hjá Kjartani nánast allan sjötta áratuginn og fram á þann sjöunda. Virðist hann hafa getað komist ágætlega af við það og lifað á kvikmyndagerðinni einni saman. Eftir tæpan áratug af því að sýna Sólskinsdaga í Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi sagðist Kjartan hafa sýnt myndina um 2000 sinnum á Norðurlöndunum einum fram til ársins 1959 („„Sólskinsdagar á Íslandi“ sýnd …“ 1959: 8). Sú tala þarf ekki að standast skoðun en ljóst er að hann sýndi myndina bæði oft og víða og gerði það mikið fyrir kynningu á landi og þjóð erlendis.

Upptökur erlendis
Árið 1954 fór Kjartan vestur um haf til að sýna Sólskinsdaga á Íslandi og taka upp mynd um byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Verkefnið var í samstarfi við Finnboga Guðmundsson prófessor við háskólann í Manitoba og ferðuðust þeir saman um Íslendingabyggðir vestanhafs, tóku myndir af lífi fólks, sýndu Sólskinsdaga við góðar viðtökur og fluttu fyrirlestra (Lögberg 1955: 8). Styrkir til verkefnisins fengust frá íslenska ríkinu til að taka nokkur sviðsett atriði á Íslandi af fólki að flytjast á brott til Vesturheims og frá Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Ameríku til að halda áfram tökum þar („Þrítugasta og sjötta ársþing …“ 1955: 128). Ferðalagið heppnaðist vel og var þeim tekið fagnandi hvar sem þeir komu. Kvikmyndin 100 ár í Vesturheimi var frumsýnd á Íslandi þann 23. ágúst 1956 við góðar viðtökur blaðamanna og áhorfenda, hún var sýnd víða um land og svo stefndi Finnbogi á að fara með hana vestur um haf og sýna hana í Íslendingabyggðum þar („Litkvikmynd hefur verið …“ 1956: 7–8). Myndin, sem var 105 mínútna löng, byrjaði á sviðsettum brottflutningi Íslendinga á 19. öld. Líklega er um að ræða einu leiknu atriðin á ferli Kjartans en sett er á svið sala á búfénaði og öðrum tækjum og atriði af fólki að leggja af stað í hina löngu ferð vestur um haf. Stærsti hluti myndarinnar sýnir svo Íslendinga víða um Bandaríkin og Kanada, allt frá Los Angeles í Kaliforníu til Manitoba og Ottawa í Kanada með viðkomu á fjölmörgum stöðum á leiðinni. Myndin er varðveitt á Kvikmyndasafni Íslands.
Eins og komið hefur verið inn á tók Kjartan mikið upp á ferðalögum sínum og var afraksturinn þá jafnan sýndur í næstu sýningarferð hans. Með þessu lagi gerði hann myndir um Noreg („Sýnir landið um kring“ 1959: 6), Svíþjóð („Kjartan Ó. Bjarnason í sýningarferð“ 1960: 12), Finnland („Kjartan Ó. kvikmyndar og sýnir“ 1959: 2) og Danmörku (Kjartan Ó. Bjarnason hefur sýnt …“ 1956: 3), sú síðastnefnda var kostuð af Dönum en hinar voru fjármagnaðar af honum sjálfum. Þessar myndir voru hluti af ferðasýningum hans um Ísland sem urðu árlegur viðburður mestallan sjötta áratuginn og fram á þann sjöunda. Á þessum ferðalögum sýndi Kjartan oftast nýlegar myndir sem hann kryddaði rækilega með eldra myndefni. Þannig gat hann gert sérstaka mynd um íslenskar konur með aðföngum sem hann sótti í fjölda fyrri mynda sinna. Það sama má segja um sveitamyndir hans, myndir af hestum, myndir af börnum, myndir af blómum, myndir af eyjum við Ísland sem hann sýndi á ferðalaginu 1963 og svo mætti lengi telja. Kjartan sparaði tíma og peninga með því að nýta efnið sitt aftur og setja það í þematískt samhengi í annarri mynd, eitthvað sem tíðkast í kvikmyndagerð enn í dag. Stundum var þetta gert á kostnað eldri myndarinnar sem leystist þá upp í brot sem finna má víða í öðrum myndum hans undir öðrum titlum. Besta dæmið um þetta er sú mynd sem Kjartan sýndi oftast á ferlinum og fékk hvað jákvæðasta umfjöllun, Sólskinsdagar á Íslandi. Hana tók Kjartan í sundur og stytti umtalsvert fyrir utanríkisráðuneytið til að hafa til taks til útláns í sendiráðum Íslands og endurnefndi hana This is Iceland eða Þetta er Ísland árið 1960. Gísli Guðmundsson sá um að semja og tala inn á hana enskar skýringar („Ný landkynningarmynd …“ 1960: 3). Í grófum dráttum er This is Iceland styttri útgáfa af Sólskinsdögum á Íslandi og efnislega afar svipuð en hún er aðeins um 25 mínútur að lengd og var líklega sýnd án tals til að byrja með. Sólskinsdagar var um 90 mínútur að lengd („Kvikmyndin Sólskinsdagar …“ 1952: 8), því er ljóst að mikið efni hefur verið klippt út og nánast ógjörningur að vita hvaða efni það var þótt það sé mögulega enn varðveitt. This is Iceland hefur varðveist í heild sinni á Kvikmyndasafni Íslands en Sólskinsdagar er ekki lengur til. Hvarf hún úr sýningum nánast um leið og This is Iceland kom út („Kvikmyndir Kjartans …“ 1961: 16) og hefur ekki sést síðan.
Síðustu sýningar Kjartans voru árið 1968 og áttu að vera í kveðjuskyni þar sem hann var orðinn hjartaveill og átti samkvæmt læknisráði að hætta því landkynningarstarfi sem hann hafði unnið svo ötullega að í tæpa tvo áratugi. Kjartan sótti sem fyrr um styrk til sendiráðsins í Kaupmannahöfn og sagði enn mikinn áhuga á Íslandi á að sjá myndir frá landinu (ÞÍ: Bréf frá Kjartani …: 1968). Hann hafi haldið að eigin sögn um 6000 sýningar og fyrirlestra um Ísland og hann langi að fara eina kveðjuferð. Sendiráðið vísaði honum til utanríkisráðuneytisins (ÞÍ: Utanríkisráðuneytið til sendiráðs …: 1968) sem hafnaði beiðninni (ÞÍ: Sendiráð Íslands …: 1968) þrátt fyrir meðmæli sendiráðsins, fjölda veittra styrkja áratuginn á undan og ábendingu um að hann hafi stuðlað að mikilli landkynningu í Danmörku og víðar með starfi sínu árin á undan. Eftir þessa höfnun hætti Kjartan kvikmyndagerð af sama krafti. Hann hélt áfram að sýna eigin myndir en mjög stopult og svo virðist sem sýningar hans hafi lagst alveg af undir lok sjöunda áratugarins. Mynd hans, Stofnun lýðveldis á Íslandi, var sýnd árið 1969 í Ríkissjónvarpinu („Sjónvarp“ 1969: 10) og Finnbogi Guðmundsson ferðaðist með 100 ár í Vesturheimi um Íslendingabyggðir vestanhafs árið 1970 („100 ár í Vesturheimi“ 1970: 1). Fyrir utan þessar sýningar hurfu myndir Kjartans nánast að öllu leyti af opinberum vettvangi.

