Siðleysi í formi kvikmyndalistar

Eftir Gunnar Tómas Kristófersson

Úr leikhúsinu á hvíta tjaldið

Fyrsta konan til að gera kvikmynd á Íslandi var Ruth Hanson. Hún gerði danskennslumyndina Flat Charlestone árið 1927 í samstarfi við Loft Guðmundsson. (1) Réttum 25 árum síðar kom önnur kona fram með kvikmynd, en það er fyrsta leikna kvikmyndin sem íslensk kona leikstýrði, Ágirnd. Sú kona hét Svala Hannesdóttir.

Ágirnd var frumsýnd árið 1952 á tíma þegar konur áttu ekki á vísan að róa með störf fyrir utan heimilið, þótt þær væru vissulega farnar að koma sér betur fyrir á vinnumarkaðnum og væru í nokkrum háttsettum embættum, eins og til dæmis Ásta Magnúsdóttir ríkisféhirðir og Teresía Magnússon veðurstofustjóri. Sífellt fleiri konur efuðust um gildi „hefðbundinna“ húsmóðurstarfa og vildu leita í aðrar áttir. En þrátt fyrir aukin tækifæri og baráttuhug í kvenréttindahreyfingum um víða veröld voru réttindi kvenna enn takmörkuð og ríkjandi hugmyndin sú að konan ætti að sinna heimilinu og láta manninum eftir að afla tekna utan þess. (2) Ruth og Svala voru fyrstu konurnar á Íslandi til að koma að kvikmyndagerð með beinum hætti. Þær náðu þó aðeins að gera eina mynd hvor. Erfitt var fyrir konur að komast að við kvikmyndavélarnar, enda nánast allir þeir sem stunduðu kvikmyndagerð karlar í fastri vinnu sem gat staðið undir kostnaði við áhugamálið. Ruth og Svala fóru báðar þá leið að gera myndir sínar í samstarfi við frumkvöðla á sviði íslenskrar kvikmyndagerðar, Ruth með Lofti Guðmundssyni og Svala með Óskari Gíslasyni. (3)

Árið 1950 var Svala Hannesdóttir í námi við leiklistarskóla Ævars Kvarans og hafði fengið nokkur hlutverk í útvarpsleikritum og á sviði í verkum sem Ævar leikstýrði. (4) Hún hafði hæfileika og vildi beisla þá fyrir utan hið hefðbundna heimilislíf, hennar draumur var að vinna í leikhúsi. Við leiklistarskólann samdi hún látbragðsleikinn Ágirnd sem settur var upp af nemendum og sýndur á opnum sýningum í skólanum. Fór svo að Óskar Gíslason kvikmyndagerðarmaður lýsti áhuga á kvikmyndun látbragðsleiksins. Ævar Kvaran var góðvinur Óskars, hafði komið að gerð nokkurra af stærstu myndum hans og var meðal annars titlaður leikstjóri Síðasta bæjarins í dalnum (1950) og Reykjavíkurævintýris Bakkabræðra (1951). (5) Það var líklega í gegnum Ævar sem Svala og Óskar náðu saman en Svala lék í stuttmynd hans, Töfraflöskunni (Óskar Gíslason, 1951), sem var sýnd sem aukamynd með Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra. Töfraflöskunni svipar á margan hátt til Ágirndar þar sem þær voru báðar teknar á sviði á afar minimalískan máta en stílbrögðin í Ágirnd voru mun ágengari og gengu inn á slóðir expressjónismans í lýsingu og sviðsetningu, eins og komið verður nánar að hér á eftir. Eftir leik sinn í Töfraflöskunni lék Svala í leikriti hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hvarf svo nánast alfarið af sjónarsviðinu. (6)

Hér á eftir verður þessi fyrsta leikna mynd sem kona leikstýrði á Íslandi skoðuð og farið ofan í saumana á henni sem listrænni mynd, þeirri fyrstu sem gerð var á Íslandi. Þá verður farið ítarlega í viðbrögð fólks og fjölmiðla við myndinni, en hún hlaut harkalega útreið á síðum blaðanna eftir frumsýningu, og einnig fyrir hana ef því er að skipta. Kallað var eftir banni á myndinni, meðal annars vegna þess að hún sýndi embættismenn stunda lögbrot og var hún úthrópuð sem argasta þvæla áður en ró færðist í umræðuna og farið var að fjalla um myndina fyrir þá listrænu framsetningu sem í henni er að finna. Að lokum verða skoðuð áhrif myndarinnar á líf Svölu og arfleifðin sem hún skildi eftir sig í formi Ágirndar.

