Upphaf kvikmyndaaldar á Íslandi

Eftir Gunnar Tómas Kristófersson

Tvö ártöl er spanna þriggja ára tímabil marka alla jafna upphaf kvikmyndamenningar á Íslandi. Hið fyrra er 1901 en í september það ár kom hollenski kvikmyndatökumaðurinn F. A. Nöggerath til að mynda land og þjóð fyrir enskt kvikmyndafélag. Síðara ártalið er 1903 en þá sóttu Norðmaðurinn Rasmus Hallseth og Svíinn David Fernander landið heim í þeim tilgangi að sýna kvikmyndir. Þessar tvær heimsóknir mætti kalla upphaf kvikmyndaaldar á Íslandi þar sem Íslendingar höfðu ekki haft nokkur kynni af kvikmyndamiðlinum sem var að ryðja sér til rúms víða um heim, ef frá eru taldar umfjallanir dagblaða af miðlinum og frásagnir lánsamra Íslendinga sem fengið höfðu að upplifa kvikmyndasýningar erlendis. Eggert Þór Bernharðsson vekur meðal annars athygli á þessu og lýsir í greininni ,,Landnám lifandi mynda: Af kvikmyndum á Íslandi til 1930“. Í henni fer Eggert af kostgæfni yfir tímabilið er kvikmyndasýningar og kvikmyndagerð hófust á Íslandi og fjallar meðal annars um heimsóknir útlendinganna þriggja og lýsir viðbrögðum landsmanna við þessari fyrstu innreið miðilsins til landsins. (1) Aðrir hafa einnig fjallað um fyrstu ár kvikmynda á Íslandi og ber þar helst að nefna Erlend Sveinsson en eftir hann má finna fjölmörg skrif um íslenska kvikmyndasögu og fyrstu áratugi kvikmyndasýninga hér á landi, og er þar rétt að nefna sérstaklega ritið Kvikmyndir á Íslandi 75 ára. (2)

Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem Eggert, Erlendur og aðrir slepptu honum og leitast við að dýpka þekkingu á fyrstu árum kvikmynda á Íslandi. Þetta er þó ekki mögulegt án þess að endurtaka sumt sem áður hefur komið fram, og er það þá gert til að skapa heilsteypta frásögn og samfellu. Staldrað verður sérstaklega við áðurnefnd tvö ártöl og rætt nánar en áður hefur verið gert hvernig ferðalögum Nöggerath annars vegar og Hallseth og Fernander hins vegar var háttað og ástæðurnar fyrir komu þeirra, sem og hverjir þessir menn í raun voru. Þá verður birtu brugðið á aðdraganda kvikmyndaaldarinnar með umfjöllun um forsögu kvikmyndasýninga á Íslandi og hvernig brugðist var við hinum nýja miðli í fjölmiðlum þegar vitneskjan um hann einkenndist af lausafregnum og lýsingum íslenskra ferðalanga er barið höfðu hann augum á erlendri grundu. Segja má að landnámi lifandi mynda hafi svo ekki lokið fyrr en sýningar þeirra voru komnar í nokkuð fasta rekstrarlega umgjörð og lýkur því greininni á umræðu um kvikmyndasýningar í Reykjavík fram til stofnunar Nýja bíós árið 1913.

Viðamesta umfjöllun um þetta tímabil og fyrstu kynni Íslendinga af kvikmyndatækninni er að finna í áðurnefndri grein Eggerts Þórs. Þar fjallar hann meðal annars um komu Nöggerath árið 1901 sem og komu Hallseths og Fernanders árið 1903 og hvernig þeir stóðu fyrir fyrstu kvikmyndasýningum þjóðarinnar í höfuðstað Norðurlands, Akureyri í júnímánuði árið 1903. Þá fjallar hann einnig um tilraunir til kvikmyndasýninga á Íslandi, viðbrögð almennings og yfirvalda við þeim, hljóðsetningu þögulla mynda, tilkomu hljóðmynda og margt annað. (3) Mikilvægi greinar Eggerts Þórs er vart hægt að ofmeta og breytir þessi grein engu þar um, enda aðeins farið í hluta þess sem hún fjallar um. En munurinn á því sem hér verður farið í er sá að helstu heimildir Eggerts eru dagblöð og tímarit og annað prentefni en rétt er að hafa í huga að grein hans er skrifuð áður en Landsbókasafnið setti á laggirnar timarit.is sem umbylt hefur leitarkostum í efni af því tagi sem Eggert studdist við. Það er timarit.is sem hefur gert mér kleift að fylla í eyður í grein Eggerts og festa röð atburða betur í sessi. Þá hafa rannsóknir í erlendum gagnagrunnum og samskipti við fræðimenn á sviði norrænnar kvikmyndasögu ennfremur varpað ljósi á áður óþekktar hliðar þessarar sögu, ekki síst er kemur að bakgrunni þeirra Nöggerath og Hallseth og Fernanders.

Úr skugganum

Töfralampinn (lat. laterna magica) og sú skemmtun sem hann hafði upp á að bjóða hafa oft verið nefndar forverar kvikmyndarinnar enda byggja báðar uppfinningarnar á sömu grunnhugmynd: Að varpa mynd á vegg til skemmtunar og fróðleiks. (4) Töfralampinn á rætur sínar að rekja til 17. aldar í Evrópu en fyrstu heimildir um slíkan lampa á Íslandi eru þó mun yngri. (5) Myndformin sem komu úr töfralömpum voru kölluð skuggamyndir og því voru skemmtanir oft auglýstar undir þeim titli. Þó voru skuggamyndir án töfralampa og skyggnumynda einnig auglýstar sem skemmtun þar sem menn gerðu skuggamyndir einungis með höndunum eða úrklippum og ljósi. Því er ekki alltaf augljóst við hvað er átt í heimildum þegar minnst er á skuggamyndir. Heimildir um fyrstu skuggamyndasýningarnar á landinu er að finna í auglýsingu í Þjóðólfi árið 1859 þar sem Daninn C. Boderup er skráður fyrir sýningunum og telur Inga Lára Baldvinsdóttir í umfjöllun sinni um skuggamyndasýningar í bókinni Sigfús Eymundsson: Myndasmiður þær vera fyrstu sýningarnar með skyggnumyndum á landinu. (6) Í Ísafold árið 1874 var auglýst að skuggamyndir yrðu sýndar til styrktar Sunnudagaskólanum í samkomusalnum í Glasgow-húsinu sunnudaginn 1. mars. (7) Miðasala var á heimili Sigfúsar Eymundssonar ljósmyndara sem sá um sýninguna. Sigfús var ötull frumkvöðull í ljósmyndun á landinu en meðfram ljósmyndastarfinu stundaði hann verslunarstörf og innflutning og stofnaði meðal annars verslunina Eymundsson árið 1872. Samkvæmt bók Ingu Láru Baldvinsdóttur Sigfús Eymundsson: Myndasmiður hafði Sigfús staðið fyrir skuggamyndasýningum þegar árið 1870 en aftur á móti telur hún að Sigfús hafi verið að sýna skuggamyndir án töfralampa ásamt öðrum sjónhverfingum og ekki staðið fyrir skyggnusýningum eins og hingað til hefur verið talið. (8) Samkvæmt skrifum Ingu Láru hafði Þorlákur Ó. Johnson kaupmaður dvalið lengi í Englandi og árið 1879 auglýsti hann myndasýningu sem væri sú fyrsta í Reykjavík og því telur Inga Lára réttilega að Þorlákur sé frekar frumkvöðull á sviði skuggamyndasýninga á Íslandi en Sigfús Eymundsson. (9) Fljótlega voru Sigfús og Þorlákur þó farnir að vinna saman að sýningum og þær urðu reglulegri. Í Þjóðólfi árið 1884 var þeim þakkað fyrir að verða íbúum Reykjavíkur úti um skemmtun, enda lítið fyrir slíku að fara samkvæmt blaðamanni. (10)

Á sýningunum voru sýndar ýmsar skuggamyndir, bæði málaðar sem og ljósmyndir, flestar frá útlöndum en þó líka nokkrar frá Íslandi. Í auglýsingu fyrir sýningu í nóvember 1884 var sérstaklega minnst á skemmtilegar myndir fyrir börn, myndir víðsvegar að úr heiminum og myndir sem sýndu ,,Þingvelli, Almannagjá, fossinn í Almannagjá, Strokk að gjósa, Gullfoss, Brúará, Hvítá í Borgarfirði, Leirá, Hvítárvelli, Barnafoss, Hvalfjarðarbotn, Reykjavík (ýmsar myndir), höfnina í Reykjavík, forngripasafnið að innan o.fl.“ (11)

Þrátt fyrir nýjabrum sýninganna voru, samkvæmt umfjöllun Ingu Láru, ekki allir á eitt sáttir um gildi þeirra. (12) Í Suðra birtist hörð gagnrýni ritstjórans, Gests Pálssonar, á þetta framlag til skemmtanalífs borgarinnar. Fátt var undanskilið og í byrjun greinarinnar eru salarkynnin sjálf kennd við ,,salskompu“, en sýningarnar fóru fram í litlum sal á heimili Þorláks. Svo hélt Gestur áfram og næst var sýningin sjálf tekin fyrir:

Það er svo sem enginn öfundsverður af þeirri skemmtun, að sjá þessar skuggamyndir, því þar er sárlítil uppbygging og fróðleikur í og skemmtunin er helzt í því fólgin, að myndir eru sýndar, sem eiga að vera hlægilegar, en eru langtum fremur grátlega fátæklegar. (13)

Inga Lára ræðir hvernig Gestur sakar þá félaga um að hafa ekki fengið skemmtanaleyfi fyrir sýningunum og spunnust nokkrar deilur í kringum það. (14) Einnig notar Gestur sýninguna, sem kostar 50 aura í aðgangseyri, sem útgangspunkt fyrir umræðu um fiskileysið í bænum og þá fátækt sem breiðst hefur út á þessum erfiðu tímum. Telur hann það athæfi að plokka peninga af þeim sem minnst mega sín með svona óþarfa með öllu óverjandi. Þá undrast pistlahöfundur ennfremur að bæjarfulltrúinn Þorlákur Ó. Johnson skuli ekki sjá að sér enda ætti honum að vera staðan ljós. Telur ritstjórinn að:

tíminn sé illa valinn til að græða fé á skemmtunarfýsn manna og séu nú skemmtanirnar svo úr garði gerðar, að engin von sé til að aðrir sæki þær en þeir, sem sökum skorts á menntun geta ekki séð, hve þær eru lítilsverðar, þá er ástæða til að tala um, að hér sé ,,spekúlerað” í hinum fáu skildingum aumingjanna, sem þeir þó þurfa svo mjög við nú sem stendur, til að treyna lífið í sér og sínum. (15)

Það er skemmst frá því að segja að ekkert bann var sett á sýningar félaganna. (16) Leiðir þeirra skildu þó árið eftir og hélt Þorlákur sýningunum áfram einn síns liðs til ársins 1892.