Ramminn sem viðfangsefni
Ekki standa margar heilar myndir eftir að loknum ferli Kjartans og má það helst rekja til sýningarleiða hans. Hann sýndi myndir sjaldan á opnum sýningum í kvikmyndahúsum og því voru titlar og efnistök oft á reiki. Kjartan fylgdi myndunum iðulega og fór með skýringar á sýningum þar sem þær voru flestar þöglar. Á fyrri hluta ferilsins voru sýningarnar yfirleitt á vegum félagasamtaka. Þegar hann var byrjaður að fara á eigin vegum í sýningarferðir um landið sýndi hann yfirleitt nokkrar myndir í einu og nefndi þær eftir viðfangsefnum þeirra frekar en með grípandi titlum, til að mynda Austfjarðamyndin, Vestfjarðamyndin og Íslensk börn. Sparaði hann sér líklega töluverða vinnu og einhverja aura með því að sleppa því að hafa titil- og textaspjöld á myndum sínum og gat unnið þær hraðar en ella.
Samantekt yfir kvikmyndagerð Kjartans getur orðið nokkuð flókin þar sem fáar vel skilgreindar myndir eru varðveittar eftir hann. Nokkur hluti mynda Kjartans sem finna má á Kvikmyndasafninu kom inn á spólum með öðrum myndum og oft er erfitt að greina hvar ein mynd endar og önnur hefst. Þá er erfitt að greina myndir án titilspjalda út frá samtímalýsingum úr fjölmiðlum þar sem Kjartan endurnýtti mikið af eigin efni og gerði oft myndir sem snerust um svipað efni, til að mynda sveitamyndirnar Sveitalíf á Íslandi, Blessuð sértu sveitin mín og Húsdýr á Íslandi sem hafa allar að geyma ansi svipuð og oft sömu myndskeiðin af bústörfum og húsdýrum á Íslandi. Svipaða sögu má segja um myndir Kjartans, Eyjarnar á Breiðafirði, Eyjar við Ísland og Vestfjarðamyndina, þar sem hann notar aftur svipuð eða sömu myndskeið til að gefa mynd af lífi og náttúru eyja við Ísland.
Myndefni Kjartans og fagurfræði getur fljótt á litið virkað nokkuð hefðbundin en um miðja 20. öldina voru flestir íslenskir tökumenn vanir því að setja viðfangsefnið í miðju rammans og passa að ekkert væri fyrir því. Lítið var unnið með dýpt og sjaldgæft að setja eitthvað fyrir framan viðfangsefnið, og það aldrei í listrænum tilgangi. Kjartan hafði frá upphafi aðra sýn en íslenskir samtímamenn hans á kvikmyndina og var viss um að eitthvað þyrfti að vera í gangi í rammanum, hreyfing eða táknrænn samanburður á forgrunni og bakgrunni hans. Þessi einkennandi skot Kjartans eru lýsandi fyrir fagurfræðilega sýn hans og túlkun á myndefninu. Í einu skoti gat hann fangað mikla dýpt og andstæður sem skapa merkingu fyrir áhorfendur og undirstrika hæfileika hans sem kvikmyndagerðarmanns og meistara rammans.
Almennt mætti lýsa uppbyggingu mynda Kjartans sem svipmyndum af landinu og lífinu þar. Stök atriði geta haft rökrétta uppbyggingu og þau verið tengd í gegnum ákveðin frásagnarminni og ljóðrænar stemningar sem spanna myndina. Framvindan byggist þó frekar á drifkrafti Kjartans til að gleðja áhorfendur með skemmtilegum og eftirminnilegum myndum frekar en rökréttri framvindu eða uppbyggingu. Listræn sýn hans lá helst í fegurð rammans og uppsetningu innan hans, þar gat Kjartan fléttað saman andstæður í sama skotinu með ótrúlegri nákvæmni og skapað merkingu með sjónarhorninu einu saman. Taka mætti dæmi um myndskeið sem Kjartan tók af Eskifirði fyrir mynd sína um Austfirði (KvSÍ: Kf 83-26, 12.) þar sem hann fangar í einu skoti andstæður og setur saman í merkingarbæra heild. Skotið er tekið austan megin við byggðina og horft inn fjörðinn til vesturs. Húsaþyrpingin á eyrinni stendur milli hárra fjalla og rétt sést glitta í himininn á bak við þau. Í miðju rammans er skip að leggja úr höfn á hættuna á miðunum að afla lífsviðurværis bæjarins en í forgrunni eru börn að leika sér, áhyggjulaus og mynda sterka andstæðu við skipið og fjöllin í kring. Allt þetta er sameinað í einu skoti og skapar tilfinningar hjá áhorfanda um fegurð smábæjarlífsins, baðað rauðleitri kvöldsólarbirtu. Kjartan sýnir kynjaskiptingu barnahópsins einnig ákaflega vel. Strákarnir eru í reiptogi og keppast um að sýna mátt sinn og megin og kennarinn, sem er karl, fylgist náið með þeim. Stúlkurnar leika sér í leik sem svipar til í grænni lautu þar sem ein þeirra er í miðjunni og hinar haldast í hendur og ganga í kringum hana, allar klæddar í kjóla. Þær mynda andstæðu við strákana og fangar skot Kjartans gamla sýn á kynjahlutverk á skilmerkilegan máta. Karlkyns kennarinn sýnir leik strákanna áhuga en snýr baki í stúlkurnar sem una sér þó einnig vel í sínum leik.
Annað dæmi um slíka mynduppbyggingu sem er einnig góð staðfesting á náttúrulegum hæfileikum Kjartans er úr elsta varðveitta myndefni hans sem hann tók árið 1936. Í Góðum stundum sem hann gerði fyrir Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg tók Kjartan upp skemmtiferðir á vegum starfsmanna prentsmiðjunnar sem voru farnar árin 1936–1939. Mikil gleði einkennir myndefnið og kvikmyndar Kjartan vinnufélaga sína við söng og skemmtun á ferð um landið en þó má sjá glitta í stíl Kjartans. Í skoti af áningarstað við Hvítá í Árnessýslu setur hann saman nokkuð einkennandi ramma. Í forgrunni er gróðurrunni á árbakka, straumhörð áin er í miðju rammans og lengst frá og efst í rammanum bera ferðafélagar hans við himin. Uppsetningin er óvenjuleg en með henni dregur hann fram kjarna ferðalagsins og gleðina sem ríkir meðal félaga hans og fléttar saman við dramatíska náttúru Íslands.