 

Kvikmynd um ágirnd

Ágirnd byrjar á titilspjaldi þar sem titill myndarinnar er letraður í skakkri og mjög stílfærðri leturgerð ásamt táknrænni grímu með kuldalegu glotti. Tónlistin undir er hart og ágengt píanóspil, samið af Knúti Magnússyni, sem táknar það glæpaspil sem koma skal án þess að nokkuð sé dregið af. Næst kemur textaspjald með leikendum og er þar Svala Hannesdóttir sjálf efst á blaði, tvö spjöld fylgja með fleiri leikurum, skreytt í drungalegum anda myndarinnar þar sem leikhúsgrímur eru í fyrirrúmi. Tökurit, það er nákvæm lýsing á því hvernig kvikmyndin er skipulögð, er skrifað á Þorleif Þorleifsson, aðstoðarmann Óskars Gíslasonar, en hann var brautryðjandi á Íslandi þegar kom að gerð alvöru tökurita. (7) Svala Hannesdóttir er svo skráður leikstjóri myndarinnar og að lokum er nefndur til sögunnar Óskar Gíslason sem sá um flest allt sem við kom kvikmyndagerðinni. Þegar aðstandendalistanum lýkur kemur upp texti þar sem vísað er í græðgi fólks í perlur og gull og yfir talar rödd sem lýsir þessari fýsn og hversu almenn hún sé. Að jafnvel við, áhorfendur, þjáumst af óstjórnlegri ágirnd í fé, þó að það sé illa fengið. Þetta er eina talið sem heyrist í myndinni, fyrir utan sömu rödd sem talar í lok myndarinnar, annars er hún öll leikin með látbragði og kraftmikilli tónlist Knúts Magnússonar sem leiðir áhorfendur í gegnum atburði hennar.

Eftir varúðarorðin er klippt yfir á klukkuturn þar sem klukkan slær ellefu í kvöldrökkrinu, en klukkuturninn á eftir að verða að mikilvægu tákni síðar í myndinni og er jafnframt eina skotið sem er ekki tekið á sviði Þjóðleikhússins, þar sem myndin var að öðru leyti öll tekin. Í næsta skoti sést skuggamynd af konu sem fellur á himnasæng en efnið í sænginni mótast á mjög áhugaverðan máta í formi sem minnir á kvensköp.

Það er einstaklega viðeigandi að fyrsta skotið í fyrstu frásagnarmynd íslenskrar konu sé með þessu tákni kvenleikans, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Svo er myndavélinni hnikað niður á við og við sjáum aldraða konu liggja dánarleguna, ljóstíra rammar inn andlit hennar en skugginn vofir yfir. Svala sjálf leikur konuna. Hún heldur á perlufesti í greipum sér, síðustu minningunni um látinn mann sinn. Næst sjáum við hjúkrunarkonu standa yfir rúmi hennar og hún ásælist augljóslega perlufestina, en nær að halda aftur af sér og leyfir hinni deyjandi konu að halda festinni síðustu augnablik lífs síns. Taktur myndarinnar er hægur og sviðsmyndin minimalísk og fyrir utan nokkra leikmuni sem eru upplýstir er allt svart og miklar andstæður á milli ljóss og skugga. Margt í sviðsmyndinni er einnig sett upp skakkt og stílfært á máta sem vísar skýrt til þýsks expressjónisma með sterkum andstæðum ljóss og skugga, skökkum formum og óreglulegum línum. Ýktur leikstíllinn ýtir svo bæði undir sviðsmyndina og tilfinningaþrungna frásögnina. Fagurfræði expressjónismans byggði í grófum dráttum á því að sterkar tilfinningar persóna voru túlkaðar inn í sviðsetninguna á mjög kraftmikinn máta sem stuðaði oft áhorfendur. (8) Þetta á vel við þema Ágirndar, ásælni manna eftir auðfengnu fé þar sem hið ljósa og myrka í manninum tekst á. Umfjöllunarefni og stíll myndarinnar eiga ákaflega vel saman.

Hin deyjandi kona heldur um perlufestina og við förum með henni aftur í tímann í minningum um eiginmann hennar, skipstjórann sem gaf henni festina. Þar er hún ung og ástfangin en sterkar táknmyndir dauða umlykja hana. Skipstjórahatti eiginmannsins er fléttað saman við mynd af tímaglasi sem telur niður lífið og feigð hans verður áhorfendum ljós. Þetta er sama tímaglas og er nánast tómt á borðinu við hlið hinnar deyjandi konu. Þegar hún fær tilkynningu um dauða manns síns úti á sjó heldur hún, aðframkomin af sorg, fast utan um perlufestina sem tákn fyrir ástina í lífi sínu en svo er klippt hægt yfir á hana á dánarbeðinu þar sem hún heldur enn utan um festina. Tengingin milli nútíðar og fortíðar er sett fram með myndblöndun og markvissri notkun á táknum.

  Þegar prestur kemur til að veita deyjandi konunni líkn er augljóst að hann er ekki allur þar sem hann er séður. Hann gengur út úr myrkrinu í gegnum stílfærðar skakkar dyr beint að myndavélinni. Hann gerir krossmark yfir konunni en þá sér hann perlufestina og það er ljóst að hann girnist hana. Myndin nýtir myndfléttu innan ramma til að leggja áherslu á syndina sem býr í brjósti prestsins með því að setja saman opna Biblíu í hendi hans og perlufestina í hendi konunnar. Þegar tímaglasið á borðinu tæmist og konan deyr sér presturinn sér leik á borði og tekur perlufestina úr köldum höndum hennar og felur inni í Biblíunni. Svo gengur hann hröðum skrefum út, en honum verður litið til baka þar sem líkið starir á hann og ljóst er að samviskan nagar prestinn. Hann snýr sér samt við og fer út með festina í hinni heilögu bók.

