Frumkvöðullinn Þorgeir Þorgeirson

Á kvikmyndahátíðinni  IceDocs, sem haldin var á Akranesi í sumar, voru sýndar fjórar myndir eftir kvikmyndagerðarmanninn Þorgeir Þorgeirson. Myndirnar voru skannaðar af Kvikmyndasafni Íslands í hæstu mögulegu gæðum. Hallur Örn Árnason átti frumkvæðið að þessum lið hátíðarinnar og fékk hann Gunnar Tómas Kristófersson til að taka saman æviágrip Þorgeirs sem hann flutti á frumsýningu. Gunnar Tómas gaf safninu góðfúslegt leyfi til að birta hann hér.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Þorgeir Þorgeirson var einstakur, hann kom heim úr námi í kvikmyndagerð frá Tékkóslóvakíu árið 1962 í mjög erfiðan veruleika. Kvikmyndagerð á Íslandi hafði litla hefð og enga raunverulega atvinnumenn. Lítill tækjakostur var til í landinu, fáar myndir höfðu verið framleiddar og eftir nokkur blómleg ár á milli 1944 og 1957 var aftur komið frost í kvikmyndaframleiðslu þjóðarinnar. Þorgeir þurfti því eiginlega að finna upp hjólið, hann hafði menntað sig í kvikmyndagerð sem var fátítt og hann vildi starfa við gerð listrænna kvikmynda á Íslandi sem var enn fátíðara. Það þótti óðs manns æði að reyna að framleiða kvikmyndir fyrir fjöldann á Íslandi, hvað þá að ráðast í gerð tilraunakenndra heimildarmynda. En í þetta réðist Þorgeir. Og úr varð eitthvað einstakt.

Þorgeir var virkur í gerð sjónvarpsefnis, kvikmynda og annars efnis bæði á Íslandi og erlendis í tæpan áratug. Frá 1963 til 1972 var þetta aðalatvinna Þorgeirs og, eftir því sem næst verður komist, var hann fyrstur Íslendinga til að hafa kvikmyndagerð að aðalatvinnu. Aðrir unnu önnur störf meðfram eigin kvikmyndagerð.

Þorgeir fæddist árið 1933, hann ólst upp á Siglufirði, í Kópavogi og á Austurlandi áður en hann flutti til Reykjavíkur og útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953. Þá hélt hann til náms í Vínarborg þar sem hann lagði stund á sálfræði og listasögu. Stuttri dvöl á Spáni fylgdi svo nám í sjónvarpsleikstjórn í París 1955-1956 og kvikmyndaleikstjórn við listaakademíuna í Prag árin 1959-1962.

Eftir námið í listaakademíunni í Prag og eftir að hafa séð mikið eftir fremstu leikstjóra heims kom Þorgeir innblásinn heim. Það verður fljótt ljóst þegar myndir hans eru skoðaðar að Þorgeir hugsaði öðruvísi um kvikmyndir en forverar hans á Íslandi, hann veltir fyrir sér sjónarhorni, lýsingu, samsetningum, framvindu og merkingu og það má glögglega sjá á myndum hans. Fyrsta verkefni Þorgeirs var Hitaveituævintýri (1963), mynd sem hann gerði fyrir Hitaveitu Reykjavíkur og var hvort tveggja í senn kynning á virkni hitaveitunnar og ævintýramynd um krakka sem týnast og þurfa að finna leiðina heim. Í stuttu máli má segja að myndin marki tímamót í íslenskri kvikmyndagerð, því traust myndmál, fallegar tökur, óræð og ævintýraleg uppbygging á skotum og myndskeiðum hafði ekki sést áður á sambærilegan máta. Þorgeir fékk þó ekki fullt listrænt frelsi við gerð mynda sinna, því hann þurfti að leita til stofnana og fyrirtækja í leit að fjármagni. Enginn Kvikmyndasjóður var til og ráðamenn litu nánast einvörðungu til landkynningargildis kvikmynda ef koma átti til greina að styrkja þær úr ríkissjóði. Róður, Að Byggja og aðrar myndir Þorgeirs, fyrir utan Mann og verksmiðju, gerði hann fyrir utanaðkomandi aðila og fékk því ekki listrænt frelsi við gerð þeirra. Auðvitað má sjá það á myndunum, en aftur á móti má einnig sjá handbragð listamanns með eitthvað meira að leiðarljósi en aðeins efnislegt innihald.

Þorgeir vildi ekki aðeins einblína á ,,bestu” útgáfu þess sem hann átti að kvikmynda, hann vildi raunsæi og reyna að fanga hina sönnu áferð lífsins í sínum myndum, hvort sem það var umfjöllunarefninu (og peningaöflunum þar fyrir aftan) til framdráttar eða ekki. Hann var af kynslóð sem sá heiminn í beittu ljósi og vildi kryfja, gagnrýna og skoða það sem fyrir var. Þessa listrænu sýn Þorgeirs kunnu ekki allir að meta og eftir að hann gerði Róður sem átti að vera fyrsta myndin í stuttmyndaseríu um sjávarútveg Íslendinga taldi hann fullreynt að gera kvikmyndir á Íslandi. Myndin sýnir hversdagsleikann við líf sjómannsins. Hún er tekin um borð í gömlum bát, einn í áhöfninni var fyrrum fangi og ekkert við myndina fegrar líf sjómannsins. Myndin er raunsæ og sýnir oft harðneskjulegt en þó mannlegt lífið um borð. Á sama tíma er hún ljóðræn og óræð og gefur tilfinninguna fyrir endaleysinu í veltingnum um borð.

