
Kvikmyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg eftir Óskar Gíslason rekur hetjudáðir meðlima í Björgunarfélaginu Bræðrabandinu sem björguðu 12 af 15 skipbrotsmönnum af breska togaranum Dhoon sem strandað hafði undir Geldingarskorardal við Látrabjarg þann 12. desember 1947. Afrek björgunarfólksins vakti mikla athygli innanlands sem utan og voru meðlimir Bræðrabandsins heiðraðir sérstaklega af Bretum fyrir stórræði sín. Fljótlega var ákveðið að gera þyrfti kvikmynd um afrekið og var hún unnin af Óskari Gíslasyni og björgunarmönnum sem léku björgunina fyrir myndavélarnar við hættulegar aðstæður í Látrabjargi og fjörunni undir hömrunum. Sú merkilega tilviljun átti sér stað við tökurnar að annað skip strandaði í nágrenninu og þurftu björgunarmenn því að stökkva til í útkall. Óskar fylgdi þeim eftir og náði einstökum myndum af björgunarmönnum við störf sín í aftakaveðri í stórgrýttri fjörunni. Óskari Gíslasyni tókst að samtvinna sviðsettu myndirnar af björgunarmönnunum og hinni raunverulegu björgun og búa til eina áhrifaríkustu heimildarmynd kvikmyndasögunnar. Myndin vakti athygli og áhuga erlendis og fengu ýmsir aðilar aðgang að efni hennar og gerðu sínar eigin útgáfur. Síðan þá hefur upprunalega útgáfan orðið ósýningarhæf. Þetta flækir vissulega allar tilraunir til að skilja hvaða útgáfur eru til af myndinni og hvaða útgáfa gæti talist hin upprunalega, en þegar allt er talið saman kom myndin út í sex mismunandi útgáfum í fjórum ólíkum samsetningum. Í þessari grein verður gerð myndarinnar og sýningarsaga rædd en sérstök áhersla lögð á varðveislu myndarinnar og þær ólíku útgáfur sem búnar voru til af nokkrum aðilum á mismunandi tímum. Á ýmsu hefur gengið þegar að meðhöndlun og varðveislu íslenskra filmugagna kemur en saga Björgunarafreksins við Látrabjarg er þó að sumu leyti sérstaklega snúin og tengist það ekki síst velgengni myndarinnar erlendis. Ekki eru mörg dæmi um að íslensk mynd frá fyrri helmingi tuttugustu aldar hafi ferðast jafn víða og verið sýnd jafn oft. (1)
Björgunin fest á filmu
Afrekið sem unnið var undir Látrabjargi í desember árið 1947 vakti mikla athygli á Íslandi sem og erlendis. Á landsþingi Slysavarnafélags Íslands árið 1948 kom Þórður Jónsson á Látrum, formaður Bræðrabandsins, fram með þá hugmynd að sviðsetja björgunina og kvikmynda hana. Ályktun þess efnis var samþykkt á þinginu og ákveðið að festa björgunarafrekið á filmu og aðra slíka atburði ef það væri hægt og fé fengist til. (2) Guðbjartur Ólafsson, formaður Slysavarnafélagsins, segir svo frá tildrögunum að gerð myndarinnar að í kjölfar fundarins hafi málið verið rætt á stjórnarfundi Slysavarnafélagsins þar sem mættur var Óskar Gíslason og samþykkt að senda hann vestur til að kanna aðstæður til slíkrar kvikmyndagerðar. (3) Málið var þó ekki alveg svo einfalt og átti að falla frá gerð myndarinnar vegna fyrirséðs kostnaðar en Óskar bauð þá að gera myndina frítt, og að Slysavarnafélagið myndi aðeins greiða kostnað hans og uppihald, sem og einhver laun til björgunarfólks sem kæmi til með að leika í myndinni. Þegar sýningar hæfust átti Óskar að fá greitt fyrir sína vinnu með ágóða myndarinnar. Þar með tók Óskar töluverða fjárhagslega áhættu en svo áhugasamur var hann um gerð myndarinnar. (4)
