Western Electric 46-C

Safnnúmer: Ss 21-2, 3

Western Electric 46-C hljóðmagnari, framleiddur í Bandaríkjunum, notaður með sýningarvélum Gamla Bíós og Nýja Bíós.

Í sýningarvélinni er fótósella sem breytti ljóssveiflum yfir í rafsveiflur fyrir magnarann. Á filmuna afritaðist mynd af hljóði/sveiflum sem yfirfærðist á fótóselluna. Síðan tók magnarinn við og magnaði upp þessar rafsveiflur og sendi út í hátalarana. Í vélinni sjálfri er formagnari sem gerður var til að styrkja hljóðmerkið frá fótósellunni yfir í magnarann. Þrír snúningstakkar eru á magnaranum þar sem hægt var að breyta spennunni inn á plöturnar í lömpunum og stýra þannig hljóðstyrknum í skrefum. Mælarnir mæla plötustrauminn á fyrsta og öðru mögnunarstigi. Mælir fyrir glóðarspennuna er á öllum lömpunum til að stýra hljóðstyrknum.

Hljóðmagnarinn var pantaður frá Western Electric í Bandaríkjunum fyrir Gamla Bíó og Nýja Bíó árið 1930 ásamt kvikmyndasýningarvélum, hátölurum og mótorstýribúnaði frá sama framleiðanda. Kvikmyndasýningarvélarnar voru þær fyrstu hérlendis sem gátu lesið hljóð af filmunni, magnarinn er því fyrsti magnari landsins sem notaður var fyrir kvikmyndahús. Ekki eru heimildir um í hvoru bíóinu magnarinn var notaður eða hversu lengi hann var í notkun en vitað er að það kom nýr magnari í Gamla Bíó árið 1945. Magnarinn var uppi í klefa hjá sýningarvélunum og tengdur við þær með skermuðum köplum. Hátalarasnúrur lágu síðan frá sýningarklefunum fram að hátölurunum, sem voru hafðir á bak við sýningartjaldið. Magnarinn er líklega óbreyttur frá framleiðanda en þeim var yfirleitt ekki breytt líkt og algengt var með sýningarvélar, heldur var þeim skipt út.