Zeiss Ikon Favorid 16
Safnnúmer: Ss 99-1, 1 og Ss 09-4, 3
Zeiss Ikon Favorid 16 mm kvikmyndasýningarvél, framleidd í Þýskalandi. Hægt var að líma saman filmuna og sýna heilar kvikmyndir.
Vélin kemur frá Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli og var í notkun þar frá 1982–1995. Vélin var gefin Háskólabíói árið 1999 og notuð þar til að sýna á kvikmyndahátíðum og til að sýna kynningarmyndir og aðrar 16 mm myndir sem bíóið sýndi. Systurvélin sem keyrð var með vélinni er einnig á Kvikmyndasafninu en hún fór beint frá Andrews Theater á Kvikmyndasafnið árið 1999.
Vélarnar voru keyptar af varnarliðinu í gegnum Filmur og vélar sf. sem var í eigu Jóhanns Sigurjónssonar og Gunnars J. Eyland. Sigurjón Jóhannsson, sem síðar varð eigandi Filma og véla sf., setti upp vélarnar og sá um viðgerðir og viðhald alla tíð á meðan vélarnar stóðu uppi. Þegar vélin kom í Háskólabíó var smíðaður undir hana vagn á hjólum þar sem hún var keyrð á milli sala í bíóinu (salir 2, 3 og 4).
Andrews Theater er mjög stórt hús en sýningartjaldið var 160 fermetrar og ljósgjafinn 2500 W. 16 mm myndsniðið var ekki nógu öflugt fyrir þetta stóra tjald og varð myndin því mjög gróf og erfið í fókus. Þegar ljósið á xenon lampanum var stillt þurfti að passa sérstaklega að brennipunkturinn kveikti ekki í filmunni. Sigurjón notaði sérstakan filter á milli á meðan hann stillti ljósið. Andrews Theater sýndi allar nýjustu myndirnar en þær voru sérframleiddar fyrir bandaríska herinn í 16 mm. Þrjár bíómyndir voru yfirleitt sýndar daglega.
Eftir um 1990 voru eingöngu íslenskir sýningarmenn starfandi hjá Andrews Theater, þar á meðal Guðrún Júlíusdóttir frá Keflavík en hún og Sigríður Björnsdóttir frá Hveragerði eru einu konurnar sem gegnt hafa því starfi og þær einu sem hafa verið með sýningarréttindi á Íslandi.