    Fyrir jólin 1889 auglýsti Þorlákur sérlega stóra sýningu með myndum víðsvegar að úr Evrópu. Hann tók jafnframt sérstaklega fram að sýnd yrði hreyfanleg mynd. (17) En skuggamyndir fyrir töfralampa voru sumar þannig gerðar að hægt var að snúa, lyfta eða skrúfa á jaðri myndskyggnunnar sem gerði það að verkum að myndin leit út fyrir að hreyfast á tjaldinu. Ekki var um að ræða flóknar hreyfingar, en þó þóttu mörgum þær tilkomumiklar. Flestar voru hreyfimyndirnar þá málaðar og ekki ljósmyndir. Af auglýsingunni að dæma var Þorlákur búinn að setja saman nokkuð viðamikla dagskrá, en ásamt Evrópureisu á tjaldinu, hreyfimynd og sérstakri barna- og skemmtidagskrá bauð hann upp á söngflokk bæði kvöldin sem átti að flytja ,,concert“ fyrir áhorfendur. (18) Árið 1892 hætti Þorlákur sýningunum vegna heilsubrests sem hann þjáðist af til dauðadags árið 1917. Þrátt fyrir tilkomu kvikmyndatækninnar lifðu skuggamyndir góðu lífi langt fram á 20. öldina, bæði við fyrirlestrahald og aðra fræðslu og til skemmtunar eins og fjöldamargar auglýsingar og umfjöllun blaðanna eru til vitnis um.

Fjölmiðlar komast á bragðið

Við upphaf umfjöllunar um kvikmyndatæknina í íslenskum fjölmiðlum beindist athyglin að yfirlýsingum Thomas Alva Edison um nýja uppfinningu sem gæti sýnt hreyfimyndir. Þann 13. júní 1891 fjallaði Ísafold um uppfinningu Edisons en þar var tækinu lýst á eftirfarandi máta:

Edison hefir nú búið til nýja töfravjel, fyrir augu og eyru, sem kemur á Chicago-sýninguna. Hún flytur manni heim í herbergi sitt frá fjarlægum leikhúsum sjónarleiki, orð og tóna, myndir og hreifingar og svipaskipti þeirra manna, sem þar leika. Og annað eptir því. (19)

    Uppfinningin átti að geta tekið upp bæði hljóð og mynd og endurflutt hvar sem er aftur fyrir áhorfendur. Þótti blaðamanni Austra svo mikið til uppfinningarinnar koma að hann lagði til að Íslendingar mynduðu samtök um kaup á slíkri vél og þannig mætti taka upp í söng- og leikhúsum Stokkhólms, Kaupmannahafnar eða Kristíaníu og halda svo sýningar á heimsmenningunni á Íslandi. (20) Hljóðlaus útgáfa uppfinningarinnar var frumsýnd árið 1893, meðal annars á heimssýningunni í Chicago, sem minnst er á í tilvitnuninni hér að ofan, en sú vél nefndist Kinetoscope og varð brátt gríðarlega vinsæl nýjung. Ekki virðist hafa tekist að kaupa vél Edison til landsins og í raun virðist ekki mikið hafa farið fyrir upphafi kvikmyndanna í íslenskum fjölmiðlum þegar fyrstu kvikmyndirnar voru sýndar í París og Berlín árið 1895. Í tímaritinu Íslandi er vegar fjallað ítarlega um uppfinningu Lumière bræðra árið 1897. Blaðamaður lýsir uppfinningu frönsku bræðranna nokkuð nákvæmlega, en hann segir meðal annars:

Kinematografinn er verkfæri, sem sýnir myndir af viðburðum, ekki aðeins á einu augnabliki heldur í samanhangandi röð, þannig, að svo lítur út, sem viðburðirnir fari fram í raun og veru fyrir augum vorum. (21)

Ljóst er af lýsingunni að ekki gert ráð fyrir nokkurri þekkingu lesenda á tækninni. Blaðamaður ber uppfinninguna jafnframt saman við tæki Edisons, sér í lagi hugmyndir hans um hljóðkvikmyndir:

Átti verkfæri þetta að heita „fono-kinetoskop”. Það hefur reyndar aldrei orðið meira en orðin tóm, og ljet Edison nægja að setja fonograf í nokkurs konar samband við kinetoskopinn. En þær myndir er kinetoskópinn sýndi voru litlar og varð að horfa inn í verkfærið til að sjá þær, svo ekki gat nema einn sjeð þær í einu, og áhorfandinn truflaðist af óþægilegum titringi. (22)

Það er því ljóst að höfundi var kunnugt um kosti og galla uppfinningar Edisons og taldi þessa nýju kvikmyndavél mikla framför frá hugmyndum Edisons. Sér í lagi nefnir hann stærðarmuninn, en myndum Lumière bræðra var hægt að varpa upp á tjald og voru þær því stórar og margir gátu notið þeirra í einu, miðað við litlu myndirnar í kassa Edisons sem einungis einn gat notið í einu. Óvíst er hvort höfundur greinarinnar hafi verið viðstaddur kvikmyndasýningu en til er frásögn frá 1896 af Íslendingi á kvikmyndasýningu í Lundúnaborg. Er þar sennilega um fyrsta Íslendinginn að ræða sem verður vitni að kvikmyndasýningu sem heimildir eru til um, en það var Hannes Þorsteinsson ritstjóri Þjóðólfs. Hann var á ferðalagi um borgina og eitt kvöldið var hann með félaga sínum inni á skemmtistaðnum Alhambra við Leicestertorg þegar skemmtidagskrá hefst. Eftir trúðslæti og annað skemmtilegt hófst kvikmyndasýning og segir Hannes svo frá í ferðalýsingu sinni sem birtist í Þjóðólfi 25. september:

Þar á meðal voru sýndar ljósmyndir með algerlega nýrri aðferð, þannig, að allar hreyfingar sáust greinilega. Mátti þar sjá vagna renna eptir götunum, og fólkið ganga eptir þeim svo náttúrlega, eins og það væri lifandi. Þar voru og sýnd veðhlaup, og þutu hestarnir áfram með fljúgandi ferð, en mannfjöldinn þyrptist saman á götunum, og var það allt mjög eðlilegt, enda klöppuðu áhorfendurnir ákaflega við þessa sýningu. Var okkur sagt, að þetta væri alveg ný uppfundning, og dáðust Englendingar mjög að henni. (23)

Sýningin sem Hannes var viðstaddur var á vegum eins mesta frumkvöðuls kvikmynda á Englandi, Robert William Paul (R.W. Paul, 1869-1943) og sýningarvélin var hans eigin smíð. Paul hafði komist í kynni við kvikmyndatæknina í gegnum fyrri verkefni en ákvað að smíða sjálfur kvikmyndavél sem hann svo betrumbætti og snemma árs 1896 kynnti hann hinn svokallaða Theatrograph, fyrstu vélina á Bretlandseyjum sem gat varpað 35 mm kvikmynd upp á vegg. (24) Í kjölfarið þróaði hann vél sína og kallaði hana Animatographe og með því nafni var sýningin sem Hannes var viðstaddur auglýst þann 26. ágúst 1896.

Dagskráin sem auglýst var í borgarblöðunum þann dag kemur heim og saman við lýsingu Hannesar en klukkan 21:30 hófst animatographe dagskráin með Veðreiðunum (The Derby), fylgt eftir af Róðrakeppninni í Henley (Henley Regatta) og Konunglegu brúðkaupi (The Royal Wedding), ásamt öðru efni sem ekki er nefnt á nafn. (25)

Myndirnar voru allar teknar upp af nánum samstarfsmanni Paul, Birt Acres, en saman hönnuðu þeir kvikmyndatökuvél sem kallaðist Paul-Acres vélin og með henni voru þeir með þeim fyrstu til að taka upp kvikmyndir á Bretlandseyjum. (26) Paul og Acres framleiddu saman myndir en svo skildu leiðir og varð Paul einn umsvifamesti kvikmyndaframleiðandi Bretlandseyja á meðan Acres hvarf af sjónarsviðinu. (27)

Með því að vera viðstaddur þessa sýningu varð Hannes vitni að mikilvægum hluta breskrar kvikmyndasögu ásamt því að hefja þá íslensku. Eftir þessa kynningu á kvikmyndamiðlinum, sem var enn ekki kominn með nafn á íslensku, var reglulega minnst á sýningar erlendis í íslenskum fjölmiðlum og miðillinn líklega orðinn Íslendingum að einhverju leyti kunnur, þó aðeins í orði væri. Fleiri urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa hann í eigin persónu á ferðalögum erlendis, eins og til dæmis Ólafur Þ. Johnson, sonur Þorláks Ó. Johnson, sem hafði séð þær í Kaupmannahöfn árið 1898, og varð innan tíðar brautryðjandi í sýningum hérlendis. (28)

 

