Ampex VR 2000 myndbandsupptöku- og afspilunartæki
Ampex VR 2000 myndbandsupptöku- og afspilunartæki fyrir tveggja tommu svarthvít myndbönd, framleitt í Bandaríkjunum. Tækið tók upp mynd og hljóð á sama myndbandið og var notað í upptökur og til útsendingar. Myndbandstæki frá Ampex þóttu þau bestu sem hægt var að fá á þeim tíma. Hluta af tækinu vantar (partur fyrir neðan monitor) en þar hefur líklega verið sveiflusjá (scope).
Tækið er merkt af starfsmönnum Sjónvarpsins ,,Ampex 3“ og er því líklega þriðja myndbandstæki Sjónvarpsins en tækið var tekið í notkun um 1972. Vegna stærðar tækisins var það eingöngu notað innandyra eða í stúdíói Sjónvarpsins. Tekið var upp myndefni með upptökuvélum sem myndbandstækið yfirfærði yfir á myndband. Upptökurnar gátu verið í beinni útsendingu eða þættir sem teknir voru upp í stúdíóinu og sendir út síðar.
Ampex 3 þótti mun fullkomnari en forverar þess, Ampex 1 og Ampex 2. Á Ampex 3 var hægt að klippa elektrónískt og nú var monitorinn innbyggður en í Ampex 1 var monitorinn ekki innbyggður.