Popp og bíó

Poppkorn er órjúfanlegur hluti bíóferðar hjá mörgum. Sumir geta vart horft á kvikmyndir án þess að maula poppkorn á meðan. Guð blessi örbylgjupoppið. En hvaðan koma þessi sterku tengsl milli poppkorns og kvikmynda? Menn höfðu „poppað“ korn í árþúsund í N-Ameríku áður en orðið poppkorn varð til en þess er fyrst getið í orðabók frá því um miðja 19. öld. Um svipað leyti virðist poppkornið hafa farið að ryðja sér til rúms sem markaðsvara. Var þá farið að selja sykurhúðað popp og þá gjarnan í bland við hnetur

Poppkornið fór þó ekki að njóta teljandi vinsælda fyrr en undir lok 19. aldar. Átti fyrirtækið C. Cretors & Company stóran þátt í því. Fyrirtækið, sem staðsett var í Chicago, framleiddi árið 1893 fyrstu poppvélina. Sama ár fór fram heimssýning í Chicago þar sem bræðurnir Frederick og Louis Rueckheim seldu hnossgæti sem var sambland af poppkorni, hnetum og sírópi. Var það upphafið að fyrirtækinu Cracker Jack sem hóf að framleiða sírópshúðað poppkorn árið 1896, sem einhverjir vilja meina að hafi verið fyrsta „ruslfæðið.“ Íslenska stórskáldið Matthías Jochumsson var viðstaddur heimssýninguna í Chicago 1893, ætli hann hafi fengið sér smakk hjá bræðrunum? Orðið fyrsti Íslendingurinn til að gæða sér á poppkorni?

Það var þó ekki fyrr en á tímum kreppunnar miklu á fjórða áratugnum sem poppið og bíóin sameinuðust. Almenningur í Bandaríkjunum þurfti að neita sér um ýmsan munað á erfiðum tímum og jók það mjög vinsældir poppsins vegna þess hve ódýrt snarl það var. Bíóhúsin voru mikið sótt af Bandaríkjamönnum í kreppunni miklu enda um ódýra afþreyingu að ræða þar sem hægt var að gleyma erfiðleikum hversdagsins, um stundarsakir í það minnsta.

Örlögin voru svo loks ráðin árið 1938 þegar bíóeigandinn Glen W. Dickson setti upp poppvél í bíói sínu. Varð nýjungin samstundis gríðarlega vinsæl og fóru poppvélar fljótlega að sjást í bíóhúsum víða um Bandaríkin. Efasemdaraddir um ágæti poppkorns í bíósölum heyrðust í fyrstu en sumir töldu poppkornið aðskotahlut sem drægi athygli fólks frá bíósýningunni.

Við vinnslu greinarinnar var gerð óvísindaleg rannsókn á landnámi poppkornsins í bíóhúsum hérlendis. Í þeirri rannsókn var ekki komist lengra aftur í tímann en til ársins 1952. Í grein í Mánudagsblaðinu sagði þegar kvikmynd einni var lýst: „Þessi ást blossar upp í miðri mynd, svo að eftir það getur áhorfandinn rólega jóðlað á poppkorni sínu og beðið hins óumflýjanlega.“

Það var því, eins og oft vill verða í menningunni, að fátæktin hóf hið órjúfanlega samband bíósins og poppsins.

Björn Þór Björnsson tók saman