Kirkjuturninn frá því í upphafi myndarinnar sést aftur, en núna í enn meira myrkri en áður, líkt og myrkrið sé að falla yfir heiminn í bókstaflegri og táknrænni merkingu. Presturinn gengur um myrk stræti, þar sem eina birtan kemur frá götulukt og skökkum, stílfærðum glugga í bakgrunni. Út úr myrkrinu kemur glæpamaður sem sér prestinn dást að perlunum og hann drepur prestinn með barefli og rænir festinni. Það er ljóst að presturinn deyr því klippt er yfir á kirkjuklukkuna, sem er núna í algjöru myrkri og við sjáum hana klofna í sundur. Tákn trúarinnar er brotið, presturinn er dauður.

  Þegar presturinn er látinn tekur glæpamaðurinn hálsfestina og pakkar henni inn í blaðsíðu úr biblíunni. Hann heldur inn á knæpuna Café Ránardætur þar sem fjárhættuspilari situr í eymd við drykkju. Kona býður honum blíðu sína en hann rekur hana í burtu. Að því loknu hefja mennirnir spil og í langri senu nær fjárhættuspilarinn hálsfestinni af glæpamanninum með svindli, en sá síðarnefndi vill þó ekki sætta sig við tapið og reynir að ná festinni aftur.

Upphefjast þá átök sem enda með dauða glæpamannsins. Spilarinn fer með festina til skartgripasala sem kaupir hana dýrum dómum. Festin er sett út í glugga þar sem kona sér hana og biður mann sinn um hana að gjöf. Maðurinn segir nei, en kemur svo stuttu síðar og kaupir festina.

Hann fer með hana til hjákonu sinnar sem gleðst mjög og þau kyssast. Í mjög tvíræðri klippingu sjáum við mynd sem límd er á vegginn fyrir ofan rúmið af eldfjalli að gjósa miklum eld- og reykmekki hátt upp í loftið. Svo sjáum við þau liggja saman í rúminu áður en karlmannshendi teygir sig í lampa og ljósin eru slökkt og allt verður svart. Kvenmannshendi kveikir svo aftur ljósið og konan liggur ein og ósátt í rúminu með perlurnar um hálsinn, en maðurinn er á bak og burt. Eiginmaður hennar, fjárhættuspilarinn, kemur svo heim, sér perlurnar um háls hennar og grunar konu sína um framhjáhald. Hann missir stjórn á sér og gengur að konunni á mjög ógnvekjandi máta. Við sjáum hana frá hans sjónarhorni og er nærmynd af skelfdri konunni sem horfir óttaslegin beint í myndavélina mjög áhrifamikil. Þetta skot vekur óhug og er óþægilega persónulegt. Áhorfendur eru settir í spor gerandans og taka þátt í því að ráðast á konuna. (9) Maðurinn kyrkir konuna, en í stað þess að við sjáum það beint er aftur ýjað að dauðanum á táknrænan hátt. Lampi er sleginn af borði og sveiflast, hangandi í snúrunni varpar hann dimmum skugga upp á vegginn og kyrkingin verður ljós í því hvernig lampinn hangir eins og liðið lík í hengingaról. Konan er dáin en maðurinn sest á rúmið og sér eftir gjörðum sínum og grátur hans er sýndur á táknrænan máta með því að það rignir perlum úr hendi mannsins ofan á biblíublað á gólfinu. Hann tekur blaðið upp og les hina heilögu ritningu, kastar perlunum frá sér og hugsar um villu síns vegar. Lögreglan mætir að lokum til hans og handtekur hann. Sést lögreglumaður halda á biblíu prestins og hefur því rakið glæpaslóðina sem festin hefur skilið eftir sig. Myndin endar svo á skoti af hálfgegnsæjum höndum reyna að grípa í perlufestina sem liggur utan seilingar á meðan röddin frá því í upphafi myndarinnar heyrist endurtaka boðskap sögunnar um veikleika mannskepnunnar gagnvart freistingum auðfengins fjár.

 

Fyrsta listræna myndin

Vinna með tákn, líkingar og listræna framsetningu hafði ekki verið tíð í íslenskum kvikmyndum fram að þessu, enda leiknar myndir vissulega afar fáar og allar drifnar áfram af hefðbundinni söguframvindu. (10) Ágirnd er að því leyti einstök mynd í íslensku samhengi og mætti alveg segja að hún sé fyrsta listræna myndin, þar sem frekar er unnið með óræð þemu græðgi og illsku en hefðbundna og rökrétta söguframvindu. Í Ágirnd er engin söguhetja önnur en hálsfestin og engin rökrétt framvinda önnur en spillingarmáttur hennar. Syndir mannanna eru settar fram í samhengi við trúarleg stef eins og heilagleika presta, biblíuna og kirkjuklukku, nokkuð sem átti eftir að fara mjög fyrir brjóstið á fólki eftir að myndin kom út. Myndin er ólík öðrum myndum Óskars Gíslasonar að þessu leyti og það er hægt að ímynda sér margar mögulegar ástæður þess að Ágirnd hefur svo skipulagt táknkerfi og listræna sýn miðað við aðrar myndir hans. Ein sú augljósasta er aðild Svölu Hannesdóttur. Ágirnd má skoða í samhengi við aðra mynd Óskars, Töfraflöskuna, sem hann gerði ári fyrr við svipaðar aðstæður, en hún var einnig tekin upp á sviði með naumhyggjulega sviðsmynd og sérstaka lýsingu og Svala leikur meira að segja hlutverk í henni. En hún er augljóslega unnin á forsendum frásagnarinnar þrátt fyrir að Þorleifur Þorleifsson, með sína hæfileika, hafi verið með og Óskar hafi gert hana. Sviðsetning Töfraflöskunnar er ekki stílfærð og þjónar rökréttri söguframvindu í hvívetna. Það er synd að Svala og Óskar hafi aðeins gert eina mynd saman, því ef listrænt auga hennar í kvikmyndagerð var orðið eins gott og Ágirnd er til vitnis um þá hefur íslensk kvikmyndamenning farið á mis við mikið.