Um sumarið fór Óskar vestur og sagði fréttaritari Morgunblaðsins á Patreksfirði frá því að hann væri mættur ásamt aðstoðarmanni sínum, Þorleifi Þorleifssyni, og að þeir væru byrjaðir að taka upp björgunina frá því árið áður ásamt björgunarmönnum á vegum Slysavarnafélagsins, sem sjái um kostnað og undirbúning fararinnar. Þórður á Látrum var búinn að undirbúa tökurnar og kalla saman þá björgunarmenn sem áttu að koma fram í myndinni og var afráðið að byrja á áhættusömustu atriðunum, til dæmis þegar skipsbrotsmönnum var bjargað upp fyrir Flaugarnef, enda yrði áhættusamt að taka slík atriði að vetri til. (5) Blaðamaður sagði þá félaga stefna að því að koma aftur um haustið eða veturinn og taka þá upp vetraratriði. (6) Við sumartökurnar seig Óskar niður þverhnípt bjargið, ofan í fjöruna þar sem björgunin átti sér stað, og tóku nánast allir björgunarmenn frá því árið áður þátt í því að sviðsetja atriðin en heil vika fór í tökurnar á þessum mikilvæga hluta myndarinnar. (7) Ljóst var að Óskar ætlaði að gera afrekinu góð skil. Ekki var þó alveg ljóst hvernig hann ætlaði að setja sjálft strandið á svið, enda gríðarlega flókið og kostnaðarsamt að gera slíkt. Uppi voru hugmyndir um að nýta önnur skipsflök sem finna mátti við strendur Íslands en slík aðgerð yrði snúin og áhættusöm í framkvæmd. (8) Strandaður togari við Grindavík kom sterklega til greina og átti að nota gúmmídúkkur í stað skipverja við sviðsetningu á björguninni. Aldrei kom að því að sú hugmynd væri útfærð fyrir framan tökuvélar og kann það að hafa verið fyrir bestu. (9)
Töluverður áhugi var á kvikmyndagerð Óskars og Slysavarnafélagsins en þó voru ekki allir jafn spenntir fyrir tiltækinu. Til dæmis fann „Sjómaður“ sig knúinn til að skrifa í nafnlausa dálkinn „Hannes á horninu“ í Alþýðublaðinu þar sem hann gagnrýnir gerð myndarinnar. Hann segir að björgunarmennirnir séu látnir endurleika gjörðir sínar og upplifa atburði sem þeir vilja frekar gleyma en að gera hátt undir höfði, sér í lagi þar sem þeir líti ekki á björgunina sem hetjudáð. (10) Þessum skrifum svaraði Guðbjartur Ólafsson, formaður Slysavarnafélags Íslands, í Alþýðublaðinu þann 19. ágúst og rakti tildrög þess að ráðist var í kvikmyndun atburðanna. Guðbjartur varði gerð myndarinnar í grein sinni og sagðist telja að hún gæti orðið mikilvæg sem fræðslumynd um björgun, auk þess sem hann sagði hana gerða í fullu samráði við Bræðrabandið sem hafi átt hugmyndina að gerð hennar. (11)
Annað strand
Í desember 1948 boðaði Þórður á Látrum Óskar aftur vestur til að halda áfram með tökur á myndinni . Nokkrir menn úr Bræðrabandinu voru honum til halds og trausts og léku björgunina, sumir tóku jafnvel að sér hlutverk þrekaðra skipbrotsmanna. Gengu tökur vel en gera þurfti stutt hlé á þeim þegar veður versnaði og það var þá sem hjálparbeiðni barst frá öðrum breskum togara, Sargon, sem strandað hafði undir Hafnarmúla í Patreksfirði. Ruku menn til og gerðu sig ferðbúna til að aðstoða við björgunina sem var í gangi en gekk seint vegna veðurofsa og krefjandi aðstæðna á strandstað. Segir Þórður á Látrum svo af tildrögum þess að Óskar slæddist með út í óvissuna í árbók Slysavarnafélags Íslands árið 1949:
Er ég hafði lokið við að hringja sá ég að Óskar Gíslason, ljósmyndari frá Reykjavík, sem þarna var staddur, hafði klætt sig í skyndi og bjóst til ferðar, ætlaði ég þá að fara að segja Óskari að slíkt ferðalag myndi ekki við hans hæfi, en skyndilega minntist ég þess, að síðast liðið sumar hafði ég reynt bæði kjark og áræðni Óskars, svo myndi einnig verða nú, lét ég þetta gott heita. (12)
Óskar hélt á eftir björgunarmönnum út í óveðrið, hann fékk sérstakan fylgdarmann til að rata út í múlann á meðan aðrir björgunarmenn hröðuðu sér á undan. (13) Eftir stranga göngu fram á morgun komst Óskar út í múlann og eftir að stytti aðeins upp og birta tók reyndi hann hvað hann gat að stilla myndavélinni upp á þrífæti til að ná sem bestum myndum af atburðum. Veðrið leyfði það ekki og tók hann því vélina og hélt á henni við tökurnar. Á myndunum sést hvernig sjórinn brotnar með látum á skipinu sem situr fast í briminu skammt frá landi. Óskar var orðinn dofinn í höndunum vegna kulda og ef myndavélin hefði ekki þrætt sig sjálf hefði honum verið vandi á höndum. Björgunarmenn, sem áttu í miklu basli við að fóta sig á hálu grjótinu, náðu að skjóta línu út í bátinn sem skipbrotsmenn festu og toguðu í kjölfarið björgunarstól út í skipið. Einn af öðrum komust skipbrotsmenn í land í gegnum háar öldur og yfir hrikalegt grjót, og eru myndirnar af því einhverjar þær merkilegustu sem teknar hafa verið hér á landi. Af Sargon komust einungis sex af 16 skipverjum lífs af.
Mikill áhugi var á myndefninu af björgun Sargons erlendis frá en Óskar virðist hafa verið veðurtepptur fyrir vestan í nokkurn tíma eftir björgunina og því ekki náð að svara kalli þeirra fréttaveitna sem höfðu samband við hann um kaup á efninu. Einnig vildi hann klára myndina og gera hana sem best úr garði. Þórður á Látrum skrifaði texta við myndefni Óskars og las hann inn, og er hluti handritsins enn varðveittur á Kvikmyndasafni Íslands. Upptakan fór fram í Radíó- og raftækjastofunni og Jón Þórarinsson tónskáld valdi tónlistina fyrir myndina. Lokaafurðin, sem var um 90 mínútur að lengd, var frumsýnd þann 8. apríl árið 1949 og hlaut gríðargóðar viðtökur, en rúmlega 30.000 manns voru búin að sjá hana um miðjan nóvember. Í millitíðinni hafði hún verið send utan til afritunar og aukaatriði bætt við myndina af komu breskra ráðamanna til landsins til að heiðra björgunarfólkið. (14)
Margar útgáfur
Fljótlega fór að gæta áhuga erlendis frá á myndinni og í desember 1949 var eintak af henni í umferð í Danmörku þar sem Bjarni M. Gíslason stjórnaði sýningum. (15) Myndin var einnig sýnd í Færeyjum í janúar 1950 en tengsl Óskars þangað voru sterk í gegnum færeyska eiginkonu hans, Edith Bech. (16) Í maí árið 1951 var norsk útgáfa af myndinni tilbúin en norska slysavarnafélagið hafði fengið réttinn til að sýna myndina í deildum sínum og afhenti Slysavarnafélagi Íslands auk þess fjögur eintök af henni. Í Noregi var myndin stytt niður í 35 mínútur og endurhljóðsett á norsku með nýrri tónlist. Því miður vantaði nafn Óskars inn á aðstandendalista myndarinnar og því var einnig haldið fram að hún hefði verið tekin með styrk frá breska flotanum sem voru hvort tveggja meinlegar villur. Var styttu útgáfunni mjög vel tekið í Noregi. (17) Árið 1953 var einnig búið að sýna myndina á Englandi og var henni vel tekið þar. Sömuleiðis var myndin sýnd afar oft á vegum deilda Slysavarnafélags Íslands, á fundum, í söfnunarskyni eða einfaldlega til skemmtunar og fróðleiks. (18) Þá var norska útgáfan sýnd í