Bauer-5
Safnnúmer: Ss 83–1, 1
Bauer-5, 35 mm kvikmyndasýningarvél, framleidd í kringum 1910–1920 í Berlín. Vélin gerði ekki ráð fyrir hljóði og voru því eingöngu sýndar þöglar myndir á hana. Handafl var notað til að knýja vélina og þurfti sýningarmaðurinn að halda réttum takti til að hraðinn væri réttur. Spólurnar voru þó stuttar eða um 10 mínútur en á þeim tíma voru kvikmyndir ekki mikið lengri en það. Ásamt því að handsnúa vélina þurfti sýningarmaðurinn að passa að rétt ljós væri á tjaldinu á meðan hann var að snúa. Kolbogaljósið, sem notað var til lýsingar á filmunni var opinn eldur milli tveggja kolateina sem keyrðir voru saman þannig að ljósbogi myndaðist á milli teinanna. Eldurinn á milli teinanna var um 2000 gráðu heitur en filmugrunnurinn var gerður úr nítrati og brann við 80 gráður. Ekki mátti stoppa filmuna því þá myndaðist of mikill hiti frá ljósinu sem gat kveikt í filmunni. Ef eldur kom upp í spóluhúsinu var hætta á sprengingu en nítrat er mjög eldfimt efni og þarf ekki súrefni til að brenna og því voru sett net á spóluhúsin til að koma í veg fyrir sprengihættu.
Vélin var notuð í Gamla Bíói (Borg) í Vestmannaeyjum og er sú elsta sem varðveist hefur hér á landi sem vitað er að hafi verið sýnt á í kvikmyndahúsi með gjaldtöku. Arnbjörn Ólafsson á Reyni og Sigurjón Högnason frá Baldurshaga settu á stofn kvikmyndarekstur í húsinu Borg og stofnuðu Gamla Bíó árið 1918. Fyrsta kvikmyndin var sýnd 3. mars árið 1918 og hét Zirli. Íbúar Vestmannaeyja voru miklir bíóunnendur en á þessum tíma voru þar tvö starfandi bíó. Iðulega voru bíósýningar þegar bátar komu í land, þá pöntuðu sjómenn bíósýningu á meðan verið var að landa.