Paillard Bolex G3
Paillard Bolex G3 kvikmyndasýningarvél. Vélin gat sýnt allar þekktu áhugamannafilmustærðirnar; 16 mm, 9,5 mm og Standard 8 mm filmur. Til að skipta um filmustærð þurfti að skipta um myndramma og færsluhjól í vélinni. Allar stærðirnar fylgdu með vélinni.
Ekki er vitað hver er upprunalegur eigandi vélarinnar en hún hefur orðið eftir á verkstæði Filma og véla sf. Vélin er eitt af mörgum tækjum sem faðir Sigurjóns Jóhannssonar, Jóhann Sigurjónsson, stofnandi Filma og véla sf., varðveitti og hafði til sýnis í verslun sinni. Jóhann hafði mikinn metnað fyrir því að varðveita gömul tæki. Þegar viðskiptavinir komu með illa farnar vélar í viðgerð bauð hann þeim gjarnan að setja gömlu tækin upp í ný. Tækin fóru þá á verkstæði Sigurjóns sem síðar varð eigandi Filma og véla. Sigurjón geymdi alla þessa muni og afhenti Kvikmyndasafninu árið 2011.