Vestur-Þýskalandi og var svo vel tekið að formaður þýska slysavarnafélagsins, kapteinn Berber-Credner, kom til Íslands til að semja um alheimsréttinn á myndinni. Myndin hafði fengið sérstaka viðurkenningu frá kvikmyndadómnefnd á vegum Þýska sambandslýðveldisins og vakið mikla athygli. (19) Þjóðverjar höfðu fengið norska útgáfu myndarinnar að láni og þótti mikið til hennar koma en eintakið hafði verið of slitið. Föluðust þeir því eftir því að fá frummyndina lánaða og gera þýska útgáfu eftir henni, en í staðinn myndi Slysavarnafélagið fá nýtt afrit af myndinni. Gengið var að þessu en frummyndin þótti einnig ansi slitin eftir miklar sýningar á Íslandi. Í Alþýðublaðinu þann 22. maí 1957 segir um gerð þýsku útgáfunnar:
Kapt. Berber-Credner vann nú af alhug við að útbúa þýzku útgáfuna sem bezt úr garði. Frummyndin var ekki venjuleg negativ filma og það kostaði mikla fyrirhöfn að taka eftir henni svokallaða Dup-Negativ og til að komast hjá að þurfa að klippa frummyndina, lét hann taka Dup-Negativ af allri frummyndinni og lét útbúa það viðeigandi Ijósbrigðum og sjálfur vann hann svo við það margar nætur að klippa niður þetta Dup-Negativ og gera úr því hina samþjöppuðu þýzku útgáfu, sem síðan hefur hlotið mikið lof og hæstu viðurkenningu sem fræðslu- og kultur film í Þýzkalandi. Sjálfur skrifaði Kapt. Berber-Credner þýzka textann með myndinni og fékk tvo forystu útvarpsþuli Þýzkalands til að tala inn á myndina. (20)
Ljóst er að engu var til sparað við gerð þýskrar útgáfu myndarinnar, meðal annars var ný tónlist sett inn á myndina með leyfi frá Die Deutsche Grammophon Gesellschaft. Þýska útgáfan var nokkuð styttri en sú upprunalega en lengri en sú norska eða um 50 mínútur. Íslendingar fengu afrit af myndinni að gjöf frá Þjóðverjum og sýndu á Íslandi við afar jákvæðar undirtektir. Í kjölfarið var ráðist í gerð enskrar og íslenskrar útgáfu á myndinni úti í Þýskalandi. Til að gera íslensku útgáfuna var Ludwig H. Siemsen, aðalræðismaður fyrir Ísland í Hamborg, fenginn til að hafa umsjón með verkinu og Björn Sv. Björnsson sá um íslenska textann við hana. (21) Íslenski textinn var nokkurn veginn bein þýðing af þeim þýska og það sama gilti um enska textann. Villa slæddist þó inn í upphafi myndarinnar þegar því er haldið fram að Sargon hafi strandað á sama stað og Dhoon, sem er ekki alveg rétt því Hafnarmúli er í Patreksfirði en ekki við Látrabjarg. (22)
Þýsk gerð myndarinnar með íslensku tali og nýrri tónlist kom til Íslands í kringum áramótin 1956–1957 og var sýnd á vegum Slysavarnafélagsins og deilda þess um allt land til fjáröflunar og skemmtunar. Myndin hlaut mikið lof hér á landi og einnig erlendis. Fékk hún verðlaun sem framúrskarandi heimildarmynd í Þýskalandi og fylgdi henni ítarlegur bæklingur um björgunina og gerð myndarinnar sem Berber-Credner sá um að gera. Myndin var sýnd víða í Þýskalandi, sér í lagi í skólum, og vakti hvarvetna athygli. (23) Ensk útgáfa myndarinnar ferðaðist einnig víða og árið 1967 var enn verið að dreifa henni til fjarlægra heimshorna. Taldi formaður Slysavarnafélags Íslands hana þá hafa verið sýnda í flestum heimsálfum, í sjónvarpinu í flestum löndum Evrópu og borið hróður Íslands, Slysavarnafélagsins og Óskars um allan heim. (24)
Varðveisla myndanna