Fyrsti kvikmyndatökumaðurinn á Íslandi

Árið 1901 upplifðu Íslendingar kvikmyndagerð í fyrsta sinn þegar Hollendingurinn Franz Anton Nöggerath yngri (1880-1947) kom til landsins á haustmánuðum á vegum bresks kvikmyndafyrirtækis. Fjallað var um komu hans til landsins í Þjóðólfi 20. september og hann sagður kominn á vegum hins breska kvikmyndafélags Gibbons & Co. Það er þó líklega ekki rétt því samkvæmt kvikmyndafræðingnum Ivo Blom, sem hefur rannsakað störf og ferðir Nöggerath, starfaði hann fyrir Warwick Trading Company og kom á þeirra vegum til landsins. (29) Eggert Þór nefnir að blaðamanni Þjóðólfs hafi verið afar umhugað um mikilvægi þessa nýja miðils fyrir landkynningu og fannst miður að Nöggerath hafi komið of seint til að kvikmynda hvalveiðar Norðmanna við landið sem og ferðamannaflokka sem hefðu getað dregið fleiri áhugasama ferðamenn til landsins. (30) Greininni um komu Nöggerath lýkur á kunnuglegum orðum um landkynningargildi miðilsins:

Það er enginn efi á því, að væri slíkar myndasýningar frá Íslandi haldnar almennt og víðsvegar um heim, mundu þær stórum geta stuðlað að því, að ferðamannastraumurinn til landsins ykist, og gæti það þá jafnvel verið umtalsmál, að landsmenn sjálfir styddu að því á einhvern hátt, að myndir af þessu tagi gætu komið fram sem fjölhæfilegastar og bezt valdar. (31)

Nöggerath var sonur eins helsta frumkvöðuls kvikmyndasýninga í Hollandi, en faðir hans, Franz Anton Nöggerath eldri (1859-1908), var eigandi Flora, vinælasta tónlistarhúss Amsterdam. Fyrstu kvikmyndasýningar í sögu í Hollands voru haldnar þar í október 1896, aðeins rúmu hálfu ári eftir frumsýningu Lumiére-bræðra í París. (32) Möguleikar nýja miðilsins fóru augljóslega ekki framhjá Nöggerath eldri og hélt hann áfram að blanda kvikmyndum inn í skemmtanir sínar í Amsterdam.

Árið 1897, eftir að hafa gert samning við eitt stærsta kvikmyndadreifingarfyrirtæki Evrópu, Warwick Trading Company, sendi Nöggerath son sinn og nafna til að nema kvikmyndagerð við fyrirtækið á Englandi. Nöggerath yngri fékk þar fjölda verkefna við gerð heimildamynda sem og leikinna og var meðal annars sendur til Íslands til að taka lifandi myndir á þessari afskekktu eyju norður í hafi árið 1901. (33) Ferðalag Nöggerath til Íslands var sprottið upp úr miklum áhuga kvikmyndagerðarmanna og almennings á að upplifa framandi staði og menningu á hvíta tjaldinu. (34)

Nöggerath kom til landsins með breskum togara í september. Við komuna hitti hann kennara nokkurn sem gat gefið honum ýmis ráð og stutta landkynningu og svo fór að kennarinn fékk nemanda sinn til að taka að sér hlutverk leiðsögumanns fyrir Nöggerath og vera ráðgjafi á ferðum hans um landið. Nöggerath fékk næsturgistingu í því sem hann kallaði eina hótel bæjarins og dvaldi þar í nokkra daga, meðal annars til að gera áætlun fyrir ferðina og að verða sér úti um fararskjóta. Eftir að hafa keypt hesta og æft sig aðeins á þeim hófu þeir félagar svo reisuna og héldu saman á Þingvelli. (35)

Nöggerath lýsti heimsókn sinni til Íslands nokkuð ítarlega í viðtölum sem birtust í hollenska tímaritinu De Kinematograf á árstímabili, 1918-1919, og telja í heildina 16 hluta, en þó hafa ekki allir þeirra fundist. (36) Þá hefur fræðimaðurinn Ivo Blom tekið frásögnina saman í grein sem ber heitið ,,Fyrsti kvikmyndatökumaðurinn á Íslandi: Ferðamyndir og ferðabókmenntir“ ásamt því sem hann þýddi viðtölin við Nöggerath yfir á ensku og birti með formála í greininni ,,Chapters from the life of a camera operator. The recollections of Anton Nöggerath – Filming news and non–fiction, 1897-1908“. Í frásögn sinni talar Nöggerath lítið um heimsóknina til Þingvalla og ólíklegt er að hann hafi tekið upp efni þar. Það sama má segja um Heklu sem honum þótti vera mikil vonbrigði, enda allt með kyrrum kjörum á þeim bænum og lítið markvert til að festa á filmu. Aðra sögu er að segja af dvöl Nöggeraths við Geysi í Haukadal, þar sem hann, á þriðja degi, náði myndum af öflugu gosi sem hann segist hafa sloppið frá nær dauða en lífi vegna mikils gufustróks sem fylgdi gosinu. (37)

Eftir ævintýrið við Geysi kláraði Nöggerath Gullna hringinn við Gullfoss, en þar sem þegar voru til myndir af Niagarafossum þá vissi hann að áhorfendur hefðu lítinn áhuga á Gullfossi sem myndefni. Áfram var þó haldið og var næsti leggur tveggja daga ferðalag til að ná myndum af smalamennsku. Gisti Nöggerath í helli með göngumönnum og minntist hann þess sérstaklega að hafa fengið súrmat að borða (sem hann nefnir einfaldlega úldinn mat í endursögn sinni), sem honum fannst ekki mikið til koma. (38) Þrátt fyrir hungur og takmarkaðan svefn í hellinum vaknaði Nöggerath snemma næsta morgun til að stilla upp fyrir komuna niður af fjallinu, en hann myndaði einnig smölun fjárins inn í réttirnar ásamt dilkadrættinum og flutninga þeirra á vögnum aftur á bæina.

Eftir göngurnar og réttirnar hélt Nöggerath aftur til Reykjavíkur þar sem hann dvaldi í nokkra daga á meðan hann safnaði myndefni í dagsferðum í kringum borgina. Meðal annars fór hann af lýsingum hans að dæma mjög líklega til Krýsuvíkur að mynda jarðvirkni, þá náði hann myndum af fiskþurrkun og að lokum söltun hvalkjöts ásamt öðrum smávægilegum viðburðum. Nöggerath hélt svo af landi brott eftir að síðustu ferðaskipin höfðu þegar siglt til Englands þannig að hann þurfti að verða sér úti um far með togara, pláss sem hann fékk í skiptum fyrir tvær viskíflöskur og loforð um að gerast stýrimaður í túrnum. (39)

Myndefni Nöggerath frá Íslandi var tekið til sýninga árið 1902 og er áhugavert að skoða titla afrakstursins, en þeir eru nokkuð ólíkir þeirri frásögn sem höfð er eftir Nöggerath um ferðalagið: Net sótt og afla landað á íslenskum togara (Hauling the Nets and Landing the Catch on an Iceland Trawler), Gaman á íslenskum togara (Fun on an Iceland Trawler), Löndun og hreinsun á afla íslensks togara (Landing and Cleaning of a Catch on an Iceland Trawler), Hreinsun á fiski og löndun hákarls (Cleaning the Fish and Landing a Shark), Sauðfé smalað (Gathering Sheep), Konur hreinsa fisk fyrir söltun (Women Cleaning Fish for Curing) og Konur þvo föt í heitum brunnum (Women Washing Clothes in Hot Wells). (40)

Á leið sinni til Íslands með breska togaranum Nile myndaði Nöggerath lífið um borð, og gerði þar á meðal myndina Gaman á íslenskum togara sem samkvæmt heimildum sýnir sjómennina skemmta sér við að þrífa stakka sína að vinnu lokinni. Á þetta minnist hann sérstaklega í upphafi frásagnar sinnar en ljóst má vera að ekki hafi verið um íslenska sjómenn að ræða, enda engir íslenskir togarar til á þessum tíma. Uppruni sjómannanna skipti litlu máli en Nöggerath sagði þá mynd eina þá vinsælustu úr Íslandsferðinni þar sem gestir veltust um af hlátri að aðförum sjómannanna. (41) Ekkert er minnst á Geysi í titlunum, sem útilokar þó ekki að hverinn hafi komið fyrir í einhverjum myndanna þó það teljist ólíklegt. Réttirnar komast hins vegar að ásamt öðrum daglegum athöfnum Íslendinga, eins og þvotti við þvottalaugarnar og fiskvinnslu. Engar heimildir eru til um það að þessar myndir hafi nokkurn tíma ratað til Íslands og í dag teljast þær með öllu glataðar.

