Cinemeccanica Victoria 8
Safnnúmer: Ss 17-3, 1
Cinemeccanica Victoria 8, 35 mm sýningarvél, framleidd í Mílanó á Ítalíu. Vélin gengur á 24 römmum sem fara framhjá ljósopinu á sekúndu. Stafrænn lesari les hljóðið optískt af filmunni annaðhvort hliðrænt eða stafrænt. Vélin er með innbyggðu Dolby Digital og Dolby Analog hljóði og einnig var á henni lesari fyrir DDS ásamt skynjurum sem skynjuðu ljós í sal og á sýningartjaldi. Notast var við platta sem gerði það að verkum að hægt var að sýna spóluna í einni beit og því auðveldara að nota vélina í fjölsala bíóum. Vélin er mun sjálfvirkari en eldri gerðir og hlutverk sýningarmanns varð því mun minna en áður var.
Sýningarvélin var í notkun í Laugarásbíói frá árinu 2000 til um 2010 eða þar til stafræna tæknin tók við. Skipt var um sýningarvél á sama tíma í Háskólabíói og sett upp sams konar vél. Vélin í Háskólabíó var hinsvegar með stærri lampa þar sem þar var stærri salur. Sigurjón Jóhannsson setti upp vélarnar bæði í Laugarásbíó og Háskólabíó og sá um viðhaldið á vélum hússins í fjölda ára. Lögð var áhersla á fyrirbyggjandi viðhald, sýningarmaður fylgdist vel með vélunum og ef honum fannst eitthvað athugavert þá var haft samband við Sigurjón sem skipti út hlutnum áður en hann bilaði. Fyrstu sýningarmenn bíósins voru Árni Hinriksson og Tómas Snorrason og síðar Vigfús Guðmundsson. Laugarásbíó gaf Kvikmyndasafni Íslands vélina árið 2016.