Heilar myndir
Möguleg ástæða þess að nafn Kjartans er ekki þekktara en raun ver vitni er að engar sérstakar kvikmyndir sem hann gerði fönguðu hylli þjóðarinnar og lifðu áfram með henni. Stofnun lýðveldis á Íslandi hefði getað orðið einkennandi mynd fyrir hann en vegna mistaka við upptöku hlaut hún ansi fálegar viðtökur og hefur sjaldan verið sýnd þrátt fyrir viðleitni við að laga hana. Nokkrar myndir Kjartans mætti kalla fullkláraðar, með titil- og textaspjöldum og stundum þularrödd sem lýsir því sem fyrir augu ber. Góðar stundir (1936–1939), Þórsmörk og Öræfi (1940, hét upphaflega Þórsmörk í litum), Skín við sólu Skagafjörður (1953), Loftleiðir – Flying Abroad (1961), Stofnun lýðveldis á Íslandi (1946), Prentlistin 500 ára (1940) og Við straumana (1949) eru nokkrir þeirra titla sem mætti nefna.
Þá er barnamynd Rauða krossins ein heilsteyptasta mynd Kjartans. Hana gerði hann upp úr eigin myndum fyrir Rauða kross Íslands ásamt upptökum á sérstökum barnaheimilum hreyfingarinnar. Myndina tók hann upp í kringum 1944 og hefur hann að öllum líkindum hljóðsett hana þegar hann var þar að vinna við Stofnun lýðveldis á Íslandi í Bandaríkjunum árið 1945. Myndin er talsett á ensku og skrifaði Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins handritið. Hún sýndi íslensk börn í sumarbúðum Rauða krossins við Silungapoll, í Selinu við Hveragerði og í Reykholti og var gerð sem tákn fyrir vináttu við ungliðahreyfingu bandaríska Rauða krossins. Áhugavert getur verið að skoða nokkra þætti myndarinnar nánar. Eftir stutta kynningu á sögu stjórnarhátta á Íslandi yfir myndefni af Tjörninni og Austurvelli í Reykjavík berst talið að þeim stóra hópi krakka sem fer í sveit á sumrin og kynnist landinu á máta sem borgarlífið býður ekki upp á. Ekki fá öll börn pláss í sveit, sér í lagi ekki þau sem yngri eru, og því eru sumarbúðirnar góður staður fyrir þau til að kynnast lífinu fyrir utan borgina. Hér skiptir myndin um takt og við sjáum nokkuð hefðbundnar svipmyndir af landinu. Margar þeirra hefur Kjartan notað í öðrum myndum, til að mynda skot af reiðmanni í Öræfum sem hann tók fyrir Skógrækt ríkisins árið 1940 og skot af ungri stúlku að gefa hænum korn sem Kjartan notaði einnig í myndum sínum um sveitalíf og húsdýr. Svipmyndirnar enda í sumarbúðum við Silungapoll þar sem við sjáum börn ganga saman í hóp í gegnum hrikalegt hraun með húsið og vatnið í bakgrunni í nokkuð fullkomnu stofnskoti (e. establishing shot) sem mætti heita hefðbundið marglaga skot fyrir Kjartan. Inn í mitt myndskeiðið er komið skoti af ungri stúlku í upphlut sem er sögð vera með í búðunum en myndskeiðið passar illa í samsetninguna við krakkana í hrauninu og er í raun upptaka af dóttur Kjartans sem má einnig finna í fjölskylduefni hans. Klipping er mögulega helsti veikleiki Kjartans eins og innsetningarskotið af stúlkunni gefur til kynna. Tökur hans eru gjarnan gullfallegar og oft hlaðnar merkingu en samsetningu þeirra er stundum ábótavant. Margar vel heppnaðar myndfléttur er vissulega að finna í verkum Kjartans, sér í lagi innan atriða. Það vantar þó stundum meiri vigt í heildræna virkni myndanna hans. Kjartan kunni vel til verka og hér er ekki ætlunin að hnýta í fagkunnáttu hans, hann nýtir sér hefðbundna framvinduklippingu mjög vel og kann að brjóta niður víðmynd í nærmyndir á skiljanlegan máta. Það sem vantar oft í myndir hans er uppbygging og framvinda sem hann fórnar á kostnað fegurðar og verða þær því ansi svipmyndalegar fyrir vikið. Það var þó líklega markmið hans: Að búa til fallegar svipmyndir af landi og þjóð.
Rauðakrossmyndin heldur áfram og við sjáum drengi kubba, fyrst í víðmynd og svo eru klipptar miðnærmyndir af einstökum drengjum þar sem þeir una sér við að byggja turna og borgir. Næst er farið til Hveragerðis þar sem Selið hýsir sumarbúðir Rauða krossins. Þar sjáum við fallegt kynningarskot af húsinu og börnum að leik fyrir utan það á sólríkum sumardegi, á milli myndavélarinnar og hússins stígur gufa upp úr grænu grasinu og sveipar skotið dulúðlegum ljóma. Næst er komið með börnin út, þau háttuð og látin baða sig í sólinni, mörg hver án klæða. Samsetning Kjartans á myndum af stúlkunum sem liggja prúðar og spjalla við myndir af drengjunum sem hrúgast saman með brölti og látum og geta engan veginn verið kyrrir mætti taka sem dæmi um gæði hans og innsæi við klippingu innan atriða. Eftir fleiri gullfallegar myndir af börnum við leik og störf við berjatínslu í Reykjadal og í sumarbúðum í Reykholti endar Kjartan myndina á einu af einkennum sínum, skoti af sólsetri. Táknræn lokaskot af sólsetrum má finna víða sem endahnút á myndum hans og þrátt fyrir að vera ansi augljós og tilfinningalega hlaðin leið til að enda myndir lýsa þau vel eðli Kjartans við að tjá sig myndrænt og gefa sig allan í merkingu og fegurð kvikmynda sinna.