Fljótlega eftir ferðalagið til Íslands hætti Nöggerath hjá Warwick og stofnaði eigið fyrirtæki sem prentaði og framkallaði negatífur fyrir aðra. Þá giftist hann og eignaðist börn og tók að sér hlutverk í kvikmyndum eins og börnin hans gerðu reyndar líka, þrátt fyrir ungan aldur. (42) Eftir andlát Nöggeraths eldri flutti sá yngri aftur til Hollands og tók við viðskiptaveldinu og færði út kvíarnar. Hann lagði aukna áherslu á kvikmyndadreifingu ásamt því að hefja framleiðslu á kvikmyndum. Þrátt fyrir að vera einn viðamesti framleiðandi og dreifingaraðili kvikmynda í Hollandi stóð framleiðslan ekki undir sér og lagði hann hana niður í lok árs 1913. (43) Með breyttum markaðsaðstæðum og fjárhagserfiðleikum neyddist Nöggerath til að einbeita sér að leikhúsrekstri á þriðja áratugnum sem gekk heldur ekki upp og voru leikhúsin seld á uppboði árið 1928 og endaði Nöggerath ferilinn með því að opna ferðaskrifstofu og selja fólki ferðalög til fjarlægra staða. (44)

 

Sýningarvélarnar settar af stað

Eftir heimsókn Nöggerath er ekkert að spyrja af kvikmyndamiðlinum á Íslandi þar til tveimur árum síðar, en í júní 1903 komu tveir Norðurlandabúar til landsins með farandsýningar sínar og gafst þá landsmönnum í fyrsta sinn tækifæri til að berja þessa tækninýjung augum. Norðmaðurinn Rasmus Hallseth (1879 -1940) og Svíinn David Fernander (1883 – 1935) hófu kvikmyndasýningarferðir um Norðurlöndin árið 1900. Gekk þeim ákaflega vel og héldu uppteknum hætti fram til ársins 1906 þegar þeir hættu að ferðast og opnuðu kvikmyndahús í Helsinki. Um svipað leyti tóku þeir að einbeita sér að kvikmyndaframleiðslu í Finnlandi. Teljast Hallseth og Fernander til helstu frumkvöðla kvikmyndaframleiðslu þar í landi með fyrirtæki sitt Nordiska Biograf Kompaniet sem varð annað stærsta framleiðslufyrirtæki Finnlands fyrsta áratug kvikmyndagerðar þar í landi. (45)

Í inngangi að grein sinni ,,Landnám lifandi mynda: af kvikmyndum á Íslandi til 1930“ fjallar Eggert Þór Bernharðsson um heimsókn Hallseths og Fernanders og viðbrögð landsmanna við henni. (46) Lýsir hann ferðalagi þeirra um landið en heimsóknin hófst laugardaginn 27. júní 1903 þegar auglýsing birtist í Norðurlandi um að í fyrsta sinn á Íslandi yrðu haldnar myndasýningar. (47) Hallseth og Fernander voru framarlega á sínu sviði og komu auga á tækifæri sem fóru framhjá öðrum, enda mættir alla leið til Íslands, á hjara veraldar, með sýningar sem áttu eftir að vekja mikla athygli. Auglýsing þeirra í Norðurlandi birtist sama dag og sýningarnar voru haldnar. Enn er á huldu af hverju þeir hófu leika á Akureyri og engar vísbendingar um komu þeirra til landsins er að finna nema á sjálfum sýningardeginum. Í stuttri umfjöllun blaðsins um auglýsinguna er þó talað um ferðir þeirra til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og að samkvæmt umfjöllun um þá í þarlendum dagblöðum megi mikils vænta af sýningunum. Samkvæmt sömu heimildum höfðu sýningargestir á Norðurlöndunum verið á einu máli um gæði og skemmtanagildi sýninganna sem þeir stóðu fyrir.

Samkvæmt umfjöllun Norðurlands voru sýningar skipulagðar í nokkra daga, eða þangað til strandskipið Skálholt færi frá Akureyri. (48) Svo fór að fyrstu kvikmyndasýningar á Íslandi fóru fram í Góðtemplarahúsinu á Akureyri laugardaginn 27. júní klukkan 20:00. Gríðarlegur áhugi var fyrir sýningunum og afar vel látið af þeim, en í Norðurlandi viku síðar segir um sýningarnar:

Þær urðu ekki nein vonbrigði. Þeir herrar Fernander og Hallseth urðu að sýna myndirnar þrisvar á sunnudaginn og tvisvar á mánudag og þriðjudag. Með öðru móti ekki unt að fullnægja eftirspurninni. Þrátt fyrir loftleysi og feikihita – þar sem loka varð gluggum og dyrum til þess að gera aldimt inni – sat þar húsfyllir í hvert sinn og skemti sér hið bezta. Ýmsir tóku það jafnvel fram, að betur hefðu þeir ekki skemt sér á æfi sinni. (49)

Eftir fjóra sýningardaga á Akureyri lá leið Fernander og Hallseths til Ísafjarðar með strandskipinu Skálholti og lentu þeir þar 7. júlí. Ekki er með öllu ljóst hversu margar sýningar þeir héldu á Ísafirði en miðað við umfjöllun Vestra og auglýsingar Fernander og Hallseths í blaðinu þá fóru þær líklega fram dagana 9. – 19. júlí með hléum 17. og 18. júlí og létu áhorfendur ákaflega vel af þeim. (50) Vegna mikillar eftirspurnar var þeim kleift að skipta dagskránni í tvennt, en eftir nokkra sýningardaga var auglýst að í hönd færi ,,nýtt áhrifamikið programm“ þar sem meðal annars Ferðin til tunglsins (fr. Le Voyage dans la Lune, Méliès, 1902) yrði á dagskrá. (51)

Eins og nefnt var hér að framan þá voru Hallseth og Fernander lunknir í viðskiptum og við að nýta sér þau tækifæri sem buðust, og með því að skipta prógramminu í tvennt tókst þeim líklega að selja sama fólkinu tvo miða í stað eins, ef prógrammið hefði verið óskipt. Það er áhugavert að skoða auglýsingar félaganna en þar tilkynna þeir að ,,Í fyrsta sinn á Íslandi“ verði ,,ágætar sýningar“ með ,,Royal Biokosmograph Edisons“ haldnar. (52) Nafn sýningarvélarinnar hljómar eins og hún sé stórmerkileg, en ekki hefur tekist að finna nokkrar heimildir fyrir því að það hafi verið til tæki með þessu nafni og því helsta ályktunin sem hægt er að draga af nafninu sú að Hallseth og Fernander hafi einfaldlega búið til nafn sem hljómaði spennandi og vísaði til Edison til að tryggja sig enda var Edison heimsþekktur uppfinningamaður kvikmynda á þessum tíma. Í Noregi og Svíþjóð auglýstu þeir sýningarnar á svipaðan máta og á Íslandi. Fyrsta árið var það „ameríski kinematografinn“ en síðar „biokosmografinn“ og þá bættu þeir við „Kinematografernes konge“ eða „konungur kinematógrafanna“ til að kynda undir áhuga á sýningunum. (53) En hvort sem tæki með þessu nafni hafi verið til eða ekki þá er víst að það virkaði vel og áhorfendur voru agndofa yfir þessari nýjung sem þeir áttu kost á að upplifa af eigin raun.

Samkvæmt Eggerti Þór héldu félagarnir til Reykjavíkur eftir sýningarlotuna á Ísafirði og hófu þar sýningar einum mánuði eftir að leikar höfðu hafist á Akureyri eða 27. júlí 1903 í Iðnaðarmannahúsinu (Iðnó). (54) Aftur var þeim afar vel tekið og mikill áhugi á sýningunum, svo mikill að fjölga þurfti sýningum líkt og á Akureyri og á Ísafirði. Sýningarnar voru auglýstar í fjölmiðlum borgarinnar en í stað þess að nota ,,Í fyrsta sinn á Íslandi“ líkt og á Akureyri og Ísafirði þá var fyrirsögnin ,,Í fyrsta sinni í Reykjavík“ og undir því stóð ekki aðeins ,,Royal Biokosmograph Edisons“ heldur hafði slagorðinu ,,lifandi ljósmyndir“ verið bætt aftan við nafn búnaðarins, líkt og til útskýringar og einföldunar. (55)

Prógramm Hallseths og Fernanders samanstóð af myndum sem þeir höfðu sankað að sér og meðal annars pantað frá Bretlandi, enda mikið um myndir tengdum Bretlandseyjum á sýningum þeirra á Íslandi. Samkvæmt auglýsingum og fréttum af sýningunum voru eftirfarandi myndir á dagskránni og birtast þær hér með þeim titlum sem þær voru kynntar með í fjölmiðlum enda erfitt að finna titlana á upprunalega málinu: Ferðin til tunglsins, Myndir frá dýragarðinum í Lundúnum, Myndir frá Búa-stríðinu, Krýning Játvarðar VII konungs, Skemmtileg saga, Prófessorinn og simpansinn, Stórkostlegar töfraheimssýningar úr 1001 nótt, Mefistofeles í klaustrinu, Oscar II hleypt af stokkunum í Glasgow, Töfrasverðið, Snjókastið og Baðið í Mílanó ásamt mörgum fleiri sem ekki var minnst sérstaklega á. Þá voru skuggamyndir einnig með í för, en með þeim gátu Hallseth og Fernander sýnt landslagsmyndir frá Noregi og myndir af merkum mönnum, meðal annars af skáldunum Matthíasi Jochumssyni, Björnsterne Björnson og Henrik Ibsen ásamt Óskari Svíakonungi. (56) Sýningarnar höfðuðu strax sterklega til Íslendinga og af umfjöllunum fjölmiðla að dæma voru það helst gamanmyndirnar sem náðu til fólks en um þær var skrifað í Fjallkonuna: (57)

Virtust þær einna bezt skemta áhorfendunum, því að „Iðnó“ gnötraði af hlátri manna og klappi; enda var það ekki að ástæðulausu; þær voru allar hver annari betri. (58)

Vegna fjölda áskorana voru svo sérstakar barnasýningar haldnar, enda heilluðu lifandi myndirnar yngstu kynslóðina, ekki síður en fullorðna. (59) Eggert Þór fer yfir viðbrögð Íslendinga við heimsókn tvímenninganna og minnist sérstaklega á umfjöllun í Ingólfi þar sem kvartað var yfir því að myndefnið væri farið að láta sjá á. (60) Í umfjölluninni í Ingólfi var ritað:

Margar af mindum þessum eru góðar t. d. mindirnar frá díragarðinum í Lundúnum og Búastríðinu, en sumar þeirra eru aftur slæmar. Vil eg þar geta mindar af járnbraut, við hana vantar öll hljóð, vagnskrölt og blástur, auk þess er hún gömul og farin að gulna. (61)

Þrátt fyrir þessar umkvartanir um gulnun og skort á hljóðsetningu, sem verður að teljast lúxusvandamál í fyrstu atrennu kvikmyndasýninga á landinu, voru viðbrögðin við sýningunum annars einróma jákvæð. Í umfjöllun blaðamanns Vestra á Ísafirði voru Hallseth og Fernander spurðir hvort áætlanir væru uppi um kvikmyndatökur á Íslandi og hvort það yrði þá sýnt í öðrum löndum í framhaldinu ásamt fyrirlestrum:

Þegar þeir Fernander og Hallseth koma heim, ætla þeir að sýna myndir frá Íslandi og halda fyrirlestra um Ísland og ferðir sínar hjer. Láta þeir mikið vel yfir ferðinni og má því gera ráð fyrir að þeir beri Íslendingum vel söguna. (62)

Ekkert hefur spurst til þessara mynda. Eggert Þór ræðir upptökurnar með hliðsjón af viðtalsbútnum hér að ofan, en meira er ekki vitað, á þær er ekki minnst í dagskrám á síðari ferðalögum Hallseths og Fernanders um Norðurlöndin og enginn annar blaðamaður minnist á upptökur á þeirra vegum. (63) Það bendir því allt til þess að þeir hafi ekki tekið upp myndefni á Íslandi á meðan dvöl þeirra stóð. (64)

Hallseth og Fernander luku ferð sinni um Ísland í Reykjavík og yfirgáfu landið með póstgufuskipinu Ceres 9. ágúst. Ekki er ljóst hversu margar sýningarnar í Reykjavík urðu, en mánudaginn 3. ágúst var sýning á dagskrá sem var líklega sú síðasta í ferðinni. (65) Undir lok ferðalags þeirra 11. ágúst 1903 birtist stutt tilkynning í Fjallkonunni, en hún hljóðar svo:

Nokkrir menn hér í bænum hafa myndað félag með sér og keypt allar myndir þær og áhöld, sem þeir félagar Fernander & Hallseth voru með. (66)

Það verður því að teljast líklegt að Hallseth og Fernander hafi ferðast án sýningarvélarinnar aftur heim og án einhverra þeirra mynda sem þeir komu með. Ekkert er minnst á þessi kaup í öðrum miðlum og hvergi kemur fram hverjir stóðu að þeim, en hins vegar var Þjóðminningardagurinn árið 1903 haldinn hátíðlegur þann 6. september í Keflavík og þar voru lifandi myndir hluti af dagskránni. Um sýninguna er ekki farið fögrum orðum en myndirnar voru sagðar hafa sést illa og verið ýmist á hlið eða á hvolfi, en gestir kenndu vankunnáttu aðstandenda um hvernig fór. (67) Þetta bendir til þess að myndasýningin í Keflavík hafi farið fram með vél Hallseths og Fernanders, en að kaupendur vélarinnar hafi ekki haft nokkra kunnáttu til að nota hana og því fór sem fór.  Þá vitnar Eggert Þór í svipaða reynslu áhorfanda undir lok september 1903 sem sagði frá hálfum myndum íslenskra sýningarmanna ýmist á hlið eða á hvolfi. (68) Samkvæmt grein Hjálmtýs Heiðdals í Lesbók Morgunblaðsins ,,Skemmtanir fyrir fólkið. Kvikmyndin 100 ára“ stofnaði Ólafur Þ. Johnson fyrsta íslenska kvikmyndafélagið O. Johnson & co. árið 1903 og fór einmitt illa á fyrstu sýningum þeirra. Það verður því að teljast afar líklegt að félagið hafi keypt tækin af Hallseth og Fernander og staðið fyrir sýningunni misheppnuðu í Keflavík tæpum mánuði síðar. (69)

Hallseth og Fernander héldu áfram að ferðast um Norðurlöndin með kvikmyndasýningar sínar og þrátt fyrir að ferð þeirra til Íslands hafi gengið vel, í hið minnsta í miðasölu, þá sáu þeir sér ekki fært um að koma aftur til landsins og héldu sig við Noreg, Svíþjóð, Finnland og Danmörku áður en þeir settust að í Finnlandi og settu á laggirnar kvikmyndahús og framleiðslufyrirtæki. Margar kvikmyndir eru enn til eftir þá félaga, en því miður engar sem vitað er um frá Íslandi.

 

Íslendingar taka við keflinu

Eins og áður segir hafði Ólafur Þ. Johnson, sonur Þorláks Ó. Johnson, kynnst kvikmyndamiðlinum í Danmörku árið 1898. Ásamt Magnúsi Ólafssyni ljósmyndara og öðrum stofnaði hann fyrsta kvikmyndafélag Íslands árið 1903, líklega með kaupum á búnaði Hallseths og Fernanders. Þrátt fyrir að fyrstu sýningarnar hafi ekki farið fram sem skyldi þá létu þeir ekki deigan síga. Þann 8. október 1904 auglýstu þeir tvær sýningar sem fara áttu fram í Bárubúð undir nafninu Ól. Johnson og co. (70) Umfjöllun um þær birtist í Reykjavík 14. október og er þar minnst á að á sýningum þeirra hafi sést nýjar myndir, ólíkar þeim sem sýndar voru ári fyrr og að fáeinar af þeim hafi verið íslenskar, meðal annars af þvottastúlkum í laugunum og af fiskþvotti. (71) Með þessum sýningum í Bárubúð fengu Íslendingar að sjá lifandi myndir af eigin landi í fyrsta sinn. Eggert Þór talar um þessar myndasýningar sem ákaflega vinsælar meðal almennings, enda myndefni af fjölbreyttu tagi reglulega flutt inn og þar á meðal myndir sérstaklega fyrir börn. (72)

Félag Ólafs hélt áfram reglulegum sýningum í Bárubúð við jákvæðar undirtektir og breytti um nafn árið 1906 og kallaðist upp frá því Íslenzkt lifandi myndafélag. Félagið stóð fyrir tökum á nokkrum lifandi myndum á Íslandi og var því meira að segja ætluð meiri framtakssemi en rétt getur talist, en þann 28. nóvember 1906 fjallaði Lögrétta um mynd sem félagið sýndi í Bárubúð þar sem Jón nokkur Jensson reynir að standa í þrifum en sést ,,detta hverja byltuna á fætur annari“ til þess eins að rísa upp ,,úfinn og sár“ og detta svo aftur. (73) Ef þetta hefði reynst satt væri um að ræða fyrstu leiknu íslensku myndina. En tveimur dögum síðar, eða 30. nóvember, birti Fjallkonan yfirlýsingu frá Íslenzku lifandi myndafélagi undir yfirskriftinni ,,Ranghermi í Lögréttu“ og er yfirlýsingin vegna ,,gremju og hneykslis“ sem umfjöllun Lögréttu hafði valdið í bænum með umfjöllun sinni um myndasýningu félagsins:

Að gefnu tilefni lýsum vér því hér með yfir, að vér höfum ekki sýnt neinar lifandi myndir úr Reykjavík nema fiskþvott við Sjávarborg. Þar af leiðandi er það tilhæfulaust að vér höfum sýnt lifandi mynd af nokkurum Jóni Jenssyni, eins og getið er um í Lögréttu í gær. (74)

Í næsta tölublaði Lögréttu birtist svo leiðrétting þar sem málið var sagt á misskilningi byggt og að um erlendan leikara hafi verið að ræða í umræddri mynd. (75)

Þrátt fyrir framtakssemi Íslendinga við kvikmyndasýningar voru heimsóknir erlendra aðila ekki úr sögunni. Árið 1905 var t.d. minnst á heimsókn Norðmanns frá Flekkebjærg til Akureyrar og látið vel af kvikmyndasýningum hans. (76) Annar Norðmaður sem Eggert minnist á í sinni grein, C. Köpke, kom til Reykjavíkur ári síðar á vegum Nordisk Biograf co. og sýndi myndir í Iðnó, áður en hann ætlaði til Seyðisfjarðar að festa komu sæsímans á filmu. (77) Af þeim upptökum hefur ekkert spurst, hvorki var minnst á að hann hafi verið að mynda á Seyðisfirði í fréttum af sæsímanum né finnast þessar myndir auglýstar í norskum dagblöðum frá þessum tíma. (78)

Sumarið 1906 sendi danski kaupmaðurinn Frederik Warburg hingað til lands kvikmyndatökumanninn og trésmiðinn Alfred Lind til að koma nýju kvikmyndahúsi á fót og sýningarvélunum af stað. Bakhjarl Reykjavíkur Biograftheater, Frederik Warburg, var danskur kaupmaður en hann hafði sérstaklega sterka tengingu við Ísland. Frá því að hann var unglingur hafði hann unnið fyrir verslunina Thor. E. Tulinius og co. sem Íslendingurinn og stórkaupmaðurinn Þórarinn Tulinius stofnaði. (79) Við stofnun Reykjavíkur Biograftheater var Warburg orðinn verslunarfélagi í fyrirtækinu og í gegnum þessi sterku tengsl við Ísland var engin tilviljun að Reykjavík yrði fyrir valinu fyrir stofnun kvikmyndahúss.

Lind fann húsnæði við Aðalstræti 8 í Fjalakettinum, sama sal og hafði hýst Breiðfjörðsleikhúsið fram að því. (80) Huga þurfti að salnum og breyta og til þess réði Lind til sín ungan Dana, Peter Petersen, til að bólstra sæti. Petersen hafði komið til Íslands árið áður til að vinna á ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar en hætti þar vegna launamála. Þegar Lind komst að því að Petersen hafði reynslu af ljósmyndum var hann ráðinn sem sýningarstjóri og ári síðar, þegar Lind þurfti frá að hverfa, var Petersen settur forstjóri bíósins. (81) Lind hafði augljóslega góðan bakhjarl í Warburg og nægilegt fé til að leigja salinn, breyta honum og ráða starfskraft án þess að vera með nokkrar tekjur. Þá vissi hann hvernig beita átti auglýsingum til að skapa eftirvæntingu. Í rúmar þrjár vikur fyrir opnun kvikmyndahússins birtust auglýsingar í dagblöðum um að Reykjavíkur Biograftheater myndi hefja sýningar eftir að búið væri að endurbæta húsakynnin. (82) Þann 2. nóvember 1906 hóf svo fyrsta kvikmyndahús borgarinnar starfsemi með spennandi prógrammi, meðal annars Þingmannaförinni (Islands Altings besøg i København, Peter Elfelt, 1906) þar sem áhorfendur gátu gert sér að leik að þekkja íslenska þingmenn í heimsókn þeirra til Fredensborgar. (83) Í auglýsingu kvikmyndahússins daginn eftir opnunarkvöldið var því haldið fram að ,,húsfyllir [væri] við hverja sýningu“ sem stenst væntanlega þær sannleikskröfur sem gera má til auglýsinga, en er kannski ekkert sérstaklega tilkomumikið eftir eina sýningu. Yfirlýsingin gefur skýra mynd af ágengum áætlunum aðstandenda bíósins að vinna sér stöðu á íslenska markaðinum, nokkuð sem enginn hafði gert áður. Það tókst og gott betur en það og kvikmyndahúsamenning varð til í Reykjavík. Hið óþjála nafn kvikmyndahússins, Reykjavíkur Biograftheater, varð fljótlega stytt í daglegu máli niður í ,,bíó“ sem hefur síðan haldist allar götur síðan sem almennt orð yfir kvikmyndahús.

