Agfa Sonitor S kvikmyndasýningarvél
Agfa Sonitor S Super 8 mm kvikmyndasýningarvél með hljóði og möguleika á hljóðupptöku. Hægt var að taka upp hljóð á filmuna ef hljóðrönd var á henni og var þá hljóðnemi tengdur við vélina. Líma þurfti segulrönd á filmuna ef engin hljóðrönd var á filmunni en hægt var að kaupa bæði filmur með og án hljóðrandar.
Vélin er með síðustu gerðum af sýningarvélum sem framleiddar voru fyrir filmu. Næsta skref í þróuninni var þegar farið var að setja ljóstón / optískan tón á 8 mm filmu en þær gátu sýnt bæði optískan og magnetískan tón (ljóstón og segultón). Hægt var að taka upp á þær og búa til stereo í segultóninum. Þessi tækni var það síðasta í þróun filmusýningarvéla og tóku nú vídeótækin við.
Vélin var í eigu Sigurjóns Jóhannssonar sem pantaði vélina frá framleiðanda árið 1990. Vélin var mikið notuð á heimili hans og þá mest af börnunum hans. Vélin þótti nett og þægileg í notkun.