Bauer B14
Safnnúmer: Ss 16-1, 1
Bauer B14, 35 mm sýningarvél með lampahúsi. Tvær vélar voru keyrðar saman. Hver spóla var yfirleitt 20 mínútur og hver kvikmynd því á 5–10 spólum. Þegar punktar komu upp í efra hornið á tjaldinu gangsetti sýningarmaður sýningarvélina sem ekki var verið að sýna á. Þegar næsti punktur kom ýtti hann á takka eða sneri sveif sem lokaði þá fyrir mynd og hljóð vélar sem verið var að sýna á og flutti það yfir á hina vélina. Þannig var hægt að sýna mynd í fullri lengd og áttu bíógestir ekki að verða varir við neitt.
Sýningarvélarnar voru upprunalega notaðar í Kópavogsbíói í Hamraborg og voru í notkun þar frá 20. mars 1959 þar til Kópavogsbíó var aflagt 1975. Sigurjón Jóhannsson var síðar fenginn til að gera vélarnar upp fyrir Bæjarbíó. Hann setti í vélarnar allan nútíma búnað svo sem xenon lampa, stereo sólarsellur og tíðnistýringu á mótor en passað var að halda upprunalegu útliti á vélum og lampahúsi. Sigurjón lauk við að gera upp vélarnar 2004 sem þá voru settar upp í Bæjarbíói. Vélarnar voru í notkun í Bæjarbíói þar til 2014 þegar sýningar bíósins voru lagðar niður. Sýningartækin voru tekin niður úr Bæjarbíói 2016 og flutt í Kvikmyndasafnið.
Bauer framleiddi nokkrar týpur af þessum vélum. Fjórar sams konar vélar voru fluttar inn til landsins af þessari stærð, voru þetta stærstu og dýrustu 35 mm vélarnar sem Bauer framleiddi. Vélarnar voru keyptar inn fyrir Kópavogsbíó og Austurbæjarbíó. Vélarnar teljast vera þær bestu fyrir kvikmyndasöfn til sýninga þar sem þær eru mjög öruggar í keyrslu, með stórum færsluhjólum og gott filmuflæði í gegn. Þar að auki var mikið framleitt af slíkum vélum og því auðvelt að nálgast varahluti.