 

Fjölmiðlar bregðast við „siðleysinu“

Kafli úr Ágirnd var sýndur blaðamönnum í lok nóvember 1952 og í Tímanum er fjallað um myndina, þar sem hún er kölluð „hryllimynd“ en efni hennar jafnframt sagt nýstárlegt. Í texta undir stillu úr myndinni í blaðinu segir:

Myndin er úr hinni nýju hryllimynd Tjarnarbíós, þar sem framin eru þrjú morð, spilað fjárhættuspil og stolið. Er þar staðið við rúm eins af fórnardýrum morðingjanna, en hinir, sem myrtir eru í myndinni, eru prestur og morðingi og fjárhættuspilari. (11)

Reyndar er myndin sem um ræðir í tilvitnuninni af Svölu Hannesdóttur í hlutverki hinnar deyjandi konu og stendur hjúkrunarkonan við rúmið að hjúkra henni og því ekki um fórnarlamb að ræða. En vissulega voru þrjú morð í myndinni og önnur siðspilling, eins og blaðamaður Tímans leggur mikla áherslu á. Það var meðal annars gert með fyrirsögninni: „3 morð, fjárhættuspil og þjófnaðir í ísl. kvikmynd.“ Myndin vakti sem sagt strax mikla athygli fyrir efnistök og að þora að fara út fyrir þau mörk velsæmis sem aðrar íslenskar kvikmyndir höfðu ekki einu sinni komið nálægt. Aðeins í Þjóðviljanum var minnst á það hversu stílfærð myndin væri og lýsingin sérstök, en annars var athyglin á efnistökum myndarinnar. (12)

Það kvað því við mjög sérstakan og öfgakenndan tón í allri umfjöllun um myndina, eins og átti eftir að koma enn betur í ljós. Áður en myndin var frumsýnd birti Tjarnarbíó tilkynningu þess efnis að þrátt fyrir að sýna myndina hefði bíóið ekkert haft með gerð hennar að gera. Myndin yrði einfaldlega þar í sýningum eftir að kvikmyndaeftirlitið væri búið að taka hana til skoðunar. (13) Þann 5. desember 1952 var Ágirnd svo frumsýnd í Tjarnarbíói og var sextán ára aldurstakmark inn á myndina. Daginn eftir birtust umsagnir, skoðanir og dómar í dagblöðum. Í Þjóðviljanum var myndinni lýst sem dómadagsdellu viðlíkri engu sem hefði verið ,,fest á filmuræmuna, hvorki hér á landi né annars staðar, hvorki fyrr né síðar, og því minna sem um hana er sagt, því betra“. (14) Í Morgunblaðinu tók ekkert betra við en þar endaði dómurinn á eftirfarandi orðum:

Það er fullkomin ástæða til að kanna, hvort mynd eins og „Ágirnd“ brýtur ekki í bága við lög, að því er snertir t.d. presta. Það er og fullkomin ástæða til að athuga hvort ekki beri að banna slíkar myndir eins og nú tíðkast við klámbókmenntir af grófari gerð. (15)

Var þar með komin fram sú hugmynd að banna ætti myndina og ljóst að almenningsálitið var henni ekki hliðhollt og hófu aðilar tengdir myndinni að sverja hana af sér. Þann 7. desember var birt í Tímanum fréttatilkynning Guðlaugs Rósinkranz þjóðleikhússtjóra þar sem tekið er skýrt fram að myndin tengist leikhúsinu ekkert, hún hafi verið tekin þar upp á meðan sumarfrí voru við leikhúsið. Hefði verið vitað hvað fram færi við gerð myndarinnar hefði verið tekið fyrir alla hjálp við gerð hennar. Sama dag birtir Þorgrímur Einarsson leikari tilkynningu í blöðunum þar sem hann segist ekki hafa tekið þátt í gerð hennar, heldur sé það alnafni hans sem sé skrifaður í leikskrána. (16) Í Morgunblaðinu er myndinni lýst sem þvættingi og hrákasmíð og jafnframt fullyrt að sú staðreynd að Tjarnarbíó, sem rekið var af Háskóla Íslands, skyldi taka slíkan ósóma til sýningar flokkaðist tæpast sem menningarstarfsemi eða sýndi slíkri stofnun verðskuldaðan sóma. Þá var það ekki talið líklegt að íslensk kvikmyndagerð ætti eftir að vinna sér inn álit eða vinsældir með svona glæpamyndum. (17)

