Western Electric

Safnnúmer: Ss 21-2, 1

Western Electric 35 mm kvikmyndasýningarvél. Vélinni var breytt samhliða tækniþróun þess tíma og því ekki um upprunalega útfærslu að ræða. Neðsti hluti vélanna, hljóðbúnaðurinn, er upprunalegur af gerðinni Western Electric, framleiddur í Bandaríkjunum. Kolbogahúsin eru af Cyclex gerð, framleidd í New York. Sýningarhausarnir eru frá Bauer, framleiddir í Þýskalandi. Vélunum fylgir einnig hljóðmagnari, hátalari og mótorstýribúnaður frá Western Electric í Bandaríkjunum. Vélin var keyrð með systurvél og sýndi hvor vél lengst 20 mínútna langar spólur á 35 mm filmur. Fjórar slíkar vélar voru fluttar inn til landsins árið 1930, tvær fyrir Nýja Bíó og tvær fyrir Gamla Bíó. Voru þær fyrstu kvikmyndasýningarvélarnar hérlendis sem spiluðu hljóð af filmunni.

Fram til 1930 voru eingöngu sýndar hér á landi þöglar myndir og var þá leikið undir á hljóðfæri eða notaður grammófónn og margvíslegum aðferðum beitt til að búa til leikhljóð. Árið 1927 fór fyrst að heyrast rætt um talmyndir sem þá ruddu sér til rúms í Ameríku. Einungis þremur árum síðar, árið 1930, fóru forstjórar Gamla Bíós, Peter Petersen, og forstjóri Nýja Bíós, Bjarni Jónsson, til Danmerkur og kynntu sér þessar nýjungar í kvikmyndalistinni og þóttu fyrir vikið mjög framsýnir. Ákváðu þeir að kaupa dýrustu og bestu tækin sem völ var á en þau voru frá Western Electric í Bandaríkjunum sem var með umboð í Danmörku.

Á búnaðinum frá Western Elctric stendur „Tilbehører Western Electric København“ sem gefur til kynna að þetta voru leigutæki. Vélarnar komu hingað til lands í júlí 1930 með Dronning Alexandrine ásamt dönskum verkfræðingi, Hans Ræbild, sem sá um útbúnað tækjanna og setti þau upp. Áhöldin frá Western Electric kostuðu þá um 50 þúsund danskar krónur og fylgdi þeim kaupum 10 ára leigusamningur og skilyrði um að sendur yrði til landsins maður til eftirlits til að yfirfara tækin í hverjum mánuði. Eftirlitsmaður með sýningartækjunum og fulltrúi Western Electric var frá 1930–1945 Guðmundur Sigmundsson loftskeytamaður. Fyrstu sýningarmenn talmyndanna voru Ólafur L. Jónsson og Magnús Magnússon frá Ofanleiti en hann var sýningarstjóri í Gamla Bíói til 1940. Ólafur Árnason varð síðar sýningarstjóri en hann byrjaði að sýna á vélarnar í Gamla Bíói árið 1931.

Þann 1. september 1930 var í fyrsta skipti sýnt á sýningarvélarnar bæði í Gamla Bíói og Nýja Bíói og þar með í fyrsta skipti sýndar tal- og tónmyndir á Íslandi. Fyrsta tal- og tónmyndin sem sýnd var í Gamla Bíói hét Hollywood Revían og sú fyrsta í Nýja Bíói hét Sonny Boy, hvor tveggja var bandarísk dans- og söngvamynd. Talmyndirnar voru fyrst aðeins sýndar á ensku eða þýsku, texti var sýndur við og við og var þá á dönsku. Það var dýrt að leigja sýningarvélarnar frá Western Electric en hagnaðurinn var þrátt fyrir það góður, aðsókn var stundum svo mikil að fella varð niður aukamyndir svo koma mætti fyrir fleiri aðalsýningum á dagskrána.