Nokkrar útgáfur af Björgunarafrekinu eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands í afar ólíku ástandi, allt frá því að vera illa farnar og án hljóðs yfir í að vera mjög heillegar og með hljóðspori. Flest eintök eru af útgáfunni sem slysavarnafélag Þýskalands og Berber-Credner formaður þess sáu um að setja saman árið 1956. Er sú útgáfa varðveitt með þýskri, enskri og íslenskri talsetningu. Það er sú útgáfa sem oftast hefur verið sýnd hér undanfarna áratugi með íslenskri talsetningu Björns Sv. Björnssonar. Upprunaleg útgáfa myndarinnar, 90 mínútur að lengd með talsetningu Þórðar Jónssonar, var í raun aðeins sýnd nokkrum sinnum á Íslandi áður en hún var send utan til afritunar þar sem stuttum kafla var bætt aftan við myndina. Fyrsta útgáfa myndarinnar er því ekki lengur til. Önnur útgáfa hennar, með viðbótinni, var í kringum 100 mínútur að lengd og hún var sýnd oftast á Íslandi árin eftir frumsýninguna. Hún er töluvert ólík þýsku útgáfunni, með öðrum áherslum á hetjudáðir björgunarmannanna. Myndin er varðveitt á Kvikmyndasafni Íslands og er ástand hennar í lagi en hljóðrásin, sem líklegast var á stálþræði sem fylgdi myndinni, hefur glatast eða eyðilagst við sýningar. (25)
Þýsk gerð myndarinnar tók fljótlega við af annarri útgáfu Óskars í sýningum. Ekki er ljóst hvenær skiptin urðu en eftir 1957 var þýska gerðin sýnd víða um heim á ensku og þýsku og íslensk útgáfa hennar sýnd á vegum Slysavarnafélagsins og sveitum tengdum því á Íslandi, ásamt því að vera sýnd í Sjónvarpinu árið 1967. (26) Samkomulag virðist hafa verið gert um að Þjóðverjar eignuðust alheimsrétt á sinni útgáfu af myndinni fyrir utan Ísland þar sem Slysavarnafélag Íslands hélt honum. (27) Óskar hagnaðist ekki á myndinni en rukkaði Slysavarnafélag Íslands fyrir útlögðum kostnaði og uppihaldi eins og samið hafði verið um sem gerðu 20.000 krónur. Félagið hækkaði þá greiðslu þó í 30.000 kr. vegna þess hve vel tókst til og þar sem hann festi björgunina á Sargon á filmu. Félagið naut mjög góðs af því að eiga réttinn á myndinni enda sló hún aðsóknarmet á landinu og var drjúg í söfnunarsýningum fyrir deildir Slysavarnafélagsins. Óskar sagðist hafa gefið félaginu sinn rétt af myndinni og því ekkert annað fengið en þessa einu greiðslu upp í útlagðan kostnað en sagði jafnframt að hann væri sáttur við að hafa gert vel við félagið. (28)
Norsk útgáfa myndarinnar er varðveitt á Kvikmyndasafni Íslands. Hún var frumsýnd á Íslandi í maí árið 1951 og sýnd meðal annars í Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Ári áður var upprunaleg útgáfa Björgunarafreksins sýnd í Færeyjum og í fjölmiðlum á Íslandi var talað um að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem færeyska heyrðist töluð í kvikmynd. (29) Enn hefur ekki tekist að staðfesta þetta og segja kunnugir að líklegt sé að myndin hafi verið sýnd með lifandi útskýringum á færeysku og hljóðið því ekki spilað af upptöku. Myndin, ásamt ýmsum björgunarbúnaði, var síðan færð Fiskimannafélagi Færeyja að gjöf í upphafi árs 1957, en myndina átti að sýna í fræðslu- og fjáröflunarskyni fyrir björgunarstarf ytra. Fór það svo að á eftir sýningu myndarinnar 21. febrúar árið 1957 var eitt fyrsta björgunarfélag Færeyja stofnað, Havnar Bjargingarfélag. (30)
ÓG = Óskar Gíslason, SVFÍ = Slysavarnafélag Íslands
Útgáfusaga Björgunarafreksins við Látrabjarg og staða varðveislu.