Laugardagskvöldið 6. desember fór lögreglustjóri þess á leit við Óskar Gíslason að sunnudagssýningum myndarinnar yrði frestað og lögreglunni þannig veitt svigrúm til að kanna myndina og meta hvort nauðsynlegt væri annað hvort að banna hana eða ritskoða. (18) Myndin var því tekin úr sýningum sunnudaginn 8. desember á meðan lögreglan skoðaði efni hennar. Strax á mánudeginum mátti sýna hana aftur þar sem niðurstaðan var sú að hún væri ekki bannsins verð. En Tjarnarbíó var orðið afhuga myndinni og vildi ekki sýna hana og varð því að gera hlé á sýningum í nokkra daga. Í grein um Ágirnd sem birtist í Tímanum þriðjudaginn 9. desember var farið afar ófögrum orðum um myndina og hún sögð allt í senn ómerkileg, siðspillandi og ógeðslegur og illa tekinn varningur, sem með réttu ætti að banna, enda óholl hverjum þeim sem á hana horfði. Undir lok greinarinnar spyr svo nafnlaus greinarhöfundur hvernig það geti verið að höfundur myndarinnar sé ung stúlka og tekur fram að það sæti furðu að slík stúlka finnist á Íslandi sem geti soðið slíkan ósóma saman. (19)

 

Leikar róast

Augljóslega tók Svala Hannesdóttir alla þessa óvægnu gagnrýni inn á sig. Það var fokið í flest skjól, meira að segja Ævar Kvaran skrifaði í blöðin þar sem hann sór sig frá öllum tengslum við myndina, án þess þó að gagnrýna hana á nokkurn máta, enda þeim Ævari, Óskari og Svölu vel til vina. (20) Svala brá þá á það ráð að svara fyrir sig í grein sem hún birti í Vísi þann 11. desember. Þar talar hún sérstaklega um þá herör sem blaðamenn Tímans skáru upp gegn myndinni sem Svala lýsir sem „geðröskun“ blaðamannanna. Hún kallar aðför þeirra hina verstu útgáfu af æsifréttamennsku með ósannindum og dylgjum í garð myndarinnar og þeirra sem að henni stóðu, án þess að þeir hefðu séð hana. Þá hafi fjandmönnum myndarinnar yfirsést ákveðin lykilatriði í æsingnum. Markmiðið með sögunni hafi ekki verið að gera siðleysi mannsins hátt undir höfði heldur „var sagan hugsuð sem ádeila á skefjalausa ágirnd, og hugsanlegar afleiðingar hennar.“ Henni þykir það leitt að svo margir virðist leitast við að misskilja og mistúlka viljandi boðskap hennar, sem ætti að vera flestum samboðinn, því myndin endar á því að maðurinn les blaðsíðuna úr biblíunni sem fylgt hafði festinni eftir að hafa kyrkt konuna sína og tekur boðskap hinnar heilögu ritningar til sín. Svala gagnrýnir einnig nafnleysi þeirra sem dæmdu myndina hvað harðast, en Tíminn vildi ekki gefa upp hvaða blaðamenn hefðu skrifað um myndina. (21)

Eftir svargrein Svölu virðist umræðan um myndina koðna og í „Kvöldþönkum“ Vísis þann 13. desember er vöngum velt yfir því af hverju fárið í kringum myndina varð eins mikið og raun bar vitni. Greinarhöfundi fannst myndin ómerkileg en varla hálfdrættingur miðað við margar erlendar myndir sem kvikmyndahúsin sýndu reglulega. Þankarnir halda áfram þar sem myndin er skoðuð á yfirvegaðari máta en áður:

Miðað við íslenzka staðhætti er myndin ekki illa gerð, þótt sitthvað megi að henni finna. Leiktjöld eða sviðin í myndinni sýnast ágæt, og alveg fráleitt er að reyna að læða því inn hjá almenningi, að hér sé eitthvað skaðsemdarfólk á ferðinni, sem að myndinni stendur. (22)

Þá telur blaðamaður illa vegið að myndinni með skrifum sem séu mun ósmekklegri en myndin geti sjálf talist vera en líklega eigi hún í kjölfarið eftir að verða vinsæl meðal almennings sem muni hópast í bíó að sjá skaðræðið.

Sama dag og ró færðist yfir umræðuna með „Kvöldþönkum“ Vísis var myndin aftur auglýst til sýningar, en ekki í Tjarnarbíói heldur Hafnarbíói. (23) Hafnarbíó var þekkt fyrir að vera opið fyrir sýningum á B-myndum og öðru sem önnur kvikmyndahús kærðu sig ekki um að sýna. Gert var út á umtalið og hversu umdeild myndin var í auglýsingum frá bíóinu, enda hafði hún augljóst aðdráttarafl og ljóst að ákveðinn hluti fólks hefur alltaf dregist að hinu ósmekklega og spennandi í kvikmyndum. (24)

Óskar Gíslason hélt sig að mestu til hlés í þessari umræðu, en hann skrifaði Velvakanda Morgunblaðsins bréf þann 10. desember, sem birtist þó ekki fyrr en þann 18., þar sem hann ræðir aðkomu lögreglu að myndinni og að hún yrði bráðlega sýnd í öðru kvikmyndahúsi. Hann segir viðbrögðin við myndinni hafa verið „með broslegum hætti“ og virðist ekki kippa sér mikið upp við þau. (25)

