Klangfilm perftækjasamstæða
Safnnúmer: Ss 07-1, 7 - 9
Samstæðan samanstendur af fimm tækjum sem tengd eru saman; tvö afspilunartæki, upptökutæki, filmusýningartæki og drifbúnaður. Með perftækjasamstæðunni var hægt að hljóðblanda 16 mm segulböndum svo sem einni spólu með tali og annarri með tónlist eða umhverfishljóðum.
Samstæðan var í notkun hjá Sjónvarpinu frá um 1970–1980. Tækið var kallað ,,perftæki“ af starfsmönnum Sjónvarpsins. Perf er komið af enska orðinu perforated sem þýðir gatað en filmurnar/segulböndin voru gataðar. Danir kölluðu filmurnar ,,perfbånd“ sem varð til þess að þær voru kallaðar ,,perfbönd“ hérlendis.
Það voru ekki til sams konar tæki á landinu frá stofnun Sjónvarpsins 1966 til ársins 1980, Sjónvarpið var því eini staðurinn á landinu sem bauð upp á þessa tækni. Sjónvarpið þjónustaði einnig einkaaðila sem sóttust eftir því.