Allt fyrir listina að lifa af
Björgunarafrekið við Látrabjarg er einstök heimildarmynd og söguleg heimild um starfsemi björgunarfélaga á Íslandi. Björgunarstarfið er krefjandi en björgunarfólkið gengur þó enn lengra þegar það býðst til að leika hinar miklu raunir sem það hafði upplifað svo að næstu kynslóðir gætu lært af reynslu þess. Óskar Gíslason á stærstan heiður að myndinni þar sem hann lagði sig ítrekað í hættu við að taka hana upp við varasamar aðstæður. Öll þau sem komu að gerð myndarinnar eiga hana með Óskari: Þórður Jónsson á Látrum, aðrir björgunarmenn, Þorleifur Þorleifsson aðstoðarmaður Óskars og slysavarnafélögin. Við hæfi er að enda greinina á orðum Þórðar þar sem hann hrósar Óskari og Þorleifi fyrir framgöngu þeirra við gerð myndarinnar:
„Ef þú hefir eitthvað eftir mér í blaðinu,“ segir Þórður, „mættir þú minnast á þann dugnað og þann áhuga, sem Óskar Gíslason hefur sýnt við töku kvikmyndarinnar. – Hann hefur lagt mikið á sig og ekkert til sparað til þess að myndin tækist sem best. Og verð ég að segja, að ég dáist að áræði hans og Þorleifs aðstoðarmanns hans, er þeir sigu í Látrabjarg til þess að taka kvikmyndirnar þar.“ (31)
Tilvísanir:
1. Lítið verður fjallað um björgunarafrekið sjálft hér en því hafa annars staðar verið gerð góð skil. Sjá í því sambandi meðal annars: Magnús Gestsson, Látrabjarg: Nytjar, björgun, sögur og sagnir. Skuggsjá,1971; Óttar Sveinsson, Útkall: Björgunarafrekið við Látrabjarg. Útkall bókaútgáfa, 2009.
2. „Ég varð aldrei milljóneri af kvikmyndunum“. Vísir 8.8.1976, bls. 4.
3. Alþýðublaðið 19.8.1948, bls. 4.
4. Guðríður Svava Óskarsdóttir, langafabarn Óskars, skrifaði BA-ritgerð í sagnfræði árið 2016 um kvikmyndagerð hans. Í ritgerðinni vísar hún í skjöl í vörslu fjölskyldunnar, sem og viðtal sem hún tók við afa sinn, son Óskars, sem jafnframt var oft aðstoðarmaður hans. Þetta veitir hvort tveggja einstaka sýn á kvikmyndagerð hans. Landsbókasafn-Háskólabókasafn, Guðríður Svava Óskarsdóttir, Þung spor frumkvöðuls: Kvikmyndaferill Óskars Gíslasonar frá árunum 1944–1957 skoðaður, BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2016, https://skemman.is/handle/1946/24459, bls. 18.
5. Í viðtali við Vikuna árið 1967 segir Óskar um aðkomu Þórðar að myndinni: „Þórður Jónsson á Látrum, formaður björgunarsveitarinnar Bræðrabandið, var í rauninni hvort tveggja í senn: höfundur kvikmyndahandritsins og leikstjóri. Einnig samdi hann og las textann við myndina, og gerði það með stakri prýði.“ (Gylfi Gröndal, „Við notuðum kvikmyndavagninn undir torf“. Vikan 22. tölublað, 1.6.1967, bls. 24–27 og 40–43; bls. 41.) Orðið leikstjóri er hér notað í þeirri merkingu að Þórður stjórnaði leikurunum. Óskar sá um gerð myndarinnar og naut aðstoðar Þórðar ásamt fjölda annarra líkt og eðli kvikmynda kallar á.