Viðeigandi endir á uppnáminu í kringum Ágirnd kom svo í formi kvikmyndadóms Vísis á Þorláksmessu þar sem listfengi myndarinnar er í fyrsta sinn hrósað. Full ástæða er til að birta dóminn í heild sinni:

Þá kemur loks eftir hléið látbragðsmyndin Ágirnd, sem hneykslað hefur beztu borgara. Myndin er samin af ungri leikkonu, Svölu Hannesdóttur, og leikur hún eitt hlutverkið. Ágirndin er sýnd táknrænt með sögu hálsfestarinnar, sem hefur eigendaskipti, en þótt það gerist þegjandi og hljóðalaust, þá liggur leið perlufestarinnar um spilavíti og hníga menn drjúgum í valinn. Mér var ekki unnt að sjá, að myndin þyrfti að verða okkar dyggðugu borgurum að hneykslunarhellu. Um spilavítin er víst flestum kunnugt nema kannske nokkrum mönnum við Pósthússtræti. En morðin — þau eru auðvitað táknræns eðlis og sýna að mannleg náttúra er alltaf söm við sig. Ágirndin getur brotist fram í ýmsum myndum. Hjá þroskaðri höfundi hefði söguþráðurinn sjálfsagt orðið eitthvað á annan veg. En myndin sem heild er ný og djörf tilraun í túlkunarlist og tekst mörgum leikendum vel. Má þar til nefna auk Svölu Þorgrím Einarsson og Knút Magnússon. Okrarinn var líka skemmtilega gerður af Óskari Ingimarssyni, og ekki þarf að spyrja að því, að myndin er bráðspennandi. Mér fínnst tilraun þessi svo merkileg, að ég hika ekki við að hvetja hina mörgu listamenn til að láta ekki yfirbugast af fúkyrðum bálreiðra samborgara sinna. Þó mætti kannske kvikmyndahöfundurinn fækka eitthvað mannvígum í næstu mynd, án þess að listaverkið biði við það stóran hnekki. En listamenn góðir, reynið að útvega ykkur vanan kvikmyndaleikstjóra, þá er hálfur sigur unninn. (26)

Með þessum orðum er botn sleginn í eitt mesta fár sem skapast hefur í kringum íslenska kvikmynd í sögunni. (27)

Myndin gleymdist ekki svo glatt, því vegna fjölda áskorana var hún aftur tekin til sýninga í Hafnarbíói í febrúar 1953 og svo ferðaðist Óskar með hana til Akureyrar í sama mánuði og sýndi í í bænum. (28) Síðar minntist Óskar á hana í viðtölum og var hún honum greinilega minnisstæð. (29) Myndin var næst sýnd þegar Sjónvarpið efndi til viðhafnarsýningar á henni árið 1979 með formála Erlends Sveinssonar. (30) Í kvikmyndahúsi var myndin sýnd aftur árið 1980 á Íslenskri kvikmyndaviku í Reykjavík. (31) Í auglýsingu fyrir myndina á Kvikmyndahátíð kvenna árið 1985 er hún sögð vera sannkallað brautryðjendaverk konu í kvikmyndagerð, enda leikstjóri og handritshöfundur hennar kona. (32) Fjallað var ítarlega um Svölu og myndina í útvarpsþáttum Viðars Eggertssonar í Ríkisútvarpinu árið 2006, en Kristín Jóhannesdóttir hafði talað um Svölu í viðtali við Viðar og hann gerði þættina í kjölfarið. Þar reynir Viðar að fá botn í gerð Ágirndar og sögu Svölu Hannesdóttur í gegnum viðtöl við þá sem þekktu til. (33)

Eftir fárið í kringum myndina gerði Svala ekki aðra kvikmynd og virðist óvægin umfjöllunin hafa haft áhrif á hana. Þrátt fyrir að hafa dregið sig út úr kvikmyndum og leiklist kom hún af og til fram. Árið 1955 stjórnaði hún skemmtiþættinum Samtíningi í útvarpinu við afar góðar viðtökur. Í bréfi til Þjóðviljans var spurt af hverju slík hæfileikakona sem Svala fengi ekki almennileg tækifæri til að láta ljós sitt skína, enda fjölhæf leikkona þar á ferð. (34) En Svala fékk engin önnur hlutverk á sviði eða fyrir framan myndavélarnar. Hún var viðriðin ljóðalestur í útvarpinu, þýðingar og upplestur á þeim í áratugi, en hafði það þó aldrei sem aðalstarf. Það er ljóst að hæfileikar Svölu voru miklir og var hún hagleikskona þegar kom að listrænni vinnslu verka, eins og ljóða- og smásöguþýðingar hennar eru til vitnis um. Svala lést árið 1993 og var hennar því miður hvergi minnst í minningargreinum og ekkert fjallað um hana í fjölmiðlum. En með aukinni umfjöllun um Ágirnd og meðvitund um gildi hennar sem fyrstu listrænu myndar Íslendinga lifir nafn Svölu áfram um ókomna tíð.

