Ampex VR 1100 myndbandsupptöku- og afspilunartæki
Safnnúmer: Ss 07-1, 1
Ampex VR 1100 myndbandsupptöku- og afspilunartæki fyrir tveggja tommu svarthvít myndbönd, framleitt í Bandaríkjunum. Tækið tók upp mynd og hljóð á sama myndbandið og var notað í upptökur og til útsendingar. Myndbandstæki frá Ampex þóttu þau bestu sem hægt var að fá á þeim tíma.
Tækið er fyrsta myndbandsupptöku- og afspilunartæki Sjónvarpsins og kom til landsins á fyrsta starfsári þess árið 1966. Tækið var ávallt nefnt ,,Ampex einn“ af starfsfólki Sjónvarpsins. Vegna stærðar tækisins var það eingöngu notað innandyra eða í stúdíói Sjónvarpsins. Myndefnið var tekið upp með upptökuvélum sem myndbandstækið yfirfærði yfir á myndband. Tækið var ekki lengi í notkun þar sem fljótlega komu fram betri tæki svo sem Ampex 2 og Ampex 3. Á Ampex 1 var aðeins hægt að klippa handvirkt en á Ampex 2 og 3 var hægt að klippa elektrónískt. Í Ampex 1 var ekki innbyggður monitor en í Ampex 3 var hann innbyggður.