Arfleifðin
Kjartan og eiginkona hans, Sesselja Einarsdóttir, fluttust til Danmerkur árið 1951 og settust þar að í kjölfar aukinna verkefna Kjartans þar í landi og víðar. Þau eignuðust tvær dætur, Erlu sem flutti til Bandaríkjanna og Auði sem ólst að stórum hluta upp í Danmörku. Kjartan bjó í Danmörku til dánardags 26. ágúst 1981 („Andlát“ 1981: 14). Af einhverjum ástæðum hvarf nafn hans úr vitund fræðimanna þegar kom að kvikmyndasögu Íslands og afrek hans gleymdust. Árið 1950 var Kjartan nefndur ásamt Óskari Gíslasyni sem einn fremsti kvikmyndatökumaður þjóðarinnar þegar kom að náttúru- og atvinnulífsmyndum og var oft nefndur („„Sjón er sögu ríkari““ 1950: 2) í sömu andrá og aðrir merkustu kvikmyndagerðarmenn landsins. Þetta brottfall hans er mögulega til komið vegna þess að hann gerði aldrei leikna kvikmynd eða vegna þess að hann flutti til Danmerkur og bjó þar á efri árum. Þá var hann mjög sjálfstæður og sýndi til dæmis eigin myndir sjaldan í Reykjavík og hefur því kannski ekki verið á sjóndeildarhringnum hjá réttum aðilum. Ekki hefur hjálpað til að eftir Kjartan liggja engir sérstakir titlar eða skilgreind höfundarverk. Þá ferðaðist hann um og sýndi myndirnar á eigin vegum og því urðu möguleikar kvikmyndahúsa til að endursýna myndirnar og skapa hefðir nánast að engu. Einnig hefur vinnsla Kjartans á myndunum, þar sem hann tók þær í sundur, endurnýtti skot og sýndi iðulega margar myndir á hverri sýningu, gert það að verkum að enginn einn ákveðinn titill hefur varðveist sem sú mynd sem fólk man eftir. Stofnun lýðveldis á Íslandi hefði getað orðið hans eftirminnilega mynd en hún misheppnaðist af ýmsum ástæðum, og Sólskinsdagar á Íslandi varðveittist ekki, heldur aðeins hin mun ferðamannavænni This is Iceland sem varð til upp úr henni. Hvað sem slíkum vangaveltum líður er ferill Kjartans ákaflega heillandi og landkynningarstarf hans erlendis ómetanlegt. Hann var með allra fyrstu kvikmyndagerðarmönnum til að nýta sér stofnanavæðingu kvikmyndagerðar á Íslandi, hann gerði fyrstu hljóðmynd Íslendinga og varð fyrstur til að starfa í faginu sem aðalatvinnu. Hann náði ótrúlegum sjónarhornum af merkilegum atburðum líkt og Heklugosinu 1947 og óeirðunum við Alþingi árið 1949. Þá eru ótaldar sýningar hans af íslensku landslagi og staðháttum erlendis sem spönnuðu tæpa tvo áratugi og gríðarlegan fjölda sýninga víða um heim. Ferðir hans um Ísland voru síst ómerkilegri þar sem hann sýndi fjölbreytt myndefni frá Íslandi og frá mörgum ferðalögum sínum erlendis.
Kjartan Ó. Bjarnason er líklega best geymda leyndarmál íslenskrar kvikmyndasögu, eftir hann liggja miklir fjársjóðir myndefnis sem hann tók á rúmlega 30 ára ferli. Í verkum hans liggja þræðir kvikmyndasögu Íslands og verður hans vonandi minnst sem eins dugmesta kvikmyndagerðarmanns þjóðarinnar og þess fyrsta til að taka stökkið og gera kvikmyndagerð að sínu ævistarfi.