 

Lokaorð

Með því að gera fyrstu listrænu mynd Íslands skipaði Svala Hannesdóttir sér í hóp frumkvöðla á sviði kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndina gerði hún í samstarfi við annan frumkvöðul, Óskar Gíslason, og útkoman varð eldfim eins og komið hefur fram hér að framan. Konur í kvikmyndagerð voru fáar og hurfu oft í skuggann af karlkyns kollegum sínum og svo var lengi með Ágirnd. Mikilvægi þess að grafast fyrir um hlut kvenna í kvikmyndagerð er augljóst, konur eru fáar í kvikmyndasögunni en sess þeirra í henni þarf að vera skýr og vel rannsakaður. Þátttaka kvenna í kvikmyndagerð var ansi slitrótt framan af og eftir gerð Ágirndar var næsta kvikmynd eftir konu, og sú fyrsta í fullri lengd, ekki gerð fyrr en árið 1982 þegar listakonan Róska gerði myndina Sóley (Róska, 1982). Síðan þá hafa konur leikstýrt um 10% allra kvikmynda sem gerðar hafa verið á landinu. (35) Það er gríðarlega lágt hlutfall sem mun vonandi breytast en gerir jafnframt sess Svölu, sem og Ruthar Hanson, þeim mun mikilvægari sem frumkvöðla í kvikmyndasögu Íslands.

 

Tilvísanir:

1. Gunnar Tómas Kristófersson, „Ódauðleg dansspor: Ruth Hanson og dansmyndin,“ Saga 54, nr. 2 (2021): 7–17.

2. Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Konur sem kjósa. Aldarsaga (Reykjavík: Sögufélag, 2020), 278–279.

3. Til að skilja stöðu íslenskra kvenna í kvikmyndagerð í víðara samhengi er grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur ,,Out in the Cold? Women Filmmakers in Iceland“ lykiltexti um efnið en þar fer Guðrún Elsa yfir stöðu og sögu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð og gefur í fyrsta sinn skýra mynd af hvoru tveggja: Guðrún Elsa Bragadóttir, „Out in the Cold? Women Filmmakers in Iceland,“ í Women in the International Film Industry, ritstj. Susan Liddy (London: Palgrave Macmillan, 2020), 179–195.

4. Sjá meðal annars: Tíminn, 19. maí, 1951, 2; „Leikfélag Reykjavíkur: Pi-Pa-Ki eða söngur lútunnar,“ Vísir, 27. desember, 1951, 4 og 6.

5. Hefð hefur skapast fyrir því að nefna Óskar höfund þeirra mynda sem hann kom að því að gera þar sem hann stjórnaði yfirleitt kvikmyndagerðinni, ásamt aðstoðarmanni sínum Þorleifi Þorleifssyni, á meðan Ævar Kvaran sá um að stýra leikurunum og var titlaður leikstjóri. Nú er erfitt að álykta um gerð Ágirndar og ýmsar sögur fara af því hver eigi að teljast höfundur hennar. Kvikmyndir er almennt erfitt að telja sem höfundarverk einnar manneskju þar sem vinna margra liggur á bakvið eina kvikmynd og því er einnig að skipta í tilfelli Ágirndar. Það er ljóst að stílbrögð myndarinnar eru afar ólík því sem Óskar hafði áður gert og efnistökin sömuleiðis. Stærsta breytan í því samhengi er Svala Hannesdóttir í stóli leikstjóra myndarinnar. Með það að leiðarljósi er hægt að álykta að hennar framlag sé til staðar í myndinni og myndin sé fyrsta leikstjórnarverk konu í sögu leikinna mynda á Íslandi. Hér er ekki ætlunin að rýra framlag Óskars Gíslasonar í myndinni enda stendur hann að gerð hennar, en hans arfleifð varðandi Ágirnd liggur í því að veita fyrsta kvenleikstjóra leikinnar myndar á Íslandi brautargengi við kvikmyndagerð og vinna að myndinni í samvinnu við Svölu og sem framleiðandi, stjórnandi kvikmyndatöku og dreifingaraðili.

6. Vísir, 27. desember 1951, 4.

7. Þorleifur Þorleifsson var mikill hæfileikamaður en lét afar lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að hafa tekið virkan þátt í kvikmyndagerð Óskars Gíslasonar. Þorleifur er maður sem þyrfti að rannsaka betur, en það bíður betri tíma.

8. Fyrir mjög gott og almennt yfirlit yfir fagurfræði þýska expressjónismans í kvikmyndum sjá: David Bordwell og Kristin Thompson, Film History: An Introduction (New York: McGraw Hill, 2003), 103–109.

