Steinbeck segulbandstæki
Safnnúmer: Ss 21-1, 2
Tækið er hluti af samstæðu sem samanstendur af 16 mm hljóðklippiborði/stýriborði og þremur 16 mm (sams konar) afritunartækjum, hvert fyrir staka (hljóð) spólu.
Tækið var keypt til landsins um 1986 og notað við hljóðsetningu kvikmynda í hljóðveri Kots kvikmyndagerðar hf. Með tækinu gátu starfsmenn Kots hljóðblandað og bætt inn aukahljóðum svo sem umhverfishljóði eða tónlist. Þegar vinna átti hljóð fyrir viðskiptavin fékk Kot í hendur fullunna mynd sem yfirfærð hafði verið á U-matic vídeóspólu (masterinn). Masterinn innihélt myndefnið ásamt grunnhljóði sem tekið var upp „á setti“. Á stýriborðinu er myndbandstæki fyrir U-matic spólu og monitor til að horfa á myndina. Hægt að vinna með tvær 16 mm hljóðspólur (perfspólur) í einu á stýriborðinu sjálfu, ef þess þurfti þá voru til þrjú aukaafspilunartæki sem hvert spilaði eina spólu og því var hægt að vinna með fimm hljóðrásir í einu. Yfirleitt voru notaðar allar hljóðrásirnar samtímis og þær hljóðblandaðar á perfband. Perfbandið var síðan afritað á kvarttommu segulband og í lokin var kvarttomman yfirfærð á mastermyndbandið (yfirleitt tommu myndband).
Það var mikil framför þegar þessi tæki komu í Kot. Tækin sem áður voru notuð voru orðin gömul og erfið í notkun. Þegar vídeóvinnsla kom til sögunnar varð ljóst að það þurfti nýjar aðferðir við hljóðvinnslu þeirra mynda sem teknar voru á vídeó. Menn voru að reyna að nýta tæknina sem fyrir var og notuð var til að hljóðsetja filmur. Fljótlega var hætt að nota perfbönd til að hljóðsetja myndbönd, það þótti óhentugt og ný tækni tók við.
Tækjasamstæðan var notuð í Koti þar til fyrirtækið var lagt niður um 1990. Samstæðan fór þaðan í notkun hjá Lifandi myndum ehf. og var afhent Kvikmyndasafninu árið 2004.