6. Morgunblaðið 15.7.1948, bls. 12.
7. „Dhoon-strandið kvikmyndað“. Vísir 4.8.1948, bls. 1.
8. Sama.
9. „Ég varð aldrei milljóneri af kvikmyndunum“, bls. 4–5.
10. Alþýðublaðið 13.8.1948, bls. 4.
11. Alþýðublaðið 19.8.1948, bls. 4.
12. Þórður Jónsson, „Skýrsla um björgun skipverja af breska togaranum „Sargon“ frá Hull, er strandaði að kvöldi 1. desember 1948“. Árbók Slysavarnafélags Íslands 1949. Alþýðuprentsmiðjan, 1949, bls. 23–29, hér bls. 26–27.
13. Þórður Jónsson, „Skýrsla um björgun skipverja“, bls. 27.
14. „Björgunarafrekið við Látrabjarg: Sýningar hefjast eftir helgi“. Þjóðviljinn 8.10.1949.
15. „Metaðsókn að björgunarmynd S.V.F.Í.“. Vísir 8.12.1949, bls. 8.
16. „Kvikmyndin „Síðasti bærinn í dalnum“ sýnd í Færeyjum“. Alþýðublaðið 10.5.1950, bls. 5; „Bjargingarkvikmynd úr Ísland verdur synd í Havn og a bygd“. 14. september 19.1.1950, bls. 1.
17. „Kvikmyndin komin frá Noregi í styttri útgáfu með tali og tónum“. Alþýðublaðið 25.5.1951, bls. 3.
18. „SVF-sveitin fræga „Bræðrabandið“ 20 ára í þ. mánuði“. Vísir 17.7.1953, bls. 1.
19. „Kvikmynd SVFÍ á heimsmarkað“. Þjóðviljinn 20.12.1956, bls. 12.
20. „Framleiðandi þýzku kvikmyndarinnar um björgunarafrekið við Látrabjarg kominn“. Alþýðublaðið 22.5.1957, bls. 12.
21. „Kvikmyndin um björgunarafrekið við Látrabjarg sýnd í Þýzkalandi“. Tíminn 25.8.1957, bls. 2.
22. Þetta er þó ekki alvarleg villa þar sem Óskar hefur sjálfur sagt að strand Sargons hafi verið á „svipuðum slóðum“ og Dhoon og það er almennt talað um strand Sargons sem ótrúlega tilviljun vegna nálægðar við strand Dhoons. Sjá: „„Ég hef gaman af góðum leynilögreglumyndum““. DV 21.3.1987, bls. 52.
23. Morgunblaðið 6.9.1957, bls. 9.
24. „Látrabjargsmyndin er sýnd í Ástralíu“. Tíminn 10.12.1967, bls. 1.
25. Stálþráður var leið til að varðveita hljóð með segulmögnun á löngum næfurþunnum þræði en hún var afar óáreiðanleg þar sem þráðurinn átti það til að slitna eða flækjast og því tapaðist reglulega hluti hljóðrása sem voru geymdar á þennan máta. Líklegast er að upprunaleg hljóðrás myndarinnar hafi verið á stálþræði og sökum áherslu á aðrar útgáfur myndarinnar á sjötta áratugnum hefur hann glatast.
26. Mánudagsblaðið 19.12.1967, bls. 8.
27. „Látrabjargsmyndin er sýnd í Ástralíu“, bls. 1.
28. „Hef alltaf haft áhuga á kvikmyndum“. Þjóðviljinn 15.4.1981, bls. 8–9; „Ég varð aldrei milljóneri af kvikmyndunum“, bls. 4.
29. „Kvikmyndin „Síðasti bærinn í dalnum“ sýnd í Færeyjum“, bls. 5.
30. „Færeyingar þakka“. Tíminn 30.1.1957, bls. 12; „Færeyingar stofna Slysavarnafélag“. Tíminn 26.2.1957, bls. 4; Sosialurin 16.2.1957, bls. 1.
31. „Talstöðvar eru nauðsynlegar björgunarsveitum úti á landi“. Morgunblaðið 8.4.1949, bls. 5.