9. Þetta má vel setja í samhengi við kenningar Carol J. Clover um konur sem er refsað fyrir að fara út fyrir kynferðisleg velsæmismörk í slægingarmyndum (sem er undirgrein hrollvekja). Clover talar sérstaklega um Marion Crane í Psycho (Alfred Hitchcock 1960), en hún er drepin fyrir að fara út fyrir þessi mörk. Í morðinu í Ágirnd eru áhorfendur einnig settir í spor gerandans með sjónarhornsskotum úr augum morðingjans líkt og tíðkast í hryllingsmyndum. Þá eru morð eftir samfarir sérstaklega tíð í slægjum, líkt og á við í þessu atriði. Sjá Carol Clover, Men, Women and Chainsaws: Gender in the Modern Horror Film, (Princeton: Princeton University Press, 1992), 32–33 og 62–63. Augljóslega er Ágirnd ekki slægja eða hryllingsmynd, en það er áhugavert að sjá hvernig meðulum sem síðar áttu eftir að verða hluti slægjuhefðarinnar og hryllingsmynda almennt er beitt til að fanga áhorfendur í hlutverki gerandans og um leið magna þátttöku þeirra í glæpum myndarinnar. Þetta allt er til vitnis um þær framúrstefnulegu og nýstárlegu leiðir sem farnar voru við gerð Ágirndar.

10. Björn Ægir Norðfjörð, „Ljós í myrkri: Saga kvikmyndunar á Íslandi,“ Ritið 19, nr. 2 (2019), 19–42, hér 24–25.

11. „3 morð, fjárhættuspil og þjófnaðir í ísl. kvikmynd“, Tíminn, 29. nóvember 1952, 2.

12. „Nýjar kvikmyndir: „Ágirnd“ og „Alheims-Íslandsmeistarinn“,“ Þjóðviljinn, 29. nóvember 1952, 8.

13. Vísir, 2. desember 1952, 2.

14. „Því minna – því betra,“ Þjóðviljinn, 6. desember 1952, 6.

15. „Smámyndasafn í Tjarnarbíó,“ Morgunblaðið, 6. desember 1952, 5.

16. „Þjóðleikhúsið á engan þátt í glæpamyndinni,“ Tíminn, 7. desember 1952, 1.

17. „Velvakandi,“ Morgunblaðið, 7. desember 1952, 8.

18. „,,Ágirnd“ athuguð nánar,“ Vísir, 8. desember 1952, 8. 30 árum síðar ræddi Óskar aðkomu kirkjunnar og biskups að aðförinni gegn myndinni, en hana þyrfti að rannsaka betur, sjá: „,,Gleðst yfir þessari grósku í íslenskri kvikmyndagerð“,“ Tíminn, 20. júlí 1980, 14. Sjá einnig: Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Reykjavík: Sögufélag, 2018), 112.

19. „Glæpakvikmyndin svo ómerkileg að ekki tekur að banna hana,“ Tíminn, 9. desember 1952, 1 og 7.

20. Ævar Kvaran, „Ævar Kvaran afneitar aðild að glæpamyndinni,“ Tíminn, 10. desember 1952, 2.

21. Svala Hannesdóttir, „,,Ómerkilega“ myndin lagði til efnið í aðalfréttina,“ Vísir, 11. desember 1952, 5.

22. „Kvöldþankar,“ Vísir, 13. desember 1952, 5.

23. Alþýðublaðið, 13. desember 1952, 2.

24. Tíminn, 14. desember 1952, 6. Mikið hefur verið fjallað um aðdráttarafl kvikmynda sem miða að því að ganga fram af fólki. Ein frægasta grein sem birst hefur um efnið er líklega: Jeffrey Sconce, „´Trashing´ the Academy: Taste, excess and an emerging politics of cinematic style,“ The Cult Film Reader, ritstj. Ernest Mathijs og Xavier Mendik (New York: McGraw-Hill, 2008), 100–118.

25. „Velvakandi,“ Morgunblaðið, 18. desember 1952, 8.

26. Sv. B., „Óskars Gíslasonar“, Vísir A, 23. desember 1952, 8.

27. Um sýningar á umdeildum kvikmyndum og viðbrögðum við þeim sjá bók Kristínar Svövu Tómasdóttur Stund klámsins. Þar fer hún ítarlega í viðbrögð Íslendinga við klámi og öðrum „ósóma“ í víðara samhengi og hvernig margar myndir voru dæmdar af samfélaginu sem og dómstólum undir formerkjum siðavendni. Einnig má benda á grein Björns Þórs Vilhjálmssonar um bannlista kvikmynda sem kom fram á níunda áratug tuttugustu aldar: Björn Þór Vilhjálmsson „,,Taumlaust blóðbað án listræns tilgangs“. Íslenski bannlistinn og Kvikmyndaeftirlit ríkisins,“ Ritið 19,nr. 2 (2019), 69–133.

28. Tíminn, 5. febrúar 1953, 6; Verkamaðurinn, 13. febrúar 1953, 3.

29. Gylfi Gröndal, „Við notuðum kvikmyndavagninn undir torf,“ Vikan 29, nr. 22 (1967), 24–27 og 40–42, hér 41.

30. „Íslensk kvikmynd frá árinu 1952,“ Þjóðviljinn, 20. febrúar 1979, 13.

31. Tíminn, 28. mars 1980, 18.

32. NT, 16. október 1985, 26.

33. „Sagan af Ágirnd frá 1952,“ Fréttablaðið, 30. desember 2006, 52.

34. „Bæjarpósturinn,“ Þjóðviljinn, 23. apríl 1955, 2.

35. Guðrún Elsa Bragadóttir, ,,Out in the Cold,“ 180 og 183.

Open weekdays
mon - thu 10:00 - 16:00
fri 10:00 - 14:00
Logo Fyrirmyndar stofnun 2023