Alfred Lind kom til landsins með upptökuvél og hóf fljótlega að taka myndir af Íslandi með aðstoð Peters Petersen. (84) Aðeins þremur vikum eftir að bíóið opnaði voru sýningar auglýstar af ,,Slökkvitóla” æfingu. (85) En þetta er jafnframt elsta varðveitta íslenska kvikmyndin og sýnir frá æfingu slökkviliðsmanna í Reykjavík og þeim mannfjölda sem fylgdist með henni. Myndin hefur einfalda frásögn þar sem hún hefst á því að haldið er á æfinguna, tækin sótt og æfingin skipulögð. Þá gengur mannskari með upp Bankastrætið, og það er ljóst að áhugi viðstaddra er ekki síst á kvikmyndavélinni, og margir stoppa til að horfa á þetta sérstaka tæki sem starir svo til baka, eða veifa til þess. Kvikmyndavélin er því engan veginn ósýnilegur skrásetjari, heldur miðpunktur athyglinnar sem fólk tekur eftir og á í samskiptum við. Æfingin sjálf hefst á því að tveir menn sprauta úr slöngu áður en klippt er yfir á bununa, svo er stigi prófaður og í kjölfarið haldið aftur niður Bankastrætið á hlaupum. Það er mögulegt að verið sé að líkja eftir neyðartilfelli því í næsta skoti er verið að dæla og sprauta úr slöngum og augljóst að mannskarinn heldur sig á tilteknu svæði fyrir utan æfinguna. Þetta er síðasta skot myndarinnar og má því segja að enginn endir sé í raun á æfingunni innan myndarinnar. Björn Ægir Norðfjörð hefur fjallað um myndina og tengir hana við raunmyndir (e. actualities) eins og þær sem Lumière-bræður höfðu gert við upphaf kvikmyndagerðar. (86) Björn lýsir kvikmyndastílnum sem skrásetningarlegum frekar en að reynt sé að setja æfinguna í ákveðið samhengi og sé því ekki mikið framlag til kvikmyndalistarinnar, en þeim mun mikilvægara í samhengi íslenskrar kvikmyndasögu. (87) Lind og Petersen tóku einnig upp aðrar myndir af bæjarlífinu, en þær eru allar glataðar. (88)

Með Þrjá Dani, Warburg, Lind og Petersen í brúnni gátu Ólafur Þ. Johnson og félagar hans í Íslenzku lifandi myndafélagi gert út á þjóðerni í sínum auglýsingum og reynt að skapa tortryggni í garð hins nýstofnaða bíós. (89) Það gerðu þeir einmitt í auglýsingu í október árið 1906, hálfum mánuði fyrir fyrstu sýningu Reykjavíkur Biograftheater. Í auglýsingunni sem bar yfirskriftina ,,Samkeppnin lifi!“ var ritað ,,allir hluthafar félagsins eru Íslendingar, þar af leiðandi: Engir peningar út úr landinu!“ (90) Íslenzkt lifandi myndafélag hætti starfsemi eftir bruna snemma árs 1907 og seldi tækin til Vilhelms Knudsen, kaupmanns á Akureyri. (91) Reykjavíkur Biograftheater varð aftur á móti ómissandi hluti af menningarlífi borgarinnar í tæp 75 ár.

 

Ný bíó reyna fyrir sér

Þrátt fyrir sterka stöðu Reykjavíkur Biograftheater í borginni reyndu nokkur félög að efna til samkeppni og ræðir Eggert nokkur þeirra í grein sinni. Þann 27. júlí 1907 hóf The Scottish and American lifandi mynda félag sýningar í Bárubúð. (92) Samkvæmt auglýsingu í Hugin átti almenningi að gefast kostur á því að sjá fleiri myndir og betur sýndar, enda vanur Englendingur við stjórnvölinn á sýningum. Fyrir auglýsingunni var skráður Christinn B. Eyjólfsson ljósmyndari og The Scottish and American animated picture company, mögulega uppdiktað fyrirtæki til að gefa sýningunum fagmannlegan blæ. (93) Ekkert spyrst síðan frekar til sýninganna og því líklegt að þær hafi ekki verið langlífar.

Eggert ræðir sérstaklega Alþjóðaleikhús Reykjavíkur, sem hóf sýningar þann 29. október 1909 í Bárubúð. Það var hluti af norsku kvikmyndafélagi, en íslenskur kaupmaður, Jón Guðmundsson, veitti kvikmyndahúsinu forstöðu hér á landi. (94) Þrátt fyrir húsfylli á fyrstu sýningunum og almennt jákvæðar viðtökur í blöðunum virðist reksturinn ekki hafa gengið sem skyldi, en síðustu fregnir af því eru frá 11. desember 1909 þegar miðar á sýningar fást gefins fyrir hverja krónu sem keypt er fyrir í vefnaðarvörudeild verslunar Jóns Þórðarsonar. (95) Eftir þessa tilkynningu virðist sem sýningarnar hafi lagst af fyrir fullt og allt.

Það virtist bölvanlega erfitt að koma reglulegum kvikmyndasýningum á legg í Bárubúð. Reynslunni ríkari snéri því Ólafur Þ. Johnson aftur og nú með Pétri Brynjólfssyni ljósmyndara, Sveini Björnssyni yfirdómslögmanni (og tilvonandi fyrsta forseta lýðveldisins), Friðriki og Sturlu Jónssonum og Carli Sæmundssyni með kvikmyndahús í austurhluta Hótels Íslands. (96) Þegar Peter Petersen í Bíói (Bíópetersen) frétti af þessum ráðagerðum vildi hann ekki láta í minnipokann fyrir samkeppninni og hóf þegar endurbætur á salarkynnum sínum sem voru farin að láta á sjá. Nýtt og endurbætt Bíó opnaði rétt rúmri viku áður en sýningar áttu að hefjast í hinu nýja bíói. Meðal endurbóta var hallandi salur, betri sæti og legubekkir í anddyrinu þar sem menn gátu lagt sig ef löng bið var í næstu sýningu. (97) Nýja bíó var nafnið á kvikmyndahúsi Ólafs og félaga og í kjölfarið var farið að kalla Reykjavíkur Biograftheater ,,Gamla bíó“ sem festist við það og í raun tóku stjórnendur þess nafninu fegins hendi og byrjuðu fljótlega að auglýsa undir því nafni. (98) Nýja bíó hóf sýningar þann 29. júní 1912 og var fyrsti forstjóri þess fyrrum yfirmaður Bíópetersens og ástæða þess að hann kom til Íslands árið 1905, Pétur Brynjólfsson, ljósmyndari. Nýja bíó og Gamla bíó héldu bæði velli enda Reykjavík ört vaxandi borg og fór svo að þetta voru einu tvö kvikmyndahús borgarinnar fram til seinna stríðs þegar Tjarnarbíó opnaði sem öflug fjáröflunarleið fyrir Háskóla Íslands.

 

Lokaorð

Saga kvikmynda á Íslandi til stofnunar Nýja bíós er ekki stórbrotin saga mikilla afreka og uppfinninga, en þetta er mikilvægur grundvöllur fyrir kvikmyndamenningu okkar og það er mikilvægt að skilja hvernig kvikmyndasaga Íslendinga fléttast inn í kvikmyndasögu Evrópu á þó eins margslunginn máta og ég hef vonandi náð að lýsa í þessari grein. Skemmtanir á hjara veraldar voru af skornum skammti og afar sjaldgæft að skemmtikraftar á heimsmælikvarða létu sjá sig. Því var kvikmyndamiðillinn himnasending fyrir þjóð sem þráir ekkert meira en að vera hluti af hinu stærra samhengi. Með landtöku kvikmynda hafði ósk hins bjartsýna blaðamanns Austra árið 1891 ræst, þar sem hann óskaði eftir því að teknir yrðu upp hæfileikaríkustu skemmtikraftar heims í fallegustu leikhúsum álfunnar og þeir fluttir á filmu norður á jaðar hins byggilega heims þar sem þeir gætu hlýjað áhorfendum líkt og þeir væru viðstaddir sýninguna í eigin persónu. (99)

 

Tilvísanir:

1. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda: Af kvikmyndum á Íslandi til 1930“, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Forlagið og art.is, 1999, bls. 803-831.

2. Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit, ritstj. Erlendur Sveinsson, Reykjavík: Gamla bíó, Nýja bíó, Kvikmyndasafn Íslands, 1981, bls. 15-17.

3. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 803-831.

4. Töfralampinn byggði á þeirri virkni að varpa ljósi í gegnum linsu til að framkalla mynd á stærri fleti, með því að lýsa í gegnum slæðu með mynd var hægt að sýna myndina upp á vegg í stækkaðri mynd. Nánar má lesa um sögu og virkni töfralampans í: H. Mark Gosser, ,,Kircher and the Lanterna Magica – A Re-examination“, Journal of the Society of Motion Picture and Television Engineers, október/1981, bls. 972-978 og Laurent Mannoni, The Great Art of Light and Shadow: Archaeology of the Cinema, Exeter: University of Exeter Press, 2000.

