Philips FP 70

Safnnúmer: Ss 04-2, 1

Philips FP 70 kvikmyndasýningarvél fyrir 35 og 70 mm filmur. Vélin var upprunalega með kolbogaljósi sem skipt var út fyrir xenon lampa á meðan hún var enn í notkun í Háskólabíói. Kolbogahúsið er frá Mole Super Seventy.

Til að spila hljóð á 70 mm filmuna var notaður sex rása segultónn en venjulegur ljóstónn var notaður fyrir 35 mm filmuna. Síðar var vélinni breytt svo hún gæti tekið við Dolby Stereo og í framhaldinu voru settir lesarar fyrir Dolby Digital og STTS Digital þegar það kom á markaðinn.

Sýningarvélin var keypt ný fyrir opnun Háskólabíós þann 11. október árið 1961. Sýnt var á vélina nánast daglega þar til 14. júní árið 2000 þegar skipt var um sýningarvél. Vélin stóð í sýningarklefa Háskólabíós þar til Háskólabíó afhenti Kvikmyndasafni Íslands vélina árið 2005.

Bogi Ó. Sigurðsson og Karl Guðmundsson voru fyrstu sýningarmenn Háskólabíós. Í upphafi var einn salur í Háskólabíó sem tók um 1.000 manns. Notast var við tvær vélar þar sem ein vél gat aðeins sýnt 20 mínútna langar filmur í senn og þurfti því að skipta um vél á 20 mínútna fresti. Þegar bætt var við fleiri sölum í Háskólabíó þurfti að hnýta við vélina platta svo ekki þyrfti að hafa sýningarmann í hverjum sal. Plattinn gerði það að verkum að hægt var að sýna alla myndina í einu og þurfti ekki að spóla til baka. Systurvél þessarar vélar er enn í sýningarklefa Háskólabíós en stefnt er á að hafa hana til sýnis í anddyri bíósins. Fjórar sams konar vélar voru fluttar inn til landsins. Kvikmyndasafnið á aðra vél sömu tegundar sem notuð var í Laugarásbíói frá opnun þess þann 17. maí 1960 til ársins 2000. Laugarásbíó fór hinsvegar aðra leið heldur en Háskólabíó við að flytja filmuna í gegnum vélina þegar bíóið varð að fjölsalabíói. Laugarásbíó notaði stórar spólur sem tóku alla myndina en þá þurfti líka að spóla til baka að sýningu lokinni sem tók allt upp í sjö mínútur og var mjög óhentugt.

Sýningarvélar þessarar tegundar voru flaggskip þess tíma og þóttu 70 mm sýningar það flottasta sem hægt var að fá. Vélin var dýr í kaupum en linsan fyrir 70 mm filmu kostaði álíka og tveggja herbergja íbúð á þeim tíma. Filmurnar voru einnig mjög dýrar og ekki hægt að texta þær. Viðhald vélarinnar var kostnaðarsamt og flókið þar sem 35 mm og 70 mm færsluhjól vélarinnar var sambyggt sem gerði það að verkum að varahlutir voru u.þ.b. tíu sinnum dýrari heldur en varahlutir fyrir 35 mm vélar. Það voru því örfáar 70 mm kvikmyndir framleiddar á þessum tíma. Þar af leiðandi voru ekki margar 70 mm myndir sýndar hér á landi og því aðallega sýndar 35 mm filmur á þessar sýningarvélar.

Dýr rekstrarkostnaður var helsta ástæðan fyrir því að sýningarvélinni var skipt út í Háskólabíói. Tæknin við að sýna bíómyndir breyttist ekki svo mikið á þessum árum en þegar hún þróaðist þá voru yfirleitt gerðar breytingar á sýningartækjunum og þau uppfærð í stað þess að kaupa ný tæki sem á endanum var gert í báðum bíóunum.