Í kjölfar frumsýningar myndarinnar brást ráðuneytið illa við enda vildi það sjá sparifataútgáfu af útgerðinni, flottustu skipin, nýmáluð og aðeins heiðursborgara um borð. Þorgeir gat engan veginn samþykkt þessa sýn, enda snýst útgerð um eitthvað meira en bónuð þilför og pjatt. Hætt var við gerð fleiri mynda í flokknum og í kjölfarið lagði Þorgeir kvikmyndagerð á hilluna og snéri sér að ritstörfum, enda lítið að gera fyrir mann með skoðanir í kvikmyndagerð, þegar hann má ekki tjá þær.

Staða Þorgeirs í kvikmyndasögu landsins er merkileg, hann er svolítið einn á báti sem tilraunakenndur heimildarmyndagerðarmaður. Hann vildi gera meira – eiginlega hvað sem er til að breyta og þróa kvikmyndamenningu landsins. Hann stofnaði meira að segja kvikmyndahús-  Litla Bíó – þar átti að sýna öðruvísi og listrænni myndir en önnur kvikmyndahús borgarinnar sem voru þá 12 talsins, gerðu, þá vildi hann stofna kvikmyndasafn, en ekkert slíkt var til á landinu og kvikmyndaarfurinn lá undir skemmdum og stjórnvöld höfðu engin áform um að bjarga honum. Báðar hugmyndirnar lifðu stutt, enda fá fordæmi fyrir því að slíkt lifi af án aðkomu stjórnvalda sem höfðu engan áhuga á slíku. Þannig hugsaði Þorgeir ekki aðeins um vandamálin, heldur greindi hann þau og vildi gera eitthvað í þeim.

Myndin sem Þorgeir er hvað þekktastur fyrir er Maður og verksmiðja sem hann gat framleitt fyrir eigið fé og þess vegna á eigin forsendum. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Edinborg og vann til verðlauna í Locarno, ásamt því að vera sýnd ansi víða. Í myndinni leikur hann sér með montage klippingu í anda Eisenstein, þar sem reynt er að skapa merkingu með því að stilla saman tveimur ólíkum hlutum, ásamt því að vinna með ljóðrænt raunsæi sem skapar furðulegan og heillandi heim úr einfaldri síldarverksmiðju. Í myndinni skoðar Þorgeir samband manna við kraft iðnaðarins, vélvæðingu tilverunnar og hið forna í þessu mikla sköpunarverki mannsins. Myndin, sem er líklega hans þekktasta verk er fágætt dæmi um tilraunakennda íslenska heimildarmynd. Í landi þar sem kvikmyndir voru fáar og í raun mikið afrek að framleiða jafndýrt framlag til listar og kvikmyndin voru fáir sem höfðu viljann og þorir til að takast á við miðilinn, hvað þá á tilraunakenndan máta. Þetta lýsir dirfsku Þorgeirs betur en margt annað, svo ekki sé talað um listræna sýn hans og þor við að segja það í íslensku samhengi sem enginn hafði orðað áður. En tungumál listrænu myndarinnar byggir á orðaforða sem var lengi ekki til staðar í íslensku samhengi. Þorgeir var listrænt ljóðskáld sem fékk lítinn stuðning og ákaflega fá tækifæri, en afrakstur vinnu hans er fjölbreyttur og mikilvægt að hans sé minnst í heild sinni.

Að Byggja gerði Þorgeir fyrir Kópavogsbæ á 10 ára afmæli bæjarins árið 1967. Myndin er um uppbyggingu bæjarins þar sem mikið æði rann á byggingarbransann að reisa hús í gríð og erg. Þorgeir gerir þessu ágæt skil í myndinni og með því sem mætti vel túlka sem smá hæðni, setur hann saman bæjarstjórnarfund þar sem uppbyggingarmál voru rædd við krakka að byggja kofa – í þessu hlýtur að felast einhver gagnrýni á stöðu mála. En hver hún er, er kannski ekki augljóst. Myndir Þorgeirs eru uppfullar af slíkum túlkunaratriðum og meiningum sem duldist kannski þeim peningaköllum sem héldu um taumana, en gaman er að grúska í.

Þorgeir Þorgeirsson á allan heiður skilinn fyrir sína kvikmyndagerð og þor að leggja í hana í landi sem hafði enga virka kvikmyndagerð, kvikmyndaiðnað eða kvikmyndahefðir sem byggja mætti á.

Gunnar Tómas