5. Charles Musser, The Emergence of Cinema: The American Screen to 1907, New York: Charles Scribner´s Sons, 1990, bls. 20. Inga Lára Baldvisdóttir, Sigfús Eymundsson: Myndasmiður, frumkvöðull íslenskrar ljósmyndunar, Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2013, bls. 35.

6. Inga Lára Baldvinsdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 35. Minnst er á skuggamyndasýningar nokkru fyrr í auglýsingu fyrir sögulegan fyrirlestur í ,,gamla veitingahúsi bæjarins“ árið 1853. En þar er sagt: ,,að hlýða á [fyrirlesturinn] kostar eins og að horfa á skuggamyndir, 4skk. fyrir hvern mann.“ Svo virðist sem sú skemmtun að horfa á skuggamyndir hafi þegar verið þekkt í Reykjavík og að slíkar sýningar hafi farið fram gegn greiðslu. Ekki hafa aðrar heimildir fundist fyrir tilvist eða eðli sýninganna og því ekki víst hvort um skyggnusýningar er að ræða eða einfaldar skuggamyndir. Ingólfur, 12. 02. 1853, bls. 12.

7. Víkverji, 28. 02. 1874, bls. 34.

8. Inga Lára Baldvinsdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 35. Það sem skapar ruglinginn er að sama orð er notað yfir skuggamyndir með ljósi og handabrögðum eða úrklippum sem varpa skuggamyndum á vegg og skuggamyndum þar sem töfralampi er notaður til að varpa skyggnumyndum upp á vegg.

9. Sama rit, bls. 35.

10. ,,Fræðandi og skemmtandi“, Þjóðólfur, 15. 11. 1884, bls. 176. Inga Lára Baldvinsdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 35.

11. Inga Lára Baldvisdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 35.

12. Sama rit, bls. 35-36.

13. Gestur Pálsson, ,,Skuggamyndir“, Suðri, 22. 11. 1884, bls. 115. Inga Lára Baldvinsdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 35-36.

14. Inga Lára Baldvinsdóttir, Sigfús Eymundsson, bls. 36.

15. Gestur Pálsson, ,,Skuggamyndir“, bls. 115.

16. Svipaður málatilbúnaður átti eftir að reynast áberandi rétt um 30 árum síðar og beindist þá að kvikmyndunum sjálfum, frekar en skuggasýningum. Aftur var tilefnið að erfiðleikar herjuðu á landann og verið var að hvetja fólk til að spara, og í augum velsæmisvarða var siðspillandi afþreying það síðasta sem verkalýðurinn þurfti á að halda, eða átti að verja sínum fáu aurum í að njóta. Skarphéðinn Guðmundsson tók saman og ræddi varnar– og gagnrýnisorðræðuna sem kvikmyndasýningar kveiktu í grein sinni ,,Ekki fleiri bíó: Afstaða yfirvalda til kvikmyndasýninga á fyrri helmingi aldarinnar.“ Í grein sinni ræðir Skarphéðinn meðal annars skrif Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests í Morgunblaðið árið 1915 sem eru um margt lík skrifum ritstjóra Suðra. Ólafur skrifar meðal annars að ef góðgerðarfélög fái ekki leyfi til að halda tombólu í borginni finnist honum hart að aðrir ,,skuli hafa leyfi til að stofna til allskonar ,,húmbúgs“-sýninga einungis til að plokka aurana úr vösum skemtanafýkinna ráðleysingja“ Skarphéðinn segir í grein sinni að slíkri gagnrýni á ,,eyðslusemi” borgaranna hafi verið svarað fullum hálsi og ,,á það bent að fólki ætti að vera fullkomlega í sjálfsvald sett hvort það teldi sig hafa efni á að fara í leikhús eða bíó.“ Skarphéðinn Guðmundsson, ,,Ekki fleiri bíó: Afstaða yfirvalda til kvikmyndasýninga á fyrri helmingi aldarinnar”, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Forlagið og art.is, 1999, bls. 838-851, hér bls. 840.

17. Ísafold, 16. 11. 1889, bls. 368.

18. Sama rit, bls. 368.

19. ,,Bandaríkin í Norður-Ameríku“, Ísafold, 13. 06. 1891, bls. 186-187, hér bls. 187.

20. Austri, 20. 12. 1891, bls. 54.

21. Hj. Sig., ,,Kinematograf“, Ísland, 04. 09. 1897, bls. 143.

22. Sama rit, bls. 143.

23. Hannes Þorsteinsson, ,,Ferðapistlar: Frá ritstjóra Þjóðólfs“, Þjóðólfur, 25. 09. 1896, bls. 178-180, hér bls. 180.

24. John Barnes, ,,Robert William Paul: British inventor, film producer“, Who´s Who of Victorian Cinema, ritstj. Stephen Herbert og Luke Mckernan, 2017, England, sótt 10. 02. 2019 af http://www.victorian-cinema.net/paul. David Bordwell og Kristin Thompson, Film History: An Introduction, önnur útgáfa, New York: McGraw-Hill, 2003, bls. 19. Af þessum myndum virðist aðeins Veðreiðarnar enn vera til á meðan myndirnar af siglingakeppninni á Thames ánni og brúðkaupi Hákonar prins af Noregi (síðar Hákon VII) og Maude prinsessu af Wales virðast glataðar.

25. The Morning Post, 26. 08. 1896, London, bls. 4,

26. Bordwell og Thompson, Film History: An Introduction, bls. 19.

27. Barnes, ,,Robert William Paul“.

28. Hjálmtýr Heiðdal, ,,Kvikmyndin 100 ára: Skemmtanir fyrir fólkið“, Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars, 1995, bls. 1.

29. Ivo Blom, ,,The first cameraman in Iceland: Travel film and travel literature“, Picture Perfect, ritstj. Laraine Porter og Bryony Dixon, Exeter: University of Exeter Press, 2007, bls. 68-81, hér bls. 69; Á þessum árum voru nokkur fyrirtæki starfandi í Bretlandi undir nafninu Gibbons & co., en ekkert þeirra virðist hafa komið nálægt kvikmyndagerð. Hins vegar var Walter Gibbons nokkuð víðtækur í skemmtanahaldi á Bretlandseyjum og átti og rak þónokkrar tónlistarhallir. Hann sýndi oft kvikmyndir á skemmtunum og stóð einnig í framleiðslu á kvikmyndum, meðal annars með því að senda menn í kvikmyndaleiðangra á fjarlægar slóðir, (sjá til dæmis: Barry Anthony, ,,Sir Walter Gibbons“, Who´s Who of Victorian Cinema, ritstj. Stephen Herbert og Luke Mckernan, 2017, England, sótt 15. 11. 2018 af http://www.victorian-cinema.net/paul). Hvort að Nöggerath hafi verið á vegum Gibbons á landinu er ekki víst en þann 29. ágúst 1901 birti Gibbons þó auglýsingu í The Stage þar sem leitað var eftir kvikmyndatökumönnum. The Stage, 22. árgangur, 29. 08. 1901, bls. 22. Aftur á móti birtust myndirnar sem Nöggerath tók á Íslandi í vörubæklingi Warwick fyrirtækisins árið 1902, sjá Blom, ,,The first cameraman in Iceland“, bls. 75, og ,,Nýjar myndasýningar“, Þjóðólfur, 20. 09. 1901, bls. 179.

30. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 818.

31. ,,Nýjar myndasýningar“, bls. 179.

32. Ivo Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator: The Recollections of Anton Nöggerath – Filming News and Non-fiction, 1897-1908“, Film History, 11. árgangur, nr. 3, ritstj. Gregory A. Waller, Bloomington: Indiana University Press, 1999, bls. 262-281, hér bls. 263.

33. Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator“, bls. 264.

34. Sérstakur flokkur slíkra mynda nefndist Íslandsmyndir, en Íris Ellenberger fer ítarlega í sögu þeirra og áhrif á íslenska menningu í bókinni Íslandskvikmyndir 1916-1966: Ímyndir, sjálfsmynd og vald. Samkvæmt Írisi var mikill áhugi erlendis á hinu framandi norðri og allt frá fyrstu varðveittu Íslandsmyndum sem finna má á Kvikmyndasafni Íslands frá árinu 1916 má sjá sömu eða svipaðar áherslur í framsetningu landsins. Samkvæmt Írisi voru veiðar, fiskvinnsla, hverir og nýting þeirra viðfangsefni sem finna má í flestum Íslandsmyndum allt frá upphafi þeirra til dagsins í dag og þetta voru einmitt sömu áherslur og Nöggerath var með í sínum upptökum af landi og þjóð. Þannig setti hann tóninn fyrir það sem koma skyldi í sýn erlendra áhorfenda á Íslandi og síðar áherslum í markaðssetningu á landinu og menningu þess. Íris Ellenberger, Íslandskvikmyndir 1916-1966: Ímyndir, sjálfsmynd og vald, Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2007, bls. 171. Einnig tengir Björn Ægir Norðfjörð myndir Nöggeraths við Íslandsmyndir í Björn Ægir Norðfjörð, ,,Íslensk kvikmyndagerð: þjóðlegar, þverþjóðlegar og loks alþjóðleg“, Frændafundur 8, ritstj. Turið Sigurðardóttir og María Garðarsdóttir, Þórshöfn: Fróðskapur, 2015, bls. 303-324.

35. Blom, ,,The First Cameraman in Iceland“, bls. 71.

36. Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator“, bls. 263.

37. Blom, ,,The First Cameraman in Iceland“, bls. 72-74.

38. Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator“, bls. 273-274.

39. Sama rit, bls. 274.

40. Blom, ,,The First Cameraman in Iceland“, bls. 75.

41. Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator“, bls. 272.

42. Sama rit, bls. 265.

43. Sama rit, bls. 266-267.

44. Sama rit, bls. 267.

45. Outi Hupaniittu, Biografi liiketoiminnan valtakausi: Toimijuus ja kilpailu suomalaisella elokuva-alalla 1900–1920-luvuilla, Annales ritröð Háskólans í Turku, Turku: Painosalama, 2013, bls. 452.

46. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 804.

47. Sama rit, bls. 803-804.  Norðurland, 27. 06. 1903, bls. 158.

48. ,,Myndasýningin“, Norðurland, 27. 06. 1903, bls. 159.

49. ,,Myndasýningarnar“, Norðurland, 04. 07. 1903, bls. 163.

50. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 803. ,,Myndasýningar“, Vestri, 11. 07. 1903, bls. 142-143, hér bls. 142. Vestri, 20. 07. 1903, bls. 147.

51. „Myndasýningar“, Vestri, 11. 07. 1903, bls. 142-143, hér bls. 143.

52. ,,Myndasýningin“, Norðurland, 27. 06. 1903, bls. 159.

53. Tidningen Kalmar, 131. tölublað, 25. 08. 1900, bls. 2. Frederiksstads tilskuer, 102. tölublað, 06. 05. 1902, bls. 3.

54. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 803.

55. Ingólfur, 26. 07. 1903, bls. 80.

56. ,,Myndasýningar“, Vestri, 11. 07. 1903, bls. 142-143, hér bls. 142. Spectator, ,,Myndasýning“, Fjallkonan, 28. 07. 1903, bls. 119.

57. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 803.

58. Fjallkonan, 28. 07. 1903, bls. 119, fengið úr Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 803.

59. Ísafold, 29. 07. 1903, bls. 192.

60. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 804.

61. P. Z., „Lifandi mindir“, Ingólfur, 02. 08. 1903, bls. 83.

62. Vestri, 11. 07. 1903, bls. 143.

63. Sjá til dæmis auglýsta dagskrá þeirra í Danmörku árið 1904: Vestjyllands social demokrat, 264. tölublað, 11. 11. 1904, bls. 3. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 818.

64. Bæði er þessi kenning afrakstur rannsóknarvinnu undirritaðs, en einnig veit sá fræðimaður, Outi Hupaniittu, sem þekkir störf Hallseths og Fernanders hvað best, ekki til þess að þeir hafi nokkurn tíma auglýst myndir frá Íslandi á sýningarferðum sínum eftir Íslandsheimsóknina. Þá kannast hún heldur ekki við að þeir hafi almennt tekið myndefni annars staðar upp. Vitnað er í doktorsritgerð hennar um fyrstu ár finnskra kvikmynda hér að ofan, en hún hefur rannsakað sýningarferðir félaganna ofan í kjölinn.

65. Ísafold, 01. 08. 1903, bls. 196.

66. Fjallkonan, 11. 08. 1903, bls. 128.

67. „Þjóðminningardagurinn í Keflavík“, Reykjavík, 10. 09. 1903, bls. 2.

68. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 804.

69. Hjálmtýr Heiðdal, ,,Skemmtanir fyrir fólkið“, bls. 2.

70. Ísafold, 08. 10. 1904, bls. 264.

71. Reykjavík, 14. 10. 1904, bls. 183-184, hér bls. 184.

72. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 804.

73. Lögrétta, 28. 11. 1906, bls. 219-220.

74. Fjallkonan, 63. tölublað, 30. 11. 1906, bls. 251.

75. Lögrétta, 56. tölublað, 05. 12. 1906, bls. 223. Áhugavert er þó að aðeins einn Jón Jensson lét á sér bera í íslensku samfélagi á þessum árum og var sá yfirdómari í Reykjavík og fyrrum alþingismaður og bæjarfulltrúi sem hafði blandað sér í heimastjórnarmálið og því mögulegt að með greininni hafi verið að gera grín að honum sem aðrir hafi síðan tekið óstinnt upp og mótmælt. ,,Jón Jensson“, Alþingismannatal: Æviágrip þingmanna frá 1845, sótt þann 29. 02. 2017 af http://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=308.

76. Norðurland, 26. 08. 1905, bls. 199.

77. Ísafold, 18. 08. 1906, bls. 214, og Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 804.

78. Á meðan hann var enn í Reykjavík sýndi Köpke mynd frá krýningu Hákonar konungs í Þrándheimi, sem er í raun ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Franz Anton Nöggerath yngri var einmitt viðstaddur þann viðburð og tók hann upp á vegum manns sem Nöggerath kallaði Herra Krause. Ekki er vitað hvort myndin sem sýnd var í Reykjavík hafi verið upptaka Nöggeraths, þó það geti ekki talist sérlega líklegt enda margir sem mynduðu krýninguna. Til frekara gamans má geta að þetta er sami Hákon og Hannes Þorsteinsson sá giftast Maude prinsessu af Wales á kvikmyndasýningu í London 10 tíu árum fyrr. Upptökur af viðburðinum hafa varðveist og má finna þær á YouTube undir: ,,Kronigen av kong Haakon VII av Norge for 106 aar siden“, á þessari slóð https://www.youtube.com/watch?v=US4vvUAVyQ0, sem og undir ,,Konigsferden“ á þessari slóð https://www.youtube.com/watch?v=M6IRIdBSWDk. Ísafold, 04. 08. 1906, bls. 200. Blom, ,,Chapters from the Life of a Camera Operator“, bls. 274-275.

79. Ísafold, 22. 11. 1913, bls. 268.

80. Ólafur Árnason, ,,1906-1981: Gamla bíó 75 ára“, Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit, ritstj. Erlendur Sveinsson, Reykjavík: Gamla Bíó, Nýja bíó, Kvikmyndasafn Íslands, 1981, bls. 19-21, bls. 19. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 806.

81. Erlendur Sveinsson, ,,100 ára fæðingarafmæli Bíópetersens, brautryðjanda í kvikmyndahúsarekstri og kvikmyndagerð á Íslandi“, Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit, ritstj. Erlendur Sveinsson, Reykjavík: Gamla bíó, Nýja bíó, Kvikmyndasafn Íslands, 1981, bls. 15-17, hér bls. 15-16.

82. Dagblaðið, 09. 10. 1906, bls. 1.

83. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 806.

84. Alfred Lind er enn ein tenging Íslands við kvikmyndaiðnað Evrópu, en hann hóf feril sinn í kvikmyndabransanum sem smiður áður en hann komst á bakvið vélina sem fréttamyndari á mörgum merkum atburðum í Danmörku og á hinum Norðurlöndunum. Hann komst á samning hjá kvikmyndaframleiðanda í Árhúsum árið 1909 og þá fóru hjólin að snúast í ferli hans og fékk Lind fjölmörg verkefni, meðal annars við að taka upp leiknar danskar myndir. Þegar hann fór að vekja athygli erlendis stofnaði hann eigið kvikmyndafyrirtæki og hóf einnig að taka að sér verkefni víðar, meðal annars í Þýskalandi og á Ítalíu. Eftir að hljóðið kom til sögunnar fataðist Lind flugið og náði sér í raun aldrei á strik aftur og fékk lítið sem ekkert að gera við gerð hljóðmynda. Kjarkur hans og þrautseigja skinu þó í gegn í áætlunum hans um að stofna til samevrópskrar framleiðslu á kvikmyndum til höfuðs stórmyndunum frá Ameríku – áætlun sem náði þó aldrei í gegn, enda langt á undan sinni samtíð. Lind var einn virkasti og virtasti kvikmyndagerðarmaður Dana á þögla skeiðinu en náði sér, eins og svo margir, aldrei á strik við gerð hljóðmynda. Jan Nielsen, A/S Filmfabriken Danmark – SRH/Filmfabriken Danmarks historie og produktion, Kaupmannahöfn: Multivers, 2003 og ,,Alfred Lind“, Det danske Filminstitute Database, sótt 20. febrúar 2019 af https://www.dfi.dk/viden-om-film/filmdatabasen/person/alfred-lind.

85. Ísafold, 24. 11. 1906, bls. 309.

86. Björn Ægir Norðfjörð, „Iceland in Living Pictures: A Meeting-Place of Cinema and Nation“, Studia Humanistyczne AGH, 10/2011, bls.169-183, hér bls. 170.

87. Björn Ægir Norðfjörð, „Iceland in Living Pictures“, bls. 171-172.

88. Erlendur Sveinsson, ,,Ísland í lifandi myndum: Fyrstu tveir áratugir aldarinnar í lifandi myndum“, Ný saga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson og Ragnheiður Mósesdóttir, 2. árgangur, Reykjavík: Sögufélag, 1988, bls. 88-94, hér bls. 89.

89. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 806.

90. Þjóðólfur, 19. 10. 1906, bls. 177.

91. Hjálmtýr Heiðdal, ,,Skemmtanir fyrir fólkið“, bls. 2.

92. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 807.

93. Huginn, 29. 07. 1907, bls. 4, og Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 807. Nafn félagsins var auglýst með þessari blöndu af íslensku og ensku og síðar í sömu auglýsingu aðeins á ensku, því er það sett fram á þennan máta hér.

94. Lögrétta, 03. 11. 1909, bls. 202. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 807.

95. Ísafold, 11. 12. 1909, bls. 327. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 807.

96. Erlendur Sveinsson, ,,NÝJA BÍÓ – á sjötugasta starfsári“, Kvikmyndir á Íslandi 75 ára – Afmælisrit, ritstj. Erlendur Sveinsson, Reykjavík: Gamla bíó, Nýja bíó, Kvikmyndasafn Íslands, 1981, bls. 7-9, hér bls. 7.

97. „Kvikmyndahúsin“, Reykjavík, 22. 06. 1912, bls. 99.

98. Reykjavík, 06. 07. 1912, bls. 105. Eggert Þór Bernharðsson, ,,Landnám lifandi mynda“, bls. 807.

99. Austri, 20. 12. 1891, bls. 54.