Forsíðustúlka Íslands á filmu gaf sig fram

Kvikmyndasafn Íslands opnaði nýverið streymisvefinn ,, Ísland á filmu“ við hátíðlega athöfn. Fyrir kynningu á vefnum var leitað að fallegri stúlku og var fyrir valinu mynd af ljóshærðu stúlkubarni í íslenska þjóðbúningnum með fána í hönd. Við á kvikmyndasafninu höfðum velt því fyrir okkur að hafa uppi á forsíðustúlkunni, en þess gerðist ekki þörf því innan fárra daga frá opnun ,,Ísland á filmu“ gaf hún sig fram við safnið.

Þetta reyndist vera Kolbrún Sæmundsdóttir sem er fædd í Reykjavík 8. apríl 1942 og var hún því tveggja ára þegar foreldrar hennar fóru með hana á lýðveldishátíðina á sínum tíma. Af þessu tilefni tók starfsmaður safnsins hús á Kolbrúnu og átti við hana spjall. Kolbrún býr í Breiðholtinu ásamt eiginmanni sínum Birni Árdal barnalækni. Eiga þau þrjár uppkomnar dætur, 8 barnabörn og 4 langafa og ömmubörn. Kolbrún ólst upp við gott atlæti hjá foreldrum sínum í Reykjavík. Hún var að eigin sögn eftirlætisbarn sem mikið var látið með – hún segir ,,það var talsvert dúllað við mig: hárið krullað og myndir teknar hjá Lofti ljósmyndara. Mamma saumaði mikið á mig, hún saumaði t.d. á mig kjól eins og ,,Shirley Temple“ átti – pabbi teiknaði upp munstrið sem var á kjólnum. Ég fékk alltaf ný náttföt á hverjum aðfangadagsmorgni sem hún saumaði og dúkkurnar mínar fengu líka náttföt úr sama efni. Pabbi og mamma voru sannarlega listafólk af guðs náð. Mamma hafði lært að mála á postulín og pabba fannst það svo áhugavert að hann dreif sig til Köben og lærði þar. Síðan kenndi hann postulínsmálun hér heima í mörg ár, og var með afbrigðum vinsæll. Mamma málaði líka og þau unnu saman. Hún pressaði líka blóm, límdi þau á kort og gerði myndir. Eftir að hún lést fór ég að tína blóm og pressa og bý til kort sem eru seld til fjáröflunar fyrir ,,Zontaklúbb Reykjavíkur“ sem ég er meðlimur í. Þegar ég var 7 ára og fór í Laugarnesskólann fór ég að læra á píanó mömmu til mikillar ánægju. Í Laugarnesskólanum var mikil tónlist stunduð eins og þjóðin veit. Þegar ég var 15 ára var ég komin í Tónlistarskólann í Reykjavík. Var þar fyrst hjá Hermínu Kristjánsson og síðan Jóni Nordal.

Í Tónlistarskólanum kynntist ég því að spila ,,kammermúsík“ eins og það var kallað og þótti mér það mjög gaman. Í skólanum var frú Engel Lund söngkennari – kölluð Gagga. Þegar ég var 17 ára vantaði hana undirleikara fyrir söngnemendur sína í nokkrar vikur til vorprófs. Hermína stakk upp á mér. Hjá Göggu kynntist ég því sem síðar varð atvinna mín í tæp 40 ár. Ég útskrifaðist síðan úr Tónlistarskólanum árið 1964 sem píanókennari. Hér verð ég að skjóta inn í: mamma saumaði á mig dásamlega fallegan kjól vegna þessa tilefnis. Hún notaði til þess fermingarkjólinn minn. Mér leið eins og prinsessu í þessum kjól.

Eftir útskriftina úr Tónó fór ég að kenna heima á píanó. Ég segi stundum að ég hafi komið manninum mínum í gegnum læknanámið með því að kenna á píanó! Við hjónin kynntumst þegar við vorum 17 ára í Menntaskólanum í Reykjavík þaðan sem við útskrifuðumst 1962. Við bjuggum eitt ár á Ísafirði – síðan í Bandaríkjunum og Kanada (þá komin með 2 börn) þar sem hann var við nám. Haustið 1977 bauðst mér vinna sem undirleikari í Söngskólanum í Reykjavík þar sem Garðar Cortes var og er skólastjóri. Þetta varð ævistarf mitt þar til ég hætti fyrir 4 árum, þetta voru dásamleg ár“ Í lokin vil ég segja: Mér finnst ég hafa átt gott líf og verið lukkunnar ,,pamfíll“.

Kolbrún er mikill safnari í sér og ber heimilið þess merki. Hún safnar ýmsu svo sem fingurbjörgum og styttum af jólatrjám. Einnig hefur hún komið sér upp flottu dúkkuhúsi með mörgum herbergjum sem ,,norstrað“ hefur verið við. Með leyfi Kolbrúnar er hér birt mynd af einu herbergi í dúkkuhúsinu sem hún kallar ,,Herbergi heimshornaflakkarans“.

Tilgangur með streymisvefnum ,,Ísland á filmu“ er meðal annars sá að safna upplýsingum um myndefni safnsins sem þar birtist. Kvikmyndasafnið þakkar Kolbrúnu forsíðustúlku þá og nú kærlega fyrir að gefa sig fram og fyrir skemmtilegt spjall.