 

Aftanmál.

1. Greinin er hluti af rannsóknum á Kvikmyndasafni Íslands, verkefni sem hlaut öndvegisstyrk úr Safnasjóði Safnaráðs árið 2021 og afrakstur fyrsta hluta rannsóknarinnar.
2. Því miður hefur myndin ekki varðveist og telst glötuð í dag. Myndin var ekki sú alfyrsta í lit til að vera tekin á Íslandi, Vestur-Íslendingurinn Harald Johnson tók frumstæða litmynd af Alþingishátíðinni árið 1930. Mynd Kjartans er þó sú fyrsta sem Íslendingur tekur á landinu og sýnir (Erlendur Sveinsson 1999: 854).
3. Hér er vísað til mynda Lofts, Ísland í lifandi myndum (1925) sem útgerðin Kveldúlfur kostaði og Alþingishátíðin 1930 (1930) sem Ölgerðin Egill Skallagrímsson kostaði.
4. Ekki má túlka þessi orð sem svo að einungis hafi verið kvikmyndað á vegum stofnana og samtaka. Margir tóku myndir á eigin vegum og sýndu jafnvel almenningi. Almennt var kvikmyndagerð þó ekki á færi venjulegs fólks heldur náðu kvikmyndagerðarmenn að sinna hugðarefnum sínum á eigin spýtur á milli kostaðra verkefna og eiginlega alltaf samhliða annarri vinnu. Því má segja að grunnurinn að almennri kvikmyndagerð í landinu hafi verið lagður með stofnanavæðingu kvikmyndagerðar á Íslandi árið 1935 sem varð til þess að kvikmyndagerðarmenn gátu í kjölfarið sinnt kvikmyndagerð í víðara samhengi.
5. Nánar má lesa um Stofnun lýðveldis á Íslandi og vandamálin varðandi gerð hennar í: Gunnar Tómas Kristófersson. 2023. „Myndir fyrir lýðveldið: Um kvikmyndun lýðveldishátíðarinnar 17. júní 1944.“ Andvari 148 (1): 187–202.

 

Heimildaskrá:

„Andlát.“ 1981. Dagblaðið. 2. september.
„Ameríski Rauði krossinn gefur Fræðslumálastjórninni 20 hljómmyndir fyrir börn.“ 1943. Vísir. 9. janúar.
„Dansk-íslenzka félagið.“ 1947. Vísir. 28. febrúar.
„Dómnefnd ljósmyndasýningar Ferðafjelags Íslands.“ 1937. Morgunblaðið. 30. nóvember.
„Efnisyfirlit.“ 1930. Perlur 1 (1).
Erlendur Sveinsson. 2002. „Frekar bogna en brotna: Um frumkvöðul í íslenskri kvikmyndagerð.“ Enginn getur lifað án Lofts. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands: 19–62.
Erlendur Sveinsson. 1988. „Ísland í lifandi myndum: Fyrstu tveir áratugir aldarinnar í lifandi myndum.“ Ný Saga 2 (1): 88–94.
Erlendur Sveinsson. 1999 (I). „Landsýn – heimssýn: Kynningarmáttur kvikmyndarinnar á fjórða áratugnum.“ Heimur kvikmyndanna. Ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið og Art.is: 852–858.
Erlendur Sveinsson. 1999 (II). „Árin tólf fyrir daga Sjónvarps og Kvikmyndasjóðs.“ Heimur kvikmyndanna. Ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið og Art.is: 868–873.
„Ferðafjelag Íslands.“ 1945. Morgunblaðið. 8. mars.
„Gefin verður út bók um lýðveldishátíðina.“ 1944. Morgunblaðið. 12. júlí.
Guðmundur Kamban. 1935. „Íslenzk kynnisstarfsemi.“ Alþýðublaðið. 26. júní.
„Hundrað ár í Vesturheimi.“ 1970. Lögberg-Heimskringla. 9. apríl.
Íris Ellenberger. 2007. Íslandskvikmyndir 1916–1966: Ímyndir, sjálfsmynd og vald. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.
Íris Ellenberger. 2008. „Íslendingar í heimi framtíðarinnar: Kvikmyndir Vigfúsar Sigurgeirssonar og landkynningarvakningin 1935–1940.“ Þjóðin, landið og lýðveldið. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands: 27–48.
„Íslandskvikmynd, sem vekur athygli og fær hrós erlendis.“ 1950. Morgunblaðið. 19. nóvember.
„Íslandskvikmynd sýnd í nær 90 dönskum borgum.“ 1952. Vísir. 14. júní.
„Íslandskvikmynd sýnd við góðar undirtektir.“ 1951. Vísir. 12. febrúar.
„Íslandsmynd sýnd í dönskum skólum.“ 1950. Morgunblaðið. 13. október.
„Íslendingur lærir kvikmyndatöku í Bandaríkjunum.“ 1945. Vísir. 11. ágúst.
„Íslenzkar litkvikmyndir sýndar.“ 1950. Vísir. 1. febrúar.
„Íþróttakvikmynd Í.S.I.“ 1938. Morgunblaðið. 29. nóvember.
„Kjartan O. Bjarnason sýnir íslenzkar kvikmyndir í Nýja bíó.“ 1950. Alþýðublaðið, 31. janúar.
„Kjartan Ó. Bjarnason.“ 1950. Morgunblaðið. 13. maí.
„Kjartan Ó. Bjarnason hefur sýnt „Sólskinsdagar á Íslandi“.“ 1956. Morgunblaðið. 14. ágúst.
„Kjartan Ó. Bjarnason í sýningarferð.“ 1960. Morgunblaðið. 17. september.
„Kjartan Ó. Bjarnason vinnur að töku Austfjarðakvikmyndar.“ 1949. Morgunblaðið. 21. janúar.
„Kjartan Ó. kvikmyndar og sýnir.“ 1959. Nýi tíminn. 9. júlí.
KvSÍ: Kf 83-12, 1.
KvSÍ: Kf 17-12, 1.
KvSÍ Kf 83-26, 12.
KvSÍ: Kf 02-9, 1 og Kf 02-9, 2.
KvSÍ: Kf 02-9, 1 og Kf 02-9, 2.
„Kvikmyndasýning á skemmtun Ferðafél. Íslands.“ 1948. Mánudagsblaðið. 22. nóvember.
„Kvikmyndin Sólskinsdagar á Islandi sýnd í Nýja Bíó um helgina.“ 1952. Alþýðublaðið. 14. júní.
„Kvikmyndir Kjartans Ó. Bjarnas. út á land.“ 1961. Tíminn. 4. ágúst.
„Kvikmynd um íslenska hestinn.“ 1947. Morgunblaðið. 1. mars.
„Litkvikmynd hefur verið gerð um Íslendingabyggðir í Vesturheimi.“ 1956. Alþýðublaðið. 24. ágúst.
„Loftur Guðmundsson, ljósm. kominn heim. Fær nýjar vélar til myndatöku.“ 1945. Morgunblaðið. 24. apríl.
„Loftur tekur myndir fyrir bæinn.“ 1943. Morgunblaðið. 23. október.
Lögberg. 1955. 18. ágúst.
Morgunblaðið. 1936. 13. nóvember.
Morgunblaðið. 1945. 21. janúar.
Morgunblaðið. 1947. 28. október.
„Norræna garðyrkjusýningin í Kaupmannahöfn.“ 1937. Nýja dagblaðið. 25. nóvember.
„Ný landkynningarmynd til sendiráðanna erlendis.“ 1960. Þjóðviljinn. 17. ágúst, 1960.
„Páskaför Fjallamanna.“ 1942. Morgunblaðið. 19. apríl.
„Raddir varðveittar á stálþræði.“ 1951. Skinfaxi 42 (2): 94–95.
„Samkoma.“ 1945. Tíminn. 6. mars.
Sigurjón Jóhannesson. 1998. „Aldarminning: Kristinn Bjarnason.“ Morgunblaðið. 17. júní.
„„Sjón er sögu ríkari.““ 1950. Mjölnir. 28. júní.
„Sjónvarp.“ 1969. Tíminn. 17. júní.
„„Sólskinsdagar á Íslandi“ sýnd 2000 sinnum á Norðurlöndum.“ 1959. Vísir. 16. apríl.
„Svigkeppnin í gær.“ 1939. Morgunblaðið. 26. mars.
„Sýnir kvikmyndir í Kaupmannahöfn.“ 1950. Vísir. 23. maí.
„Sýnir landið um kring.“ 1959. Tíminn. 1. október.
„Um 200 manns á sumarfagnaði Íslendinga í Höfn.“ 1950. Vísir. 28. apríl.
„Unnið að skagfirzkri kvikmynd.“ 1951. Tíminn. 11. mars.
„Verkalýður Reykjavíkur sýnir einhuga fylgi sitt við sameininguna.“ 1938. Þjóðviljinn. 4. október.
„Væntanlegt á næstunni: vélar og efni til litmyndatöku af fólki.“ 1945. Vísir. 23. apríl.
ÞÍ (Þjóðskjalasafn Íslands). 1968. 1999 – B/7. Smáfilmur Kjartans Bjarnasonar frá Íslandi, pk. II, frá 1. janúar 1960 til 26. janúar 1968: Bréf frá Kjartani Ó. Bjarnasyni til Sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. 8. janúar.
ÞÍ. 1968. 1999 – B/7. Smáfilmur Kjartans Bjarnasonar frá Íslandi, pk. II, frá 1. janúar 1960 til 26. janúar 1968: Utanríkisráðuneytið til Sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. 11. janúar.
ÞÍ. 1968. 1999 – B/7. Smáfilmur Kjartans Bjarnasonar frá Íslandi, pk. II, frá 1. janúar 1960 til 26. janúar 1968: Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn til utanríkisráðuneytisins. 25. janúar.
„Þrítugasta og sjötta ársþing Þjóðræknisfqlags Íslendinga í Vesturheimi.“ 1955. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga. 1. janúar.
„Æskulýðsfylkingin og Sósíalistafélag Reykjavíkur halda sameiginlegan skemmtifund.“ 1945. Þjóðviljinn. 9. febrúar.

 

Kjartan Ó. Bjarnason mundar myndavélina

 

100 ár í Vesturheimi: Á ferð um Bandaríkin, nautabúgarður Vestur-Íslendinga

 

100 ár í Vesturheimi: Eldri kona spinnur ull árið 1955 í Bandaríkjunum

 

100 ár í Vesturheimi: Sviðsett atriði, sala á búgripum

 

Menn raka sig úti í Vigur á Ísafjarðardjúpi

 

Fimleikakonur úr Ármanni leika jafnvægislistir í Reykjavík

 

Drengur í sumarbúðum í Reykholti í Borgarfirði bakar moldarköku

 

Kjartan Ó. Bjarnason í Danmörku

 

Eskifjörður. Lagskipt skot Kjartans: Drengir í reiptogi í forgrunni, kennarinn fylgist með þeim, stúlkur að leik fyrir aftan, bærinn, skip, hafið og fjöll mynda skot sem segir mikla sögu.

 

Drengir kasta steinum í sjóinn. Kjartan gefur stóru fjallinu mikið rými og setur það saman við smæð drengjanna og leik þeirra í forgrunni.

 

Úr myndinni Íslenzkar stúlkur sem Kjartan setti saman og sýndi meðal annars í Noregi: Á miðjum vinnudegi á Stöðvarfirði.

 

Austurvöllur: Fólk skemmtir sér yfir ræðu Filippusar prins árið 1964

 

Góðar stundir: Í fyrstu kvikmynd Kjartans má sjá lagskiptingu hans á rammanum, gróður í forgrunni, beljandi fljótið og svo félaga hans efst og fjærst.