Dolby CP50 processor

Safnnúmer: Sm 11-14, 10

Dolby CP50, Stereo Optical Sound Processor. Processor tekur við hljóði af filmunni og skiptir því í rásir og rófstillingu (equalizing), styrkstillir hverja rás og samhæfir fyrir kraftmögnun.

Processorinn var tekinn í notkun í desember 1980 og er fyrsti Dolby Analog sem kemur til landsins. Var upprunalega í sal A í Laugarásbíó, fór þar á milli sala og endaði í Bæjarbíói í Hafnarfirði ásamt Electro Voce hátölurum frá sama bíói. Tækið var tekið niður til að rýma fyrir Dolby CP55 sem kom frá Sambíóunum.

Dolby CP50 tæknin þótti bylting í hljóði á Íslandi. Áður hafði verið sýnt í mono en þá var einungis einn magnari og einn hátalari á bak við tjaldið. Þegar Dolby Stereo kom til landsins voru hins vegar settir þrír hátalarar bak við tjaldið ásamt áhrifahátölurum úti í sal (surround system). Eprat var önnur tegund processora og var keppinautur Dolby hérlendis, en lesarar frá því merki voru settir upp í Tónabíói, Regnboganum og öllum sölum í Bíóhöllinni. Dolby var yfirleitt í hinum bíóunum svo sem Austurbæjarbíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Nýja Bíói. Í Vikunni frá árinu 1995 er fjallað um að í 22 af 26 bíósölum þar sem sýndar voru fleiri en ein mynd daglega var notað Dolby Stereo en það var langtum meira en á Norðurlöndunum. Dolby þótti það besta á þessum tíma.

Þegar tæknin þróaðist og önnur tegund af hljóði kom svo sem SR (Spectral Recording) sem bauð upp á meiri hljómvídd þá voru búin til tæki sem hægt var að tengja við þennan processor og því oft hægt að bæta nýjum